Sársaukinn í samfélaginu — Guðfræðin og hrunið

Eftirfarandi grein rituð af átta guðfræðingum Önnu Sigríði Pálsdóttir, Arnfríði Guðmundsdóttir, Baldri Kristjánssyni, Hjalta Hugasyni, Pétri Péturssyni
Sólveigu Önnu Bóasdóttur, Sigrúnu Óskarsdóttir og Sigurði Árna Þórðarsyni
birtist í Mbl. síðasliðinn sunnudag:

Sársauki hefur hríslast um íslenskt samfélag síðustu vikur og mánuði, sársauki brostinna vona. Kvíði og ótti hefur seytlað inn hjá ungum jafnt sem öldnum. Í ævintýraheimi barnanna verður kreppan að ófreskju. Fólk á öllum aldri sem hélt að það byggi við fjárhagslegt öryggi í skipulegu og góðu samfélagi finnur jörðina gliðna undir fótum sér. Ungt fólk berst nú við að halda húsnæði sínu sem allt látbragð samfélagsins sagði því að óhætt væri að kaupa. Tugþúsundum saman horfir fólk á eftir atvinnu sinni, ungir sem aldnir horfa á eftir glötuðu sparifé sem ætlað var til húsnæðiskaupa, til efri ára eða til að stuðla að öryggi afkomendanna. Íslenskt samfélag hefur upplifað ranglæti sem snertir okkur öll. Upplifunin er sterk og hún er vond. Við getum orðað það svo að við höfum verið rænd, velferðinni hafi verið stolið og allt átti þetta sér stað í dagsbirtu fyrir framan nefið á okkur. Framtíð barnanna okkar hefur verið sett í uppnám. Þetta eru skrýtnir tímar, umbrotatímar og það er sársauki í samfélaginu okkar. Við erum líka með sektarkennd vegna þess að við trúðum á það sem var að gerast, vorum flest hver ekki á varðbergi ekkert frekar en þau sem áttu þó að vera á verði fyrir okkur, stjórnvöld og eftirlitsstofnanir. Gætum einnig að líðan þeirra.

Klassískum gildum ýtt út

Tíminn eftir efnahagshrunið hefur gengið nærri einstaklingum, fjölskyldum og þjóðinni allri. En hrunið kom ekki úr tóminu, það er ekki eins og allt hafi verið með felldu en svo hafi skyndilega dregið ský fyrir sólu.

Hægt og bítandi hefur klassískum gildum verið ýtt til hliðar. Orð eins og samkeppni, velta, vöxtur og verðbréfamarkaður voru orðin flestum töm. Fátíðari voru hins vegar orð eins og samvinna, umhyggja, sannleikur og vinátta. Glansmyndir voru dregnar upp af ríku fólki og það sett á stall. Gegndarlaus fjáraustur í hégóma var hafið upp til skýjanna. Peningar og gróði urðu mælikvarði lífshamingju. Spurt var um hvað væri löglegt, ekki hvað væri siðlegt eða réttlátt. Vangaveltur um að viðskipti og aðrir gjörningar væru löglegir en siðlausir, meira hafðar í flimtingum heldur en að siðleysi væri fordæmt. Útkoman var hörmuleg, um það er ekki deilt.

Glerhýsi í stað dómkirkju

Tíðarandi hins rangláta kerfis sýnir okkur hvaða verðmæti eru sett efst í þeirri heimsmynd sem því tilheyrir. Í drottnunarkerfum eru það völd og auður. Það sem auðkennt hefur vestræn þjóðfélag í seinni tíð umfram önnur er einmitt þetta: vægi auðs og valda. Flest önnur þjóðfélög litu hornauga græðgi og auðmenn sem bárust á. Nútíma þjóðfélag á Vesturlöndum er hins vegar orðið að „hagkerfi“ þar sem neysluhyggja er meginuppistaðan; Glerhýsi er komið í stað dómkirkju, milljarðarmæringur í stað hetju, forstjóri í stað dýrlings og hugmyndafræði græðginnar í stað trúarbragða.

Kærleikurinn bestur

Það er ekki ofsagt að reiði og sársauki hafi sett svip sinn á undanfarna mánuði — innibyrgð hjá mörgum, en sem betur fer hafa margir látið í sér heyra og krafist réttlætis. Reiði verður að fá útrás og réttlætið verður að ná fram að ganga ef möguleiki á að vera á því að hún sefist. Undir því er félagsleg velferð og líðan okkar allra komin.

Aðkoma okkar sem ritum þessa grein að umræðu dagsins er frá sjónarhóli guðfræðinnar, fræðigreinar sem er samofin arfi kristinnar trúar og húmanískrar hefðar. Það að mæta þeim sem á vegi þínum verða eins og þú vilt að þér sé mætt er lífsregla margra trúarbragða. Í kristinni trú er kærleikurinn til náungans sú undirstaða sem gefin er til leiðbeiningar í samskiptum. Allar rannsóknir sýna að samskipti við aðra skipta höfuðmáli í lífi okkar. Þetta vita þau sem um hafa hugsað.„Maður er manns gaman”, kvað höfundur Hávamála. Hugsanir okkar, tilfinningar og gerðir mótast af því hvernig við umgöngumst annað fólk. Þess vegna er einmanaleiki tærandi en náungakærleikur nærandi.

Oftrú á frjálsan markað

Það er alvarlegt þegar samkeppni er allsráðandi en samkennd, samvinna, samhugur og um leið samviska eru lögð til hliðar. Samkeppni, einstaklingsfrelsi og oftrú á fyrirbæri eins og frjálsan markað leiðir til einangrunar og einmanaleika sem jafnvel þau sem virðast hafa allt til alls og aðgang að öllu og öllum finna fyrir. Það getur líka virst klisjukennt að tala um náungakærleika sem er andstæða einagrunar og vísar til mikilvægs grunngildis sem kristin trú deilir með fjölmörgum siðakerfum öðrum. Orðið getur virst yfirborðskennt og óþægilegt. Af þeim sökum og ýmsum öðrum er umræðu um kristin gildi líka oft mætt með fálæti. Slíkt tómlæti stafar ekki alltaf af því að fólk taki afstöðu gegn gildum af þessu tagi heldur getur það stafað af söknuði eftir innihaldi. Það virðist sem þau hafi skort þann hljómgrunn í samfélaginu sem fólk jafnvel óskar. Hér á landi tilheyra langflestir kristinni kirkju. Við getum því ætlað að almenningur byggi líf sitt á gildum sem sótt eru til hennar en samfélagið allt, lagaumhverfi okkar, saga og menning byggja á þeim grunni. Á undanförnum árum hefur verið vegið að þessum gildum og þau smámsaman máðst út úr umhverfi okkar. Þessi gildi sem flest eru sammannleg þarf því að endurreisa þar á meðal náungakærleikann sem tengir okkur saman og minnir okkur á að við myndum eina heild. Það skiptir máli en hefur gleymst á tímum hraða, græðgi og áherslu á eigin hag — oft á kostnað náungans. Hegðun af þessu tagi hefur kallað fram sársauka og við verðum að þora að finna til. Við þurfum að horfast í augu við þá óþægilegu tilfinningu að við höfum verið svikin. Stefna einstaklingshyggju og hugmyndafræði um markað sem stjórnaði sér sjálfur og leiddi sjálfkrafa til bestu niðurstöðu fyrir samfélagið hefur beðið skipbrot. Eftir stöndum við hnípin, reið og full blygðunar. Við köllum eftir réttlæti, köllum eftir raunverulegri iðrun sem er forsenda allra sátta og fyrirgefningar en hún er síðasta skrefið í erfiðu sáttaferli. Þess verður ekki krafist að þolendur fyrirgefi án þess að í ljós verði leitt hverjir beri ábyrgð á því hruni sem orðið hefur og þeir geri yfirbót, bæti fyrir brot sín með áþreifanlegum hætti.

Erindi guðfræðinnar

Sá vandi sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir nú er ekki aðeins hagfræðilegur eða pólitískur heldur ekki síður guðfræðilegur. Guðfræðin býr að orðfæri sem talar inn í sársauka samtímans. Guðfræðin fjallar um gildi sem snúast um velferð, um náungakærleika, um samskipti og sjálfsskoðun. Guðfræði á erindi í umræðu um mannleg kjör. Hún sér fyrir sér samfélag þar sem félagslegt réttlæti ríkir og þar sem menn bera virðingu hver fyrir öðrum og láta sig skipta aðstæður hvers annars. Allt eru þetta grundvallarþættir í kristinni kenningu og eru síður en svo einkamál þeirra sem kalla sig stjórnmálamenn eða hreyfinga sem kalla sig flokka. Kannski er hluti af óförum okkar fólginn í því hver sem við erum, hvað sem við fáumst við, hverjar sem vonir okkar og þrár eru að við létum of fáa um að leiða umræðuna sem leiddi okkur inn í öngstrætið. Við sem hér skrifum ætlum að láta af því fyrir okkar leyti og deila sýn okkar með öðrum. Við ætlum leggja orð í belg í fleiri greinum hér í blaðinu, fjalla um líðan fólks eftir hið efnahagslega hrun og benda á hvaða gildi við teljum að leggja eigi áherslu í því samfélagi sem við hljótum að byggja hér upp í sameiningu. Það verður að vera réttlátt samfélag þar sem fyrst og fremst er tekið tillit til þeirra sem höllum fæti standa, samfélag þar sem kristin og sammannleg gildi um kærleika, hógværð, umhyggjuna verða lögð til grundvallar. Guðfræðin getur að sjálfsögðu ekki svarað öllum spurningum sem leita á hugann ekkert frekar en hagfræðin, stjórnmálafræðin, læknisfræðin eða lögfræðin. Nálgun hennar að viðfangsefninu er önnur og hún er gagnleg. Það er hafið yfir allan vafa af því að guðfræðin spyr fyrst og síðast um það sem mestu máli skiptir –manninn í samfélagi við skapara sinn og alla sköpun. Þessi grein er því aðeins upptaktur hjá okkur sem hér ritum. Við munum á næstunni fjalla um íslenskt samfélag á yfirstandandi tímum sem valda mörgum svo miklum sársauka.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Prýðileg "guðfræði" og tímabært að kennimenn kirkjunnar láti snarpar frá sér heyra.

Sjálfur "predikaði" ég á degi aldraðra - 1.maí 2008 - í Húsavíkurkirkju.  Það var svosem ekki nein tímamótakenning, en ég er býsna hreykinn af því að hafa birt hana á gamla vefnum mínum  strax þá.  www.bensi.is

Góðar stundir

Benedikt Sigurðarson, 24.2.2009 kl. 23:21

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég hef miklar skoðanir á sársauka. En ég nenni ekki að tíunda þær hér nema það að ég mótmæli því þegar gefið er í skyn að einmana fólk skorti kærleika, það liggur í orðunum í greininni. Mín reynsla er sú einmitt sú að einmana fólk og jafnvel einfarar hafi mestan kærleika en þeir minnstan sem mest tala um kærleika. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.2.2009 kl. 00:41

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Auk þess held ég að þolandi geti fyrirgefið þó gerandi sýni enga iðrun. En það er auðveldara ef einhver iðrast. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.2.2009 kl. 00:44

4 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Eftir hryðjuverkin 11. september var haft eftir frægum bandarískum trúmanni að kenna mætti trúleysingjum, hommum og "liberals" um hryðjuverkin þar sem þeir hefðu skipulega unnið að afhelgun samfélagsins, t.d. með því að bola bænum úr skólum og boðorðunum tíu úr opinberum byggingum.

Mér þykir málflutningur ykkar guðfræðinganna (sem ég hefði viljað kalla ríkiskirkjufólk) og margra kollega ykkar undanfarið minna mig á málflutning Jerry Falwell um árið.

Mér finnst satt að segja ljótt af ykkur að reyna að nota ástandið og örvæntinguna í ykkar hag.

Lokaðu augunum og sannfærðu þig um að ég sé að leggja þig í einelti og þú sért talsmaður umburðarlyndis. Ef þér líður betur með þetta þannig.

Matthías Ásgeirsson, 25.2.2009 kl. 00:52

5 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Ég þakka ykkur sem rituðuð þennan pistil og hvet ykkur til að halda áfram.

Hins vegar er eins og það sé bannorð að tala um sult, en þannig er komið fyrir of mörgum Íslendingum.  Við erum ekki bara að tala um ævisparnað. 

Persónulega held ég að mér finnist léttbærara að lifa með efnahagsástandinu og sameinast um að komast í gegnum það, heldur en siðleysið sem verið hefur í þjóðfélaginu áratugi og hríðversnað.

Stundum verður sú tilfinning mín næsta óbærileg 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 25.2.2009 kl. 01:07

6 identicon

"Þessvegna er einmanaleiki tærandi og náungakærleikur nærandi".  Ég vona að þið meinið ekki að einmana fólk hafi ekki kærleik eða hafi e-ð minni kærleik en hinir.  Það væri hræðilegur dómur á margan einmana manninn í heiminum. Og bæði mikil mistök og rangdómur sem þarf að laga í þessum skrifum þar sem það lítur þannig út.

EE elle (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 15:28

7 identicon

En samt takk fyrir fullt af góðum pistlum.

EE elle (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 15:42

8 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Elle og Sigurður G. Nei, auðvitað meinum við það ekki. Við vorum með það í huga að einmanaleiki er einmanaleiki og það er erfitt að vera einmana, það er ekki það sama og að vera einn. Það fer illa með mann að vera einmana.  Í framhaldinu hefðum við etv. átt að segja að samand við aðra væri nærandi þvi að einmana maður getur auðvitað verið fullur af kærleika til náungans. Þakka góða gagnrýni á textann sem kemur sér vel áður en þessu verður bætt í Biblíuna. kv. B

Baldur Kristjánsson, 25.2.2009 kl. 17:08

9 identicon

Sæll Baldur og þakka þér og þeim hinum fyrir góða grein.

Mig langar til að taka undir það sem þið segið um umræðuna og þáttöku kristins fólks í henni sem hlýtur að mótast af þeim gildum sem eru þeirra lífssýn

það er ef til vill rétt að benda á að innan kristninnar eru margar deildir eins og í öðrum trúarbrögðum og eiga sum lítið sameiginlegt sema Jesú svo lífssýn kristins fólks getur verið mjög breytileg

Auðvitað er kirkjan ekki bara fólk sem er vígt til starfa innan hennar eða guðfræðingar sem villja leggja sitt af mörkum til umræðunnar.  Stundum finnst mér fólk sem ekki er menntað í guðfræði of hikandi við að taka þátt í umræðunni.

Þó hér sé rætt um þáttöku kristins fólks í umræðunni er auðvitað ekki verið að segja að aðrir eigi ekki að taka þátt í henni líka.

Svo er annað sem liggur mér á hjarta.

Það má ekki koma fyrir að fólk leiti hjálpar hjá presti eða djákna og fái ekki þá hjálp sem það þarf.

Ég veit að stundum hafa aðstæður sem fólk kemst í þau áhrif að það dregur úr framtakssemi og sjálfsbjörg.. Hef reynslu af því.

Þess vegna er ekki nóg að láta fólk fá bæklinga eða bækur og segja því hvað það þarf að gera og hvert það á að snúa sér og óska því svo góðs gengis. Stundum þarf beinlínis að hjálpa  til og fylgjast með hvernig gengur..

Bestu kveðjur, H.P.

Hólmfríður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 19:07

10 identicon

Gott að vita að þið meintuð það ekki, Baldur. Takk kærlega fyrir svarið og útskýringuna.

EE elle (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 19:31

11 identicon

Stundum er betra að byðja um miskun ekki réttlæti. jg ("Reiði verður að fá útrás og réttlætið verður að ná fram að ganga ef möguleiki á að vera á því að hún sefist. Undir því er félagsleg velferð og líðan okkar allra komin.")

Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 21:45

12 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Takk fyrir greinina. Athyglivert að sjá hvernig kirkjan presenterar þátttöku sína núna á tímim lítillar vonar, lítillar gleði og almennt bágs ástands. Þetta var fallegur texti og hlýr eins og búast mátti við frá góðu fólki.

Ég á tvö sjónarhorn til. Um leið og ég þakka aftur fyrir góða grein, vil ég benda á "lífið með Kristi".  Fyrra sjónarmið mitt er: Hvað tapaðist með efnahagshruninu? Lifskjör?  Fjárhagslegt öryggi? Við erum jú öll lifandi. Í hverju fólst þetta fjárhagslega öryggi?  Að lífssparnaður margra lá í hlutabréfum - var það "öryggi"?  Versnuðu lífskjör okkar?  Fá börnin okkar ekki eftir sem áður að læra að lesa, við fáum aðhlynningu þegar við verðum sjúk eða slösumst. Við fáum þjónustu í öllum greinum atvinnulífs og þjónustu sem völ er á í heiminum. Hvað er það sem tekið var frá okkur sem skipti okkur mestu máli?

Var fjölskyldan tekin frá okkur? Var matur og heilsugæsla tekin frá okkur? Hefur skólum verið lokað og við svipt möguleikum til framhaldsmenntunar á hæsta stigi?   Nei. 

Ó jú, hlutabréfamarkaðurinn hrundi.  Fyrra sjónarmið mitt er semsagt: Hurfu okkar helstu gildi og það sem okkur er dýrmætast.  Höfum við ekki bara komið nær því sem Kristur vill að við skulum nálgast, hinum æðri gildum. Boðskapur Krists hvetur okkur að flokka það sem er mikilvægt og sinna því umfram allt: Það er kærleikurinn til Guðs og til náungans. Þetta má svo útfæra þannig að (a) við elskum Guð. Við elskum hvort annað (b) og þar hafa kannanir sýnt að flestir setja fjölskyldu og vini efst á listann. Lýðræði og réttur til málfrelsis, réttur til menntunar og aðgangur að læknisþjónustu, ferðafrelsi og jafnrétti. Jú fleira má telja til og listinn verður langur, en svona hefur það sýnt sig að manneskjan "forgangsraðar" og oftast raðast efnisatriðin sem nefnd hafa verið ofarlega en alltaf meðal 10 efstu og mikilvægustu "mannréttinda" okkar.  Í síðari flokknum verkar Kristur sem viðmiðun okkar.  Hann hefur gefið okkur kærleikann sem helsta áhrifsþáttinn, mannvirðng og réttur af sama meiði og spurningin stendur enn: Hvers höfum við glatað sem skiptir okkur MIKLU máli?

Í starfi mínu í kirkjunni hef ég starfað með fólki sem á enga von. Þetta fólk er borið inn sem lama maðurinn í guðspjallinu til kirkjunnar af vinum. Lama maðurinn er "apatískur" það er að segja ófær um að hreyfa sig eða tala. Hann er "sálrænt máttvana".  Oft eru þetta manneskjur sem glatað hafa von, öryggi, réttindum og eru í raun "persona non grata" (náðarlaust fólk). EKki er það Kristur sem hefur svipt þessa einstaklinga náð, heldur samfélagið. Samfélagið, stjórnvöld hafa afskráð þetta fólk eða gert það "náðarlaust". Oft eru þetta innflytjendur (löglegir/ólöglegir) eða fólk sem komist hefur á kant við lögin og á erfitt með að samlagast samfélagsgerðinni aftur á ný. Bæði vegna eigin skoðanna og samfélagsins. Náðarlausir einstaklingar eiga bara eina von, að vera "bornir til Krists". Enginn beygir kné við þeirra hlið, Samverjar samfélagsins eru fáir og ekki sjaldan kirkjunarfólk verst i hræsni sinni og reyna að kalla til alla sem mögulegt er til að "sjá um einstaklinginn".  Sagan um miskunnsama Samverjan fær í hvert sinn nýtt líf þegar einn svona er borinn inn í kirkjuna.

Kirkjan á ekki að vera safnhús fyrir dýrðlinga. Hún á að vera sjúkrahús fyrir syndara. Kristur er úti á Lækjartorgi, Kristur er í Smáralind, Kristur er í þér og í mér!  Okkar er bara hleypa honum að, gefa honum rödd og hendur, hlýjan faðm og vera náunga okkar, náungi.  Þar er ég kominn að síðara atriðinu; "lífi með Kristi". Lífið með Kristi vaknar í grasrótinni hið innra. Að leyfa sér að "helgast" að byrja nýtt líf, að taka ábyrgð fyrir sjálfum sér (þótt síðar á langri ævi) er að hleypa lífsgildum Krists inn í samfélagið og inn í okkur. 

Kristur er miðlægur frá fyrsta andadrætti. Maðurinn samastendur af líkama, sál og anda. Líkaminn tilheyrir hinu jarðneska, andinn er Guðs gjöf og sálin er bland beggja. Hún er rödd okkar, hur við breytum og vilji okkar. Í henni eru draumar okkar, langanir og ótti. Sálin er eins og jurt. Jurt sem þarf ljós, yl og næringu. Sinnum við sálinni vel verðum við hamingjusöm. Umhverfisþættirnir eru þá minna mikilvægir, en það sem verður mikilvægt í stað þeirra eru fyrrnefnd lífsgildi - þættirnir sem við veljum í 10 efstu sætin í forgangsröðun okkar. 

Takk aftur fyrir góðan pistil.

Baldur Gautur Baldursson, 26.2.2009 kl. 08:44

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þá veit maður það að þeir sem ekki eru ''hamingjusamir'' sinna sálinni ekki nógu vel. Helvítis fokking rugl!

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.2.2009 kl. 00:10

14 identicon

Já, sammála Sigurði.  Fólk getur verið óhamingjusamt vegna óviðráðanlegra hluta Baldur Gautur og kemur engu við um að sinna neinni sál.

Vesturfari (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband