Hvimleið þessi eilífa kallaklifun - Um nýju Biblíuþýðinguna-taka 2

Tími líður og alltaf myndast ákveðið bil milli almenns tungutaks og málfars Bibíunnar.  Það má ekki verða þá verður Biblían eins og strandað skip. Biblía verður að taka mið af málfari hvers tíma. Þess vegna verður að þýða öðru hvoru.

 Stundum kemur líka ný þekking til sem breytir skilningi á frumtextanum. Stundum kjósa þýðendur að hafa önnur/fleirri handrit til hliðsjónar en pottþétt einig um hinn eina rétta frumtexta er ekki til.

 Markmið Biblíuþýðenda hlýtur sem sagt að vera texti á eins vönduðu og skiljanlegu máli og frekast er unnt án þess að breyta að þarflausu frá gróinni hefð. Mér sýnist að þessu markmiði hafi verið náð á flestu leyti.

 Stundum þarf þó að breyta frá gróinni hefð eins og t.d í Jóhannesi 3:16 þar sem orðið ,,eingetinn” verður ,,einkasonur” einfaldlega vegna þess að það rétt þýðing á gríska orðinu ,,monogenes.”  Villa leiðrétt.

 Annað sem ég kann vel við er að þó að fleirtölumyndinni vér/oss sé réttilega haldið í litúrgískum, textum, sálmum og bænum þá hefur tvítölumyndinni við/okkur víða verið skotið inn í frásagnartextum.  Þetta léttir stílinn.

 Ánægðastur er ég með að mál beggja kynja er komið inn að hluta til en þetta eilífa kallaklifur í textum er hvimleitt og óæskilega mótandi á bæði kyn,  ein af meginástæðunum fyrir skorti á jafnrétti. ,,Þeir” er sýnist mér breytt í ,,þau” þegar fullvíst er að verið sé að ávarpa bæði kyn. Í stað ,,bræður” er víða komið ,,bræður og systur” eða ,,systkin”. Mér skilst að þessu sé breytt þegar fullvíst er að verið sé að ávarpa bæði kynin.

 Það er löngu ljóst að opinberun Guðs í textum Biblíunnar er sniðin að þeim venjum sem við lýði er þegar opinberunin verður. Á þessum tíma ávörpuðu kallar kalla þó að konur væru viðstaddar og máli væri beint til allra. Þannig fór það því inn í Biblíuna. Menn mega ekki hengja sig á það.  Nógu karllægt er tungumálið samt.  Þess vegna er sjálfsagt að breyta þessu. Það eru engin Drottinssvik, örðu nær og breytinganna er getið neðanmáls.

 Sem sagt:  Ég er ánægður með það sem ég hef séð.

 Þennan texta tók ég saman fyrir 24 stundir og vona að hann hafi birst í morgun, þriðjudag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk fyrir þetta Baldur.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 23.10.2007 kl. 10:21

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég las þetta með ristaða brauðinu í morgun  og rann hvort tveggja ljúflega niður, góð skrif og brakandi brauð.

Svavar Alfreð Jónsson, 23.10.2007 kl. 11:22

3 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Mælt þú manna heilastur !!  Frábært

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 23.10.2007 kl. 17:49

4 Smámynd: Kolgrima

Mig langar samt til að spyrja, Baldur, í sambandi við þetta. Er það vegna þess að Biblían er trúarrit, að "má" breyta fornum texta með þessum hætti? Ég tek það fram strax, að ég er ekki á móti því, heldur er ég sem óforbetranlegur bókaormur að velta þessu fyrir mér.

Sé texti nútímavæddur, bræður og systur koma í stað bræðra áður, þarf það þá ekki að koma fram í útgáfunni? Ný og breytt útgáfa eða með nútímaorðalagi eða eitthvað? Svona eins og gert er við Njálu - sem kemur út í ýmsum útgáfum og oft með nútímastafsetningu?

Mér finnst þetta nefnilega dálítið merkilegt - burtséð frá hugsuninni sem liggur á bak við.

Kolgrima, 23.10.2007 kl. 18:34

5 Smámynd: Baldur Kristjánsson

þess er getið neðanmáls!  Annars er röksemdin m.a, sú að bræður þýði i raun og veru ,,þið" þ.e þau sem ávörpuð eru. En sem sagt þessa er getið neðanmáls. þakka góðar athugasemdir.  kv. B

Baldur Kristjánsson, 23.10.2007 kl. 19:12

6 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll. Kvitt fyrir lesningu félagi, og ég er inniliega sammála þér!

Sveinn Hjörtur , 24.10.2007 kl. 00:07

7 identicon

Heill og sæll, Baldur.

Takk fyrir skemmtileg skrif nú og ævinlega. Úr því að íslensk tunga er meðal umræðuefna að þessu langar mig að spyrja hvort þú ert að fjalla það klifur (sem merkir að príla, klifra) og gerir menn hressa og skýra í hugsun eða klifun (sem merkir tuð, endurtekningu) sem gerir menn syfjaða og sljóa hvort sem þeir eru monogenes eður eður apókrýfir í eðli og hugsun.

Bestu kveðjur!

Þráinn Bertelsson (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 08:52

8 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll Þráinn! Þarna slær orðum saman í fyrsögn minni. Ég er með klifun í huga þ.e.s.a.s þrástag en meðhöndla orðið eins kallapríl þ.e. a. s. kallaklifur. Við þetta þurfum við aumir að búa sem rekum hálfgildings fjölmiðil án þess að hafa nokkurn til að segja okkur til. Og ákafinn er svo mikill að maður verður sér til minnkunnar nær daglega. Ég ætla að laga þetta þó seint sé. Annars príla ég mikið þessa dagana og er bara nokkuð skýr í hugsun. Kv. B

Baldur Kristjánsson, 24.10.2007 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband