Ísland: Slæleg frammistaða í jafnréttisbaráttunni?!
7.3.2009 | 09:21
Alþjóðadagur kvenna er 8. mars, sem ber upp á sunnudag. Vonandi koma skýrslur í blöðum þann dag um stöðuna í þessu landi óupfyllts orðagjálfurs. Konur fá hér á landi væntanlega laun til jafns við karlmenn, ábyrgðarstöður til jafns við þá, annar hver forstjóri er væntanlega kona, annar hver ráðuneytisstjóri, annar hver þingmaður. Þetta er því miður ekki svona: Þó er önnur hver ráðstýra kona.
Er það furða þó að jafnréttisbaráttan gangi illa. Stórmenn sögunnar eru karlar, tungumálið er karllægt, skáldin eru karlar. Guð er karl og afkvæmi hans sonur. Enn eru fegurðarsamkeppnir(kvenna) partur af menningunni!!! Ungar konur verða ímyndunarvinnu kynslóðanna að bráð. Hvar sem litið er eru fyrimyndirnar karlkyns eða kvenkyns eftir ,,mikilvægi og ,,ábyrgð starfa.
Í Evrópu eru konur að meðaltali 28,6% af ráðherrum (sem er gamaldags og fúlt orð) en eru aðeins 21,7% þeirra sem sitja á þjóðþingum. Evrópuráðið hefur sett fram 40% viðmið þegar kemur að skiptingu kynja á þingum. Þeir sem ná markinu eru Svíþjóð 46%, Finnland 41,5% og Holland 41,3%. Belgía 37,3%, Danmörk 38% og Noregur 37,9% eru nálægt lágmarkinu. Ég hef ekki íslensku töluna en þjóð Bríetar, Vigdísar og Jóhönnu er greinilega þarna fyrir neðan.
Aðeins Finnland og Spánn geta státað af því að helmingur ráðherra eru konur og Ísland núna í bráðabirgðastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Besta ráðið í þessum efnum er auðvitað að framlengja líftíma hennar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:22 | Facebook
Athugasemdir
Það er mjög mikilvægt að íslendingar framfylgi þessari reglu en eftir að hafa skoðað framboðslista flokkana til prófkjörs tel ég ljóst að mikið vantar upp á að konur séu þar 40%. Ég tel jafnréttisbaráttuna vel á veg komna hér en betur má ef duga skal.
Hilmar Gunnlaugsson, 7.3.2009 kl. 15:05
Ertu alveg að tapa þér, Baldur minn? "Guð er karl og afkvæmi [sic!] hans sonur."
Þú þarft nú ekki að fríka út í femínismanum fyrir sunnudagssamkunduna, þótt þú getir ekki predikað þannig. Og hvar á jarðríki er verið að rembast meira í þessum jafnréttismálum en hér á Norðurlöndunum?
Jón Valur Jensson, 7.3.2009 kl. 23:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.