Þjóðfélag vonarinnar — félagslegt réttlæti

þessi grein birtist í Morgunblaðini 15. mars sl.. Höfundar: Anna S. Pálsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir, Baldur Kristjánsson, Hjalti Hugason, Pétur Pétursson, Sólveig Anna Bóasdóttir, Sigrún Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson:

Á undanförnum vikum höfum við sem þetta ritum velt fyrir okkur stöðu samfélagins eftir hrun efnahagskerfisins. Við höfum leitað í smiðju guðfræðinnar, sjónarhorn og viðmiðanir við greiningu eru sótt þangað. Við höfum rætt um sársaukann í samfélaginu og ranglætið sem þegnarnir hafa orðið fyrir. Við höfum talað um mikilvægi þess að sannleikurinn komi fram og að sáttargjörð sé forsenda fyrirgefningar. Kjarni trúarinnar er von og traust, sem eru grundvallaratriði í þeirri vinnu sem framundan er við uppbyggingu nýs samfélags.

Sólin nái að skína á alla

Við gætum reynt að lýsa tilfinningum okkar þannig að við höfum hrapað niður í djúpa gjá, liggjum skorðuð á botni hennar og getum okkur hvergi hrært. Það er stutt í uppgjöf og vonleysi. En við megum ekki gefast upp. Lítum upp að brúninni, þar sem dagsbirtan er, reynum að losa okkur og förum að fikra okkur upp á við. Það verður að finna nýja leið upp skorningana, ásana, gilin, en stefna ótrauð upp á við. Við verðum að vera samstíga. Vonin í bland við viljann verður að fá að gefa okkur vængi. Við skulum setja okkur það takmark að ná brúninni, saman. Þetta verður engin hraðferð, við hlaupum ekki við fót heldur tökum þetta skref fyrir skref. Okkur tekst þetta ef við vöndum okkur og höldum utan um hvert annað. Þegar upp er komið njótum við sólarljóssins saman, sumir dagrenningarinnar, hjá öðrum skín sól „á háum heiðum himni“ og einhverra bíður kvöldsólin.

Um leið og við leggjum áherslu á samfélagslega ábyrgð er mikilvægt að gleyma aldrei ábyrgð okkar sem einstaklinga, við eigum að láta okkur varða líf og líðan hvers annars. Veljum fólk til forystu með gott hjartalag.

Íslendingar vilja vinna, eru duglegir og uppátækjasamir, bjarga sér. Við skulum nota þá eiginleika rétt.

Hvernig verður gott samfélag til?

Von er einn helsti drifkraftur mannsins, von um betra hlutskipti og betri heim, von um réttlæti, von um sigur lífsins yfir dauðanum.

Það er öllum orðið ljóst að trúin á hina ósýnilegu hönd markaðarins sem átti að færa okkur velmegun er komin í þrot, hugmyndafræðin gekk ekki upp. Niðurstaðan er sú að óheftur markaður er siðlaus. Hin taumlausa markaðshyggja skildi eftir sig sviðna jörð, sló bæði leiðtoga og lýð blindu og orsakaði siðrof. En við eigum okkur von um að öllu miði fram. Til þess að það megi verða þurfum við að taka höndum saman. Við þurfum að kannast við sársaukann, mótmæla ranglætinu og stuðla að sáttargerð í samfélaginu. Við eigum að reyna að smíða eins réttlátt og gott samfélag og við getum. Eigi okkur að takast það er ekki nóg að horfa til hagfræði- eða stjórnmálakenninga heldur verðum við að tileinka okkur af alvöru þau gildi sem mörg hver eru kennd við Krist. Siðvæðingin byggir á klassískum húmanískum og kristnum gildum: Náungakærleika, vináttu, góðvild, umhyggju, hógværð, hófsemi og hjálpsemi. Við trúum því að þessa eiginleika eigum við að rækta með okkur sjálfum enda metum við þá mest í fari annarra. Þannig verður gott samfélag til. Við erum að tala um samfélag fólks sem lætur hjartað ráða för, fólks sem lifir eftir hinni einföldu ráðleggingu að „allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra“.

Gamla Ísland og hið nýja

Það hefur verið mikið rætt um hið gamla og nýja. Við teljum að ekki eigi að leitast við að endurreisa hið „gamla Ísland“. Það Ísland sem hrundi var afleiðing hins „gamla Íslands“, samfélags sem ekki var reist á traustum grunni jafnréttis, jafnræðis, jafnra tækifæra og réttlátrar skiptingar lífsgæða. Þess vegna fór sem fór. Við viljum Ísland sem tekur bæði hinu gamla og nýja fram.

Við köllum hið nýja þjóðfélag sem við ætlum að byggja upp þjóðfélag vonarinnar. Þjóðfélag vonarinnar er lýðræðislegt samfélag, það er frjálst samfélag – með aðgreindu löggjafarþingi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi. Við viljum banka sem þjóna fólkinu en ekki öfugt. Allar stofnanir samfélagsins verða að vera gagnsæjar. Við viljum geta treyst því að lýðræði og réttlæti sé grundvöllurinn. Virðingin fyrir manneskjunni skal ávallt höfð í fyrirrúmi.

Mannréttindi í öndvegi

Í þjóðfélagi vonarinnar er áhersla lögð á velferð, góður gaumur gefinn hag fatlaðra, aldraðra, öryrkja, barna og allra þeirra sem ekki geta annast sig sjálfir. Þessi verkefni eru kjölfestan í velferðarsamfélaginu. Þau gefa lífinu gildi.

Mannréttindin eru hornsteinn hins nýja samfélags sem við sjáum rísa við dagsbrún. Virðingin fyrir manneskjunni, rétti hennar til lífs og lífshamingju skal vera miðlæg. Til greina kæmi að mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði með einhverjum hætti felldur inn í stjórnarskrá Íslands. Við gerð hans lögðu saman mætir menn frá öllum helstu menningar- og trúarbragðasvæðum veraldar. Við ættum einnig að hafa að leiðarljósi 1. grein viðauka númer 12 við mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar mismunun af hvaða tagi sem er afdráttarlausari en núverandi 65. grein stjórnarskrárinnar.

Sameign í orði og á borði

Biblían leggur áherslu á þjónustu mannsins við alla sköpun Guðs, ráðmennskuhlutverk. Sú ráðsmennska hefur vissulega verið misnotuð til þess að réttlæta rányrkju og hvers konar yfirgang gagnvart náttúrunni og jafnvel öðru fólki. Þetta er þó mikilvæg líking sem kallar okkur til sérstakrar ábyrgðar gagnvart umhverfi og samfélagi . Einkarétt og einkahagsmunum skal setja takmörk því ráðsmaðurinn er ekki herra og aldrei einræðisherra. Það byggir raunverulega á því að maðurinn hafi verið settur yfir sköpun Guðs og beri í senn að nýta hana og varðveita fyrir komandi kynslóðir. Við skulum hafa þetta í huga við myndun þess Íslands sem rís upp af rústum hins gamla. Gleypugangur liðins tíma sýnir okkur að það er óþarfi að gína yfir öllu. Við skulum leitast við að finna jafnvægi nýtingar og verndar. Njótum þess að eiga fallegt land og gjöful fiskimið. Þessi verðmæti eiga að vera sameign okkar ekki bara í orði heldur einnig á borði. Okkur er falin mikil ábyrgð og við eigum ekki að skorast undan henni. Skyndigróði gærdagsins er hrunin spilaborg, komum okkur útúr þeim hugsanagangi. Verum skynsöm og hugsum til komandi kynslóða um leið og við hugum að líðan hvers annars hér og nú. Við skulum halda vöku okkar, gjár hafa myndast í samfélaginu, hefjumst þegar handa við lagfæringar. Verkfærin eru ábyrgð, samvinna og réttlæti. Gætum þess framar öllu öðru að leyfa sólinni að skína á alla.

Höfundar eru guðfræðingar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað er félagslegt réttlæti, meira en innantóm orð notuð á hátíðarstundum.

haukur gunnarsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband