Þvaðrið um samstöðu!

Að missa vinnuna og verða atvinnulaus er það allra versta fyrir utan það að missa barn eða maka. Það er skelfilegt áfall.  Þér líður eins og þú sért einskis virði. Þú hefur stórkostlegar áhyggjur af framtíð þinni. Þér finnst þú hafa brugðist sem faðir, móðir, maki, sonur, dóttir.  Sértu þunglynd(ur) að eðlisfari er þetta lífshættuleg staða. Þú reynir að halda andlitinu út á við en heima er grátið, starað, rifist eða tekið úr viskíflösku.  Í atvinnuleysysskráningunni eru biðraðir svo allir geti horft á þig vel og lengi. Stéttarfélagið býður upp á fundi með öðrum ,,lúserum”. Farir þú þangað, sem er ólíklegt, líður þér ennþá ver á eftir.

Fyrst trúirðu því jafnvel að þetta sé tækifæri.  Það komi símtal eða tölvupóstur.  En það gerist ekki.  Veruleikinn stðfestir það að þú ert einskisnýt manneskja og vinalaus. Á þessu stigi byrja sjálfsvísgshugsanir að sækja að.

Ef vinur þinn eða kunningi er atvinnulaus skaltu gera þér erindi við hann, upplogið ef ekki vill betur.  Ekki hringja bara til að spyrja hvernig honum líði.  Hann ber sig vel og bandar frá sér einhverri aumingjasamúð. Athugaðu heldur hvort það vantar ekki manneskju til að fara yfir bókhald félagsins ykkar, hvort það vantar ekki einhvern til að stjórna briddskvöldum, hvort hún geti ekki fundið fyrir ykkur félagana ódýra ferð á leik, komið á frönskunámskeið sem stéttarfélagið greiðir, kannski vantar kosningastjóra, manneskju til að skipuleggja fund, dragið hinn atvinnlausa út til einhvers konar þátttöku.

Hættan er sú að þeir sem stjórna samfélögum hafa sjaldnast upplifað atvinnuleysi.  Þetta eru yfirleitt súkkulaðidrengir eða pipamyntukonur sem alltaf hafa verið tekin fram yfir aðra.  Annað hvort vegna þess að fólkið er sjarmerandi eða það hefur stigið flokkspólitíska dansinn af óhuggulegri skynsemi. Ef stjórnendur hefðu sára reynslu í bakpokanum að þessu leytinu til myndi það horfa til atvinnulausra þegar vantaði fólk í ráð og nefndir, vinnuhópa, starfshópa.  Það þarf nefnilega svo ofboðslega lítið klapp á kollinn eða örvun til að bjarga heilu mannslífi, til þess að endurvekja mannsæmandi feril, til þess að tryggja hamingju barns móður eða föður. Og hinn atvinnulausi er ekkert síður hæfileikaríkur en sá sem hangir á vinnu sinni.

Það er þvaðrað um samstöðu og að leggja hvort öðru lið og að standa saman. Þetta syngja þeir sem trjóna efst á haugnum. Slíkt tal er yfirleitt innantómt kjaftæði og hljómar sem háð í huga hins afskipta, því að hann veit að orðum fylgja sjaldnast athafnir sem gagnast honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Baldur og takk fyrir góðan pistil

Já atvinnuleysi eyðileggur samfélög, svo mikið er víst.

Íslendingar verða fljótir að vinna sig út úr þessu. Full atvinna hefur alltaf haft forgang á Íslandi og er aðalsmerki Íslands.

Hér í Atvinnuleysisbandalagi Evrópu, ESB, er staðan ekki til að vekja gleði meðal þegnana. Áratug eftir áratug hefur atvinnuleysi verið á bilinu 8-10%. Núna er það sögulega lágt eða 7,5% en hækkar mjög hratt aftur. Það kæmi mér ekki á óvart að meðalatvinnuleysi í ESB muni fara uppí 12-15% á næstu árum og 20-25% í sumum einstökum löndum innan ESB.

Á meðan vinnum við Íslendingar okkur hratt út úr vandamálunum. H R A T T ! Frelsið, virk sjálfsbjargarviðleitnin og sveigjanleiki hagkerfisins mun sjá fyrir því.

ÁFRAM ÍSLAND!

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 24.10.2008 kl. 16:41

2 identicon

Sæll Baldur

Þökkum þér fyrir góðann pistil. Þú talar tæpitungulaust og hittir í mark.

Ólafur og Bergþóra Forsæti (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 17:10

3 identicon

Með betri pistlum sem ég hef lesið um atvinnuleysi. Vel gert, Baldur.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 18:32

4 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Hér skrifarðu af mikilli skynsemi Baldur og ekki í fyrsta skiptið. Hægt að taka undir hvert orð hjá þér og þó ég hafi ekki sjálfur lent í atvinnuleysi hef ég oft haft slíkt í kringum mig og finnst, að þarna er greinirðu þetta mjög vel.

Hafðu þökk fyrir.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 25.10.2008 kl. 09:19

5 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þakka þér fyrir

María Kristjánsdóttir, 25.10.2008 kl. 15:11

6 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Kærar þakkir. Góðar tillögur.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 25.10.2008 kl. 17:46

7 identicon

Algjörlega nýr flötur á umræðunni um atvinnuleysi. Þetta til þess fallið að kúvenda kjaftabullinu yfir í ganglega orðræðu sem hugsanlega skilar sér í raunverulegum aðgerðum. Og ég segi hugsanlega. Hef enga trú á að mannskepnan muni breyta samkvæmt þessum skynsamlegu ráðum þínum.

sbs

Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 12:40

8 identicon

Atvinnumissir getur auðvitað verið mikið áfall og böl.........en séra Baldur, þó að manni geti þótt vænt um vinnuna er atvinnumissir ekki á sambærilegur við þá sorg að missa barn eða maka.

Þetta ættir þú að geta gert þér í hugarlund án aðstoðar sem rétthugsandi guðfræðingur.

Við í byggingabransanum höfum alla tíð gert okkur grein fyrir möguleikanum á atvinnuleysi og höfum lært að taka það með í reikninginn og lifa við þá staðreynd.

Hins vegar, að missa barn, tekur enginn með í reikninginn fyrirfram og  reynist öllum illbærilegt allt sitt líf.

Það má nú líka oftast finna sér nýja vinnu.

magnus (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 20:20

9 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Hvað er að þér, hvernig lestu, auðvitað er það ekki sambærilegt. Ég tek það sérstaklega fram.Kv. B

Baldur Kristjánsson, 1.11.2008 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband