Hinn óhjákvæmilegi dauði Sjálfstæðisflokksins!
27.2.2009 | 14:58
Mikið er ég ánægður með nýju ríkisstjórnina. þetta eru svolitlir heimsborgarar og hafa nú valið frábæran mann frá frábæru landi sem Seðlabankastjóra. (Sem er stórmannlegt miðað við flótta okkar þaðan fyrir 1000 árum).
Því má halda fram að dauði Sjálfstæðisflokksins(sem nú er kominn oní 26%) hejist í 12 ára samstarfi með Framsókn. Samstarfið hafi m.ö.o. verið bræðrabylta þegar allt kom til alls. Á þessu skeiði sem útá við einkenndist af frjálshyggju einangraðist flokkurinn í afstöðu sinni til umheimsins, klúðraði samskiptunum við Bandaríkin og varð um leið óevrópskur. Sjálfir leiðtogarnir töldu sig í ætt við Tatcher, Reagan, Chile og Nýja Sjáland. Með handafli færðu þeir umræðuna hérlendis langt til hægri.
Sjálfstæðisflokkurinn er auðvitað stofnaður um hugsjónina sjálfstæði (1929) og hefði með réttu átt að lognast út af á sjötta áratug síðustu aldar. Tvennt kom honum hins vegar til bjargar. Í fyrsta lagi samstarfið við Gylfa Þ. Gíslason í Viðreisnarstjórninni sem varð til þess að flokkurinn féllst á aukið frjálsræði í viðskiptum og inngöngu í EFTA. Seinni björgunin var samstarfið við Jón Baldvin Hannibalsson sem leiddi flokkinn enn lengra inn á evrópska efnahagssvæðið. Í samstarfinu við Framsókn sem stóð í 12 ár var hins vegar lokað á umheiminn og þetta hefði orðið fullkomin veröld ef ekki hefði orðið fyrir evrópugrillur Halldórs Ásgrímssonar, sem ólíkt flestum öðrum Íslendingum varð ekki hræddur þegar hann fór út í heim heldur spenntur og ákafur.
Núverandi ríkisstjórn getur hugsað út fyrir landsteinana til Norðurlanda og Evrópu. Vinni hún sigur í kosningunum í vor eru töluverðar líkur á því að lífskjör á Íslandi verði á næstu árum og áratugum sambærileg við það sem þau eru í Noregi, Svíþjóð, Danmnörku og Finnlandi. Það er margt sem við getum lært af þessum grönnum okkar eftir að hafa horft allt of lengi og allt of stíft, eins og dómgreindarlaus börn, til Chile og Nýja Sjálands og Bandaríkja Reagan stjórnarinnar.
Og það verður erfitt fyrir Framsókn í kosningunum. Nú er togað í unga og reynslulausa foystumenn þess flokks úr öllum áttum og þeir vita ekkert í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Í prófkjör þess flokks flykkist fólk úr ýmsum áttum með ýmis konar skoðanir. Svoleiðis flokkur er bara fyrir þá sem vita ekkert í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.
Og svo ég botni fyrirsögnina: Dauði Sjálfstæðsiflokksins er auðvitað óhjákvæmilegur nema nýr Gylfi eða nýr Jón Baldvin dragi hann til nútímans til aukinnar jafnaðarmennsku, frjálslyndis og til samstarfs við aðrar þjóðir og alþjóðlegar stofnanir.
Stoltenberg fyrsti gestur seðlabankastjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:08 | Facebook
Athugasemdir
Sérkennilegt er að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eiginlega snúist upp í það að verja formanninn fram í rauðan dauðann. Það virðist engin takmörk vera fyrir því hvaða umdeildar ákvarðanir Davíð hefur tekið, alltaf eru menn til í að verja vitleysuna eftir á, fremur en að vara hann við áður að taka rangar ákvarðanir. Hvers konar „vinir“ eru þeir sem það gera? Eru þeir gjörsamlega vitgrannir að rangar ákvarðanir leiða af sér heimsku?
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 27.2.2009 kl. 16:14
Er nokkur möguleiki að því síra Baldur að þú farir að skrifa eilítið minna en með heldur meiri gæðum.
Jóhann Ólafsson, 27.2.2009 kl. 20:43
Ekki er ég sjalli.
En þú virðist vera kominn af sporinu í þínum málflutningi. Þú veist væntanlega hvað hefur verið að gerast í heiminum undanfarna mánuði???
Þú klárlega vilt feta í fótspor sjallana???
itg (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 20:52
..Svakalega náðirðu þér skemmtilega á strik núna séra minn.
Þessi foringjadýrkun í sjálfgræðisflokknum er ekki ný af nálinni, hún viðheldur sér og nú er "allt útum læri og maga", af því enginn er foringinn til að mæna uppí og gleypa allt sem kemur frá...hrátt.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 27.2.2009 kl. 22:32
Hef alltaf gaman af hugleiðingum þínum. Mér finnst Sjálfsstæðisflokkurinn vera samansafn margra ólíkra og ósjálfstæðra hópa. Þessir hópar síðan oftast fylgt sér undir stjórn sterkra leiðtoga. Áður en upplýsingaþjóðfélagið rann upp var auðveldara fyrir þá leiðtoga, sem ekki voru þeir öflugustu, að halda flokknum saman. Þar að auki voru skilin gagnvart andstæðingu skírari. Núna þegar flokkurinn hefur haft kraftlítinn foringja sem er að kveðja þá kunna flokksmenn ekki fótum sínum forráð. Gallinn við mikinn leiðtoga er að skuggi hans er svo stór að blómin dafna ekki í nálægð hans.
Alltaf á 16. passíusálmur Hallgríms erindi við okkur.
Kv. Jat
Jón Tynes (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 22:43
Minn ágæti séra Baldur, með sömu rökum munu vinstri menn beiti handafli til að færa umræðuna til vinstri. Það tel ég síst þjóðinni til heilla. Texti þinn er ljóðrænn eins og prestum sæmir, en á kostnað dýptar - textinn er grunnhygginn.
Minnimáttarkennd vinstri manna, sem speglast í því að sækja seðlabankastjóra til útlanda, Noregs (!), er uppgjöf og undirlægjuháttur af versta tagi. Við eigum fleiri menntaða og hæfari menn að sinna þessu starfi en uppgjafa sósíalista frá Noregi. Þessi ráðning er vanvirðing við valinkunna íslenska hagfræðinga sem hafa í fullu tré við þennan ágæta norska dreng og gott betur. Mestu áhyggjur margra vinstri manna voru m.a. atgervisflótti ungra íslendinga til útlanda, hvaða skilaboð sendir þessi ráðning til þeirra?
Sagt er að íslendingar verði að endurheimta traust seðlabankans við erlenda aðila, leysum við það með því að ráða norðmenn til starfa hér? Ef svo er af hverju ráðum við ekki Stoltenberg og Halvorsen í embætti forsætis- og fjármálaráðherra á Íslandi?
Amen eftir efni.
Steini (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 00:00
Það er akkúrat ráðið Steini minn, ef allt fer endanlega á hliðina, það er að fara bara undir Norska kónginn aftur, þá förum við undir Stoltenberg og Halvorsen....Fengjum við það annað, manneskjulegra kvótakerfi í sjávarútveginum líka.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 28.2.2009 kl. 00:24
Góðan dag sr. Baldur
Nágranni þinn er hér ritar er bæði ánægður með ríkisstjórnina og ritlið þitt, þarf þó ekkert að vera sammála öllu er stendur þar.
Einn gesta þinna opinberar misskilning á minnimáttarkennd, heldur að það sé að sækja bankastjóra til Noregs, í stað þess ófaglega sem aldrei ætlaði að sleppa stöðunni. Var hann þó ófaglega ráðinn, líklega án auglýsingar og gæti verið haldinn þessari sömu kennd.
Kv. frá Inga Heiðmari
IHJ (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 03:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.