Heilög staðfest samvist!

Æ mikið er það gott að sex og hálfur prestur af hverjum tíu geti hugsað sér að sjá um lögformlegu hlið þess að tveir samkynhneigðir einstaklingar gangi að eigast.  Á grundvelli þessarar niðurstöðu má búast við því að Kirkjuþing heimili okkur prestum að gefa fólk saman í heilaga staðfesta samvist.  Og það eru konur og ungprestar sem ryðja brautina og opibera frjálslyndi sitt í skoðanakönnun sem gerð hefur verið opinber m.a. í Morgunblaðinu. Þeir prestar sem eru komnir yfir miðjan aldur eru skv. fréttinni heldur á móti svona ráðslagi.

En hvers vegna ekki að ganga alla leið?  Hvers vegna ekki að hafa eitt hjónabandsform fyrir hverja þá tvo lögráða einstaklinga sem vilja gefast hvor öðrum. Ég held að sú leið sé sú eina sem haldi í við framtíðina jafnvel nútíðina.Vandi kirkjunnar er að fornir textar og hefðbundnar og gamlar útleggingar setja hugsun kennimanna hennar skorður. Þetta átti við um þrælahald þar sem kennimenn hengdu sig í ítarlegar leiðbeiningar Guðs til Móse um það hvernig ætti að kaupa og selja þræla.  Þetta átti við um kvenpresta vegna ýmissa texta Páls postula og nú á þetta við um hjónabandið þar sem Jesú virðist í orðum sem eru ætluð honum bara gera ráð fyrir sambandi karls og konu (þó að bæði geti út af fyrir sig verið samkynhneigð).

Jesú Kristur var á undan sinni samtíð. Hann kom inn í staðnaða veröld þar sem trúarleiðtogar voru löngu hættir að hugsa en bundu trúss sitt við árþúsunda gamlar reglur.  Það sem stóð í trúarbókinni var endanlegt.  JK ruddi brautina fyrir nýjum hugmyndum og nýjum hugsunum þar sem manneskjan og kærleikurinn voru sett í öndvegi.

Í dag er kirkjan á eftir.  Mannréttindahreyfingin til að mynda Evrópuráðið sem er í fararbroddi mannréttindamála í heiminum hefur fyrir löngu tekið af skarið um það að allar manneskjur skuli njóta þeirra réttinda sem þjóðfélagið býður upp á án tillits til m.a. kynferðis. Þetta er sjálfsögð hugsun og sú eina sem hindrar misrétti.Í stað þess að túlka gamla texta þröngt ættu guðfræðingar að reyna að hugsa eins og Jesú Kristur gerði. Velta við steinum, sjá hlutina upp á nýtt og láta aðeins virðingu fyrir manneskjunni móta hugsun sína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Toshiki Toma

Amen, séra Baldur, amen. Takk kærlega fyrir þessa færslu.

Toshiki Toma, 22.8.2007 kl. 11:43

2 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Mikið er ég sammála! Þetta eru sannarlega góð orð! Takk fyrir !

Sunna Dóra Möller, 22.8.2007 kl. 12:00

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta líkar mér!

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.8.2007 kl. 12:52

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Frábær lesning. JK var sko maður að mínu skapi!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 22.8.2007 kl. 15:11

5 Smámynd: Viðar Eggertsson

Mikið er alltaf gaman að lesa orð prests, sem geisla af mannkærleika, umburðarlyndi - og síðast en ekki síst: heilbrigðri skynsemi! Takk, mættum við oftar heyra slíkt af vörum presta og þeirra sem binda trúss sitt við kærleiksboðun biblíunnar - og aðra boðun hennar.

Takk aftur, Baldur, sérstaklega með hjónvígslun tveggja einstaklinga. "Staðfest samvist" er skrípamyndarorð af hjónabandi - fyrir hugleysingja.

Orðið "hjón" er dregið af orðinu "hjú" og gerir engan greinarmun á kyni þeirra sem eru hjón/hjú, því er hjónaband fullgilt orð fyrir tvo einstaklinga af sama kyni sem vilga stofna til hjúskapar.

Viðar Eggertsson, 22.8.2007 kl. 19:47

6 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Auðvita get ég verið þessu sammála EN ég held samt að það hljóti að vera samviska hvers prests sem verður að ráð í trúmálum. Þess vegna er ég á þeirri skoðun að það eigi að taka frá prestum réttindin til að gefa fólk lögformlega saman í hjónaband. Hjónaband í nútímasamfélagi er borgaralegur gerningur sem hefur ekkert með trúað gera. Svo er það í valdi hvers prests að ákveða hvort hann/hún sé til í að blessa hjónabandið.

Ásgeir Rúnar Helgason, 22.8.2007 kl. 20:16

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er ágætis byrjun. Næsta skref er þá væntanlega að fara að gefa saman í hjónaband hvaða tvo eða fleiri einstaklinga sem það kjósa, eða hvað? Er það ekki líka brot á mannréttindum systkina, mæðgina, vina eða vinkvenna sem búa saman að meina þeim að ganga í hjónaband nema þau, þær eða þeir sofi saman líka, hafi einhvern tíma gert það, ætli sér það eða geti einfaldlega hugsað sér það?

Þorsteinn Siglaugsson, 22.8.2007 kl. 22:03

8 Smámynd: María Lind Ingvarsdóttir

Ég er sammála því að tveir lögráða einstaklingar ættu að mega gefast hvort öðrum. Tímarnir breytast og samfélagið með... En stóð ekki í biblíunni að það væri kona og karl sem ættu að eigast? og að þess vegna sé kirkjan á eftir þar sem þó að samfélagið og tímarnir breytast þá breytist biblían ekki með...

María Lind Ingvarsdóttir, 22.8.2007 kl. 23:31

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eins og þú getur ímyndað þér, Baldur, er ég innilega ósammála þér.

Þú átt ekkert erfitt með að rífa þig frá meginstraumi allra kristinna kirkna, sé ég.

Sömuleiðis er Páll postuli og boðun hans í þessu efni bara núll og nix hjá þér, tók því ekki einu sinni fyrir þig að minnast á hann aukateknu orði, og fór hann þó með fullt postulavald frá frelsara sínum og var að áliti Lúthers eins konar höfuðkirkjufaðir hans lúthersku kirkju.

Hraðbyri siglirðu frá anda Nýja testamentisins með þessari útvötnun þinni á kristinni kenningu frá upphafi -- hennar sem líka sér stað í Didache o.fl ritum frumkirkjunnar, en þú kærir þig kollóttan.

Samt telurðu þig á kafi í samkirkjuverkefnum, lagsi! Á nú að freista þess að sameina kristna menn um þetta? Eða er þér svo sem sama um það líka, þótt allt lendi í klofningi og misklíð? Hverjum er bezt þjónað með því, hinum trúuðu eða óvinum kirkjunnar?

Jón Valur Jensson, 23.8.2007 kl. 00:50

10 Smámynd: Daði Einarsson

Best er líklega að taka hjónabandið sem borgaralega stofnun úr höndum kirkjunnar þ.e. hinn lögformlega þátt - en ég held að það skipti flesta meira máli en hið trúarlega. Skrifaði smá pistil um þetta á mitt blogg http://rustikus.blog.is/blog/rustikus/entry/293148

Daði Einarsson, 23.8.2007 kl. 09:28

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvað dvelur þig, Baldur bróðir, að svara mér?

Jón Valur Jensson, 24.8.2007 kl. 12:01

12 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gaman að sjá að þú ert rumskaður aftur, Baldur.

Í sjálfu sér ekki nema gott um það að segja að samkynhneigt par (=tvennt af einhverju) heiti hver öðrum / hvor annarri / eiginorði og búi saman samkvæmt því.

En hreinlega málfarslega þarf karl og konu til að mynda hjón. Annað væri málfarslegt klám. Sumir, sbr. hér að ofan, eru að reyna að rugla þetta með einhverju lögfræðimáli, en í sjálfu sér er þetta einfalt mál. Ekki segjum við þeir hjónin, eða þær hjónin -- nei, það eru þau hjónin og basta.

Sigurður Hreiðar, 24.8.2007 kl. 15:16

13 Smámynd: Svava S. Steinars

Takk fyrir góðan pistil, vantar fleiri menn með þetta hugarfar

Svava S. Steinars, 24.8.2007 kl. 15:23

14 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

En ekki hvað !!

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 25.8.2007 kl. 18:14

15 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

"...Jesú virðist í orðum sem eru ætluð honum..."

Efastu um að þetta séu orð Jesú?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 27.8.2007 kl. 19:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband