,,Tíu stórir rasistar"

Einhver er hissa á því að ég skuli vekja athygli á því að það kunni að vera brot á jafnræði því sem samfélagið vill viðhafa neiti prestur einum en ekki öðrum að vinna prestsverk svo sem að vígja í staðfesta samvist. Þessu er til að svara að auðvitað á kirkjan sjálf að velta fyrir sér öllum hliðum þessa máls.  Það þýðir ekkert að ganga um heiminn með bundið fyrir öll vit og láta alltaf taka sig í bólinu.

 

Illugi Jökulsson snýr öllu á haus í pistli sínum á 24 stundum þegar hann er að fjalla um nýju biblíþýðinguna eins og séra Svavar Alfreð Jónsson sýnir fram á á heimasíðu sinni.  Raunar ólíkt hinum skarpa og réttsýna þjóðfélagsrýni Illuga.

 

Ástæðan fyrir því að ég tek bókum eins og tíu litlum negrastákum ekki fagnandi er sú að ég hef hlýtt á fólk sem á börn frá Afríku og það sýnilega svo og hefur trúað mér fyrir því að stundum komi börnin/unglingarnir þeirra grátandi heim stundum út af því sem sagt hefur verið við þau meiðandi upphátt.  Stundum af því sem sagt hefur verið við þau meiðandi prívat t.d. af svokölluðum ,,vinkonum”.

 

Þessi bók Gunnars Egilssonar og Muggs á óljóst upphaf en hefur efnislega verið endursögð á ótal málsvæði. Hvernig væri að einhver tæki sig til í anda bókarinnar og byggi til bók sem héti ,,tíu litlir rasistar”.  Kannski væri betra að hún héti ,,tíu stórir rasistar". Í henni gætu verið myndir í anda Muggs sem var frábær listamaður.

 

Sú bók gæti orðið ágætis spegill á okkur sjálf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Halldórsson

í bloggheimum er hægt að flækja einföld mál. Foreldrar, leikskólakennarar eiga að undirbúa börn sem ættuð eru frá Afríkur með því að segja þeim að það sé ekki niðrandi að vera negri. Og þegar einhver uppnefnir þau sem með slíku orði er betra að hafa fengið skilaboð frá foreldrum og kennurum að það sé ekkert að því, nákvæmlega ekkert. Annars óttast þau orðið og þá hafa börn vald yfir þeim, jú, þau geta notað það til árása hvenær sem þeim sýnist!

Benedikt Halldórsson, 28.10.2007 kl. 09:41

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll Benedikt!  Ég vísa ekki endilega til notkunar á þessu orði sem er  ekki svo slæmt á íslensku. Ótti minn er hins vegar sá að bókin geti eða gæti ýtt undir rasisma. Mér finnst ágætt að fullorðnir hafi þarna varann á.  Hvað fer ofani undimeðvitundin á þriggja ára gömlu barni við að skoða þessa bók.  Veit það einhver?

Baldur Kristjánsson, 28.10.2007 kl. 10:05

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Þetta snýst ekki bara um að útskýra fyrir börnum, miklu heldur hvernig við komum fram hvert við annað. Þar eru fullorðnir fyrirmyndir og meðan við drögum fólk í dilka vegna trúar, útlits,  kynhneigðar, getu likamlegarar eða andlegrar, þá munu börn gera það einnig. Svona bók ýtir undir þetta en framkoma okkar skiptir meiru.

Nýleg dæmi úr mínu umhverfi:

  • Hreyfihamlaðri stúlku sagt að vera inni að læra meðan bekkjarfélagarnir fara út að leika í góða veðrinu.
  • Náttúrufræðikennari fullyrðir í bekk með 3 börnum af asískum uppruna að allir trúi á Guð.
  • Skikka átti unglingsstúlku utan trúfélaga að fara í kirkjuferð á vegum skólans.

Í Þjóðfélagi sem kemur svona fram við börn er "Tíu litlir negrastrákar" kennslubók í mismunun og rasisma. Í þjóðfélagi þar sem mismunun og rasismi er ekki til myndi líklega enginn taka eftir þessari bók.

Kristjana Bjarnadóttir, 28.10.2007 kl. 10:24

4 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ég skildi bókina á þann hátt sem barn að drengirnir hurfu tímabundið eins og gerðist í ævintýrum og komu svo aftur. Okkur voru sagðar draugasögur, álfasögur, tröllasögur, og allskonar "vitleysissögur." Við uxum upp úr sögunum sem áttu sér enga stoð í veruleikanum. Við hættum að trúa á jólasveinana, á grýlur og leppalúða. Það er fullorðna fólksins að túlka sögurnar og óþarfi að hafa nokkrar áhyggjur ef fólk heldur bara ró sinni. Ef fólk vill gera þessa margræddu bók að samnefnara fyrir fordóma þá held ég að negri verði óhjákvæmilega að skammaryrði. Eftir stendur heimskuleg bullsaga sem ekki er nokkur leið að taka alvarlega nema með þó nokkrum vilja.  Það sem ég við, er að það eina sem gæti orðið meiðandi er orðið negri. Það mætti lesa bókina fyrir börnin samhliða heimska Hans sem svo sannarlega var hvítur. Og ekki steig fólkið í vitið í sögum sem byrjuðu eitthvað á þessa leið: "Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu..." eða sagan af naglasúpunni. Margar sögurnar sögðu af heimsku, klaufaskap og hreinum asnaskap enda er hefð fyrir því að segja sögur af hrakfallabálkum og heimskingjum.

Benedikt Halldórsson, 28.10.2007 kl. 10:33

5 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Hugsanlega Gunnar!  Erum við í lagi??  kv.  B

Baldur Kristjánsson, 28.10.2007 kl. 11:02

6 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Góðar ábendingar hjá þér Benedikt og hægt að taka undir hvert orð. Það er vandalaust að búa til einhver vandræði, jafnvel úr orðinu negri og gera það að skammaryrði í málinu, (sem mér finnst það ekkert vera) ef fólk hefur til þess nógu sterkan vilja.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 28.10.2007 kl. 11:08

7 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Gunnar Þór mætti gjarnan velta því fyrir sér hvernig viðhorf til blökkumanna var almennt í þjóðfélaginu þegar hann var að alast upp.

Matthías Ásgeirsson, 28.10.2007 kl. 11:16

8 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ég get bara svarað fyrir mig, en við strákarnir hötuðum "þýskara" eftir allan áróðurinn í "Combat" en þar voru þjóðverjar alltaf sýnd sem grimm illmenni, algerlega samúðarlaus kvikindi. Í bófahasar skiptust strákar á að vera Indíánar og Kúrekar en ENGINN vildi leika "þýskara," þeir voru hrein ómenni.

En ég hef fyrir löngu skipt um skoðun!

Ég man ekki til þess að við strákarnir lítum niður á negra, við litum á þá sem stríðsmenn með spjót sem áttu til að sjóða hvíta menn með skrýtna hatta. Þeir voru semsagt með spjót og hvíta kokkahúfu og risastóran pott!

Ég hef líka skipt um skoðum á því!

Benedikt Halldórsson, 28.10.2007 kl. 11:29

9 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Ég held að rasistar séu minnihlutahópur.  Þeir eru samt svoldið áberandi og stuðandi þegar það heyrist í þeim, svona eins og ,,vandræðaunglingar" , háværir stundum en eru bara lítið brot af unglingahópnum sem betur fer.  Samþykki hugmyndina með ,,10 litlir rasistar " eða stórir, mjög góð hugmynd.  Þeir gætu svo verið af öllum þjóðernum.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 28.10.2007 kl. 13:09

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég hef upplifað að fá dóttir grátandi heim úr skóla vegna leiðinda í "vinkonum" og son alblóðugan og mikið meiddann eftir barsmíðar í eldri töffurum.  Gef lítið fyrir þetta endalausa mal um rasisma, virðum bara manneskjurnar sem við kynnumst í þessu lífi, jafnt og kennum börnunum okkar það sama, þannig er þetta í lagi.  Börnin mín eiga náfrænku (systkynabörn) sem er alsvört með mikið krullað hár, hún hefur aldrei verið svarta frænkan, bara frænka. Mannvonska er ekki litartengd heldur innræti.

Ásdís Sigurðardóttir, 28.10.2007 kl. 15:53

11 identicon

Hafandi verið röngu megin við áróðurslínuna sem barn, segi ég að það er ekkert sérlega þæginlegt að ganga með nasistastimpilinn frá 2. - 10. bekk grunnskóla á sér. Minnir að leikritið "Andorra" eftir Max Frisch fjalli um þetta líka. Verandi svart barn og láta kalla sig lítinn negrastrák er væntanlega álíka gott og að vera lítill Hafnfirðingur þar sem enginn segir neina brandara nema Hafnarfjarðarbrandara. Ekki beint þroskavænlegt uppeldi. Í þeim anda legg ég til að bókin "tíu stórir rasistar" verði aldrei gefin út. Fyrirgefning er besta hefndin og fyrirmyndin besta forvarnarleiðin.

Carlos (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 16:04

12 Smámynd: Svanfríður Guðrún Gísladóttir

Eru ekki komin nóg skrif um,, negrastrákana tíu"höfðum við sem erum á aldrinum 50-65 ára(bæði eldri og yngri en það)ekki gaman af þessari sögu og ég tala nú ekki um að syngja um þá td.á jólatrésskemmtunum.Ég bjó um tíma í Jerúsalem,ásamt fjölskyldu minni,dóttir mín(Þá 7ára) var á þessum árum mjög ,,ljóshærð"og þegar við gengum úti á götu var alltaf verið að káfa í hárinu á henni Og oft kom hún heim úr skólanum ,,kjökrandi"og bað mig um að lita á sér hárið.Mætti náunga kærleikurinn og nærgættni við fólk ekki vera meiri,?Hvað finnst þér um það séra Baldur. Svanfríður

Svanfríður Guðrún Gísladóttir, 28.10.2007 kl. 20:23

13 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Jú, mér finnst að nærgætnin mætti vera meira.  þakka mörg góð komment.  Mér finnst eiginlega mest til um niðurlag Kristjönu Bjarnadóttur.  kv. B

Baldur Kristjánsson, 28.10.2007 kl. 20:47

14 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Stundum (oftast) held ég að þið hafið hvorki lesið né heyrt þennan texta um negrastrákana 10. Ég sé ekki rasisma eða illmælgi í honum. Vill ekki einhver „góður“ maður taka að sér að benda glöggt á hann? -- Ef þið eruð í vafa er hann á bloggi mínu í dag: auto.blog.is

Sigurður Hreiðar, 30.10.2007 kl. 10:23

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er gaman að lesa svona margþætt álit í viðkvæmu máli án þess að neinn geri sig að flóni.

"Mannvonska er ekki litartengd heldur innræti." Þetta finnst mér vel að orði komist í knöppum texta.

Svona umræða er fyrst og fremst vitnisburður um að fæstum okkar er sama um það fólk sem brýtur upp hefðbundið útlit samfélagsins. Við viljum ekki særa það.

Þess vegna eigum við að ræða öll svona mál og gera það af gætni og rósemi eins og hér hefur verið gert.

Ég hef engu við þetta að bæta en þakka kærlega fyrir mig.  

Árni Gunnarsson, 30.10.2007 kl. 10:43

16 identicon

Bendi ykkur á að lesa blogg Gauta B. Eggertssonar sem setur innahald þessa "skemmtirits" í sögulegt samhengi

Eggert Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 16:59

17 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sigurður Hreiðar!  Rasisminn í þessu er sá að þarna eru ,,þeir" teknir og gerðir kjánalegir eða broslegir og ,,lægri" en ,,við". Hefðu þetta verið ,,við" þ.e. tíu hvítir strákar hefði sagan aldrei komist af stað.  Staðfesting á ímynd sem svo sannarlega var til staðar og er enn. Þú spurðir!  kv.  B

Baldur Kristjánsson, 30.10.2007 kl. 17:53

18 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég er ósammála, Baldur Kristjánsson. Þeir eru ekki gerðir broslegir eða lægri en við, það er einfaldlega sögð hrakfallasaga, að vísu svæsin mjög, af tíu strákum. Þeir hefðu alveg eins getað verið mjallahvítir smalastrákar. Eða bara skólastrákar. Þetta er saga eins og löngum hefur verið sögð börnum og persónurnar látnar skera sig úr til að vera athyglisverðar. Álfar eða tröllabörn, eða hvað annað, óþekktarormar eða hrakfallabálkar, því það er enga sögu að segja af þeim sem eru ekkert, eins og við hvítingjarnir í þessu tilviki.. Tilviljun hér að notaðir eru negrar af því að verið er að yrkja við ákveðið lag, með skírskotun út í heim sem snerti Íslendinga ekki þá og varla enn, að negrar urðu fyrir valinu. -- Í guðanna bænum, hættið að flytja inn vandamál! Látum negra vera negra, gyðinga gyðinga, talibana talibana og svo framvegis! Smalastráka smalastráka.

Sigurður Hreiðar, 30.10.2007 kl. 20:42

19 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Bendi á grein Gauta http://blog.central.is/gautieggertsson?page=comments&id=3363126

Ég eiginlega fyrirverð mig fyrir það að hafa verið ,soft" á þessa bók eftir þann lestur. kv.  B 

Baldur Kristjánsson, 30.10.2007 kl. 20:48

20 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Baldur.

Með fyllstu mögulegri virðingu fyrir þínum sjónarmiðum þá tel ég þau ekki finna sér stað í raunveruleikanum, heldur er hér einungis um að ræða tilraun til þess að finna rasisma þar sem enginn er fyrir. Hver er tigangurinn ?

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 31.10.2007 kl. 01:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband