Gunnar, Þórbergur og Gvendur dúllari
3.1.2007 | 09:59
Ég fékk alltíeinu alveg nóg af Skáldalífi Halldórs Guðmundssonar. Hvað er ég að lesa um ástarlíf Þórbergs og þó sérstaklega Gunnars Gunnarssonar síðu eftir síðu- Þetta er ágætlega skrifað í þeirri merkingu að orðin koma í réttri röð, en hvað kemur mér þetta við?
Allt í einu segir rödd í huga mér: Lestu Þórberg drengur, lestu Fjallkirkjuna. Ég hendi frá mér bókinni í miðju framhjáhaldi Gunnars Gunnarssoanr, rýk í bókahilluna, og ríf út æfisögu Árna prófasts Þórarinssonar og hef lesturinn. Hvílík snilld, hvílík stílbrögð. Þetta er íslenskt frásagnarmál. Ég hef satt að segja aldrei lesið þessa æfisögu. Af því sem Þórbergur ritaði hefur hún orðið útundan. Áður en ég datt út af og bókin á gólfið las ég kaflann um Guðmund dúllara. Ekki vissi ég, eða hafði gleymt því, að hann var bróðursonur Árna Þórarinssonar. Vilji menn lesa eða rifja upp vel skrifaðan kafla í íslenskum bókmenntum mæli ég með frásögninni af Gvendi dúllara í meðförum Þórbergs sem er meistari íslenskrar tungu.
Mín bíður þriggja binda ritverk. Og svo er það Gunnar Gunnarsson. Við afgreiddum hann í gamla daga sem úreltan og ég man að ég gafst upp á Fjallkirkjunni eftir þrjár blaðsíður. En það hlýtur að vera eitthvað spunnið í rithöfund sem lagði Danaveldi að fótum sér og þýskaland hálft.
Eftir allt á ég Halldóri Guðmundssyni nokkuð að þakka fyrir það að hafa endurvakið áhuga minn á þessum tveimur rithöfundum og auðvitað sérstaklega Þórbergi sem var mitt uppáhald lengi framanaf.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:24 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er eitthvað sem ég verð að lesa...
GK, 4.1.2007 kl. 23:14
Blessaður! Og hefðir att að gera fyrr. Hvernig næ ég mynd af "bloggvinum" á forsíðuna?
Baldur Kristjánsson, 4.1.2007 kl. 23:42
Heill og sæll, Síra-Baldur. Hressilega var þetta skrifað hjá þér, maður sér þig fyrir sér þar sem þú lognast út af grútsyfjaður eftir ofgóðan skammt af Þórbergi og Árna. Já, vissulega voru þeir skemmtilegir, og þið Sunnlendingar gætuð nánast gert ykkur "ferðamannaiðnað" úr ímyndinni sem þeir skópu þar af Gvendi dúllara.
Ég er nýdottinn inn í það af sjálfsdáðum að álpast á réttu tæknilausnina til að fá bloggvinina til að birtast á síðu minni. 1) Farðu inn í STJÓRNBORÐ. 2) Veldu ÚTLIT. 3) Veldu svo (úr línunni sem birtist þar fyrir neðan) SÍÐUEININGAR. 4) Flyttu svo boxið BLOGGVINIR úr dálkinum vinstra megin yfir í dálkinn þar við hliðina. -- Au revois, M. Cosmopolitain.
Jón Valur Jensson, 5.1.2007 kl. 21:26
Okkur kemur þetta víst við! Ég vil endilega vita allt um Þórberg. Ég hélt reyndar alltaf að hann hefði verið heilagur maður og alveg náttúrulaus! Nú veit ég betur og hef eiginlega ekki náð mér. Það veit guð!
Sigurður Þór Guðjónsson, 12.1.2007 kl. 02:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.