Af samþykkt Kirkjuþings um ,,giftingu" samkynhneigðra

Ekki dettur mér í hug að gera lítið úr samþykkt Kirkjuþings.  Kirkjan er búin að opna gáttina hjá sér ef svo má segja og hleypir hommum og lesbíum alla leið upp að altarinu.  Nú verður fróðlegt að sjá hvernig spilast úr málum.

 

Kirkjan vildi ekki tala um vígslu í samþykkt sinni, en það verður erfitt að sjá hvernig þetta verður annað en vígsla, prestar eru vígslumenn.  Við munum hér eftir gefa saman homma og lesbíur og í máli fólks verður það að hommar og lesbíur giftast eins og aðrir. Orðið staðfest samvist er óþjált í munni og merkingarlaust í kirkjulegu samhengi og verður ekkert notað.

 

Annað:  Kirkjan vill að frelsi presta til þess að gefa ekki saman homma og lesbíur verði virt. Ég er hræddur um að þetta gangi ekki upp.  Það er í æpandi mótsögn við alla mannréttindahugsun nútímans að aðili sem fer með opinbert vald eða hefur á sinni könnu að framkvæma löggerning geti gert upp á milli fólks að geðþótta hvort sem það kallast samviskuástæður eða eitthvað annað.  Ef að líkum lætur verða prestar löggiltir vígslumenn og þá verður þeim einfaldlega fyrirmunað að hafna fólki á grundvelli uppruna, litarháttar, kynferðis eða nokkurrar annarrar ástæðu sem ekki telst fyllilega málefnaleg.

 

Ég er hræddur um að kirkjuþing hafi ekki hugsað þetta til enda.  Hommar og lesbíur hafa búið við útskúfun, hæðni, dáraskap og jafnvel ofbeldi alla þekkta tíð. Fólk hefur verið inní skápum, unglingar tekið líf sitt. Nú eiga þeir sem búa við samkynhneigð það á hættu þegar þeir leita til sóknarprests síns eða einhvers annars prests að fá Nei í andlitið. Útskúfun aldanna innanúr kirkjuganginum. Nei fá þau af því að samviska mín trú mín leyfir mér ekki að gifta þig eða framkvæma á þér stðfesta samvist. Nei takk, þetta gengur ekki upp.

 

 Prestar þjóðkirkjunnar verða að undirgangast það sem kirkjan tekur að sér að gera. Og það þýðir ekkert að segja að Íslandi þekki allir alla og menn viti hvaða presta er óhætt að leita til. Íslenskt samfélag verður í þessum efnum sem öðrum að haga sér eins og alvöru samfélag.  Hér á að vera og verður að vera samfélag án mismununar. Taki kirkjan að sér svona löggjörning verður hún að gera það án mismununar.

 

Mér finnst miður hvað margir tala niður til kirkjunnar.  Það virðist lenska að fara um hana ófögrum orðum.  Kirkjan er merkileg stofnun og þessi samþykkt Kirkjuþings um homma og lesbíur er hiklaust kirkjuframmúrstefnuleg. Vissulega hefur kirkjan lent í vanda vegna þess að hið veraldlega samfélag er komið frammúr henni í viðleitni sinni til þess að byggja mismununarlaust samfélag þar sem allir búa við sama rétt m.a. án tillits til kynferðis og kynhneigðar(og þar hafa málin snúist við frá fyrri tímum) en íslenska þjóðkirkjan hefur lagt sig fram um að brúa þetta bil.

 

Nú ættu örvar einbeittra að snúa að löggjafanum. Tvenns konar lög eru um hjónabandið eftir því hverjir vilja giftast.  Hommar og lesbíur og aðrir þeir sem vilja eina hjónabandslöggjöf ættu að beina orðum sínum að löggjafanum í stað þess að halda uppi orrahríð að kirkjunni.  Þegar kirkjan er annars vega þora menn að brúka munn. Það er af því að kirkjan er valdalaus á veraldlega vísu. Það vefst fyrir fólki þegar kemur að stjórnmálamönnunum – þá verður orðalagið miklu kurteisara – hvað veldur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ef það væri ekki fyrir ríkiskirkjuna hefðu þessi mál farið í gegn á síðasta þingi.  Það var yfirmaður þinn sem mætti á fund nefndar þingsins og kom í veg fyrir að alþingismenn þjóðarinnar samþykktu að trúfélög fengju heimild til að gifta samkynhneigða.

Það er því út í hött að beina örvunum nú að löggjafanum, löggjafinn lúffaði fyrir kirkjunni þinni. 

Matthías Ásgeirsson, 26.10.2007 kl. 10:34

2 Smámynd: Einar Jón

Góður punktur með löggjafann. Ef að prestur má ekki neita að gera eitthvað af trúarástæðum, hver má það þá?

Allir geta fengið staðfestingu á samvist fyrir lögum, sem er hið besta mál. Af hverju þarf endilega prest til að framkvæma athöfnina?

Gifting hja presti innifelur vissulega staðfestingu á samvist, en hún er meira en það. Mér finnst ekkert að því ef prestar vilja halda giftingu sem einhverju á milli karls og konu. Það væri vissulega vanvirðing við homma/lesbíur að meina þeim að staðfesta samvist sína, en það má ekki vanvirða presta heldur með því að neyða þá til að gifta "Pétur og Pál".

Og Matthías: Á kirkjuþinginu var bara samþykkt að styðja ekki tillögu þess efnis að trúfélög mættu gifta. Kirkjan réð engu í þessum málum og þingmenn voru ekki þvingaðir til að gera neitt. Löggjafinn lúffaði kannski fyrir kirkjunni, en er það ekki löggjafanum að kenna?

Einar Jón, 26.10.2007 kl. 12:00

3 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll Einar!  Punktur minn er sá að ef kirkjan á annað borð tekur þetta inn til sín þá verði eitt yfir alla að ganga.  Væri það talið fært að prestur neitaði að gifta gagnkynhneigð hjón og bæri bið trúarástæðum?  kv. B

Baldur Kristjánsson, 26.10.2007 kl. 12:20

4 Smámynd: Einar Jón

Er nú ekki óþarfi að gifta hjón?

En það fer alveg eftir ástæðunni. Ég er t.d. giftur útlendingi. Ef prestur hefði neitað að gifta okkur því hún er útlendingur/utan trúfélaga/eða e-ð annað, hefði ég virt það og leitað annað. Ekki myndi ég vilja láta prest sem ekki samþykkir samband mitt sjá um athöfnina.

Ég hef bara aldrei skilið af hverju er samkynhneigðum er svona annt um að einhverjir forpokaðir prestar veiti blessun sína á sambandi þeirra. 

Einar Jón, 26.10.2007 kl. 13:26

5 Smámynd: Baldur Kristjánsson

það er alveg óþarfi, ég reyni aftur:  .....gagnkynhneigt par......

Baldur Kristjánsson, 26.10.2007 kl. 13:36

6 Smámynd: Daði Einarsson

Baldur, væri ekki einfaldast að aðskilja lögformlega giftingu og trúarlega blessun á sambandinu? Hjónabandið er löngu orðin samfélagsleg stofnun sem hefur mest lítið með trú að gera. Þar af leiðandi hlýtur að vera eðlilegt að gera það sama og tíðkast víða eða víðast hvar um Evrópu að borgarleg yfirvöld sjá um lögformlega giftingu en trúfélög blessa sambandið ef þeim sýnist svo.

Daði Einarsson, 26.10.2007 kl. 14:08

7 identicon

Við heiðingjarnir í Ásatrúarfélaginu höfum aðeins aðra sýn á þetta mál.

Í mörg ár hefur verið vilji hjá félaginu að fá að gifta samkynhneigða. Það er hins vegar óheimilt samkvæmt lögum. Ásatrúarfélagið hefur hvatt til þess að trúfélögum væri heimilað að gera þetta - en þegar slíkar tillögur voru reifaðar á Alþingi ærðist Þjóðkirkjan og heimtaði að fá að ræða þetta á Kirkjuþingum.

Hvaða rök eru fyrir því að eitt trúfélag, Þjóðkirkjan, fái að halda öðrum trúfélögum í gíslingu í þessu máli svo árum skiptir? Hvers vegna skilgreinir biskup hugmyndir um að einstökum trúfélögum verði í sjálfsvald sett að gifta samkynhneigða sem árás á kirkjuna? 

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 14:11

8 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Á sínum tíma var ég hlynntur þessu heimildarákvæði. En biskupi hefur sjálfsagt þótt að heimildarákvæðið setti ótímabæran þrýsting á kirkjuna. þjóðkirkjan mátti hafa þessa skoðun.  Það er ekki henni að kenna þó farið sé eftir því sem hún segir?  

Baldur Kristjánsson, 26.10.2007 kl. 14:45

9 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

"Það er ekki henni að kenna þó farið sé eftir því sem hún segir?  "

Þetta þykir mér undarlegur málflutningur.  Þjóðkirkjan beitti miklum þrýstingi til að koma í veg fyrir að þetta mál kæmist í gegnum þingið.   Er presturinn farinn að halda því fram að Þjóðkirkjan sé stikkfrí? 

Framkoma biskups hjá nefnd alþingis sem ræddi málið vakti athygli nefndarmanna og sumir höfðu á orði að hann hefði verið "öfgafyllri en Gunnar í Krossinum". 

Matthías Ásgeirsson, 26.10.2007 kl. 16:03

10 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Ég er nú bara alveg hjartanlega sammála þér Baldur.  Þegar um er að ræða löggilt vígslufólk á launum hjá ríkinu þá hlýtur það að þurfa að sinna öllum sínum sóknarbörnum en ekki sortera á e-hvern hátt !!

Og þá er bara að pressa á löggjafarvaldið...............

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 26.10.2007 kl. 18:27

11 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég var stoltur af mínum manni í Kastljósinu áðan, góður og öfgalaus málflutningur, eins og alltaf. Geir Waage gæti lært heilmikið af séra Baldri, (og sjálfsagt öfugt líka) en það verður sennilega seint....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 26.10.2007 kl. 20:03

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það kemur mér ekki á óvart, séra Baldur, að þú með þinn sósíalíska bakgrunn vilt þvinga forræðishyggju þinni upp á þá presta, sem af trúar- og samvizkuástæðum geta ekki hugsað sér að staðfesta samvist samkynhneigðra. ÞEIR eru í samræmi við kirkjuföður þinn Lúther og þá, sem hann bar einna mesta virðingu fyrir af guðfræðingum og kennimönnum fortíðar: heilagan Ágústínus og Pál postula. Allir þrír mæla eindregið og með alvarlegustu orðum gegn því, að tveir karlmenn leggist saman til samræðis.

Þú leggur það fram sem "mismununarmál", að sumir kirkjunnar þjónar veiti ekki samkynhneigðum pörum slíka þjónustu, þeim sem þess óska, og var þó sjálf samþykkt Kirkjuþings í því forminu, að tvítekið var, að þetta ætti að vera prestum frjálst; mér sýnist þú vilja svíkja marga bræður þína í stéttinni og það bara af því að afstaða þeirra sé byggð á "ómálefnalegum forsendum" -- að ÞÍNUM dómi, eins og fram kom hjá þér í Kastljósi Sjónvarps í kvöld!

Þar að auki blasir það við augum hvers hugsandi manns, að vilji fulltrúar ríkisins, þingmenn eða pólitískir flokkar, að samkynhneigðir eigi kost á hjónabandi, er ekkert auðveldara en að leyfa þeim að giftast eða ganga í 'hjónaband' BORGARALEGA hjá sýslumanni. Það er því engin nauðsyn til þess að ryðjast inn á kristna kirkju, sem vill eða á að fylgja Heilagri Ritningu, og ætlast til þess af henni, að hún framkvæmi svona gerning, þvert á móti vilja þúsunda sannkristnari meðlima hennar.

Það mætti halda, að þú álítir vilja þínum í þessu máli ekki verða fullnægt, fyrr en þú og þínir samherjar standið yfir höfuðsvörðunum á öllum þeim prestum, sem halda vilja í afstöðu Biblíunnar í þessu máli -- sjáið þá niður beygða í duftið, látið þá vinna það gegn samvizku sinni að gera það sem þeir vita að er rangt! -- eða segi af sér ella! Og þessa nýju tangarsókn þína í málinu máttu menn horfa upp á strax um sólarhring eftir að Kirkjuþing samþykkti það samhljóða að heimila prestum að staðfesta samvist viðkomandi með þeim skýlausa fyrirvara, "að frelsi presta í þessum efnum verði virt."

Í lokin er eins og þú sért að ögra öllu þessu æsta (og að miklu leyti trúlausa) vinstra- og líberalliði landsins til að ýta Alþingi út í það að beita Þjóðkirkjuprestana nauðung til að gefa saman homma og lesbíur. Það sama má skilja á ummælum Kristínar Þórunnar Tómasdóttur, sem á það sameiginlegt með þér að vilja á geðþóttafullan hátt lýsa staðfestingu samvistar skv. ákvörðun Kirkjuþings sem "vígslu" og snupraði nánast (í ræðu sinni við seinni Kirkjuþingsumræðuna) Karl biskup fyrir að fara ekki að vilja hennar í því efni!

Ykkur er ekki við bjargandi að manna hætti, sýnist mér. En fyrir Guði eru allir hlutir mögulegir. Biðjum, gott fólk, fyrir þeim sem vilja þvinga kristnar kirkjur til þess, sem þeim aldrei var ætlað að gera.

Jón Valur Jensson, 26.10.2007 kl. 20:46

13 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll JónValur!  Þér er mikið niðri fyrir. Ástæðan fyrir þbví að ég velti þessu upp er sú að það kom í hug mér.  það  er betra að velta öllum flötum málsins fyrir sér heldur en að láta taka sig í bólinu.  Bkv. B

Baldur Kristjánsson, 26.10.2007 kl. 21:12

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, Baldur minn, það á ekki að hugsa svona upphátt og djarft án þess að liggja lengi yfir því áður, ella verðurðu einmitt tekinn í bólinu.

Jón Valur Jensson, 26.10.2007 kl. 21:54

15 identicon

Hjónaband hefur hingað til verið helgað konu og karli. Mér finnst það ágætt þannig.  Enginn getur haldið því fram að samband tveggja karla og samband tveggja kvenna sé algjörlega sambærilegt.  Þeir sem það gera eru einfaldlega að blekkja sjálfa sig.  Samband tveggja einstaklinga af sama kyni er nákvæmlega eins mikilvægt og einlægt og samband gagnkynhneigðra.  Eðlismunurinn liggur í því að tveir einstaklingar af sama kyni geta ekki getið barn saman.  Þetta er munur sem ekki er hægt að horfa framhjá.  Þess vegna er einfaldlega ekki hægt að leggja að jöfnu samband karls og konu og samband karls og karls og konu og konu.  Að öðru leyti er vafalaust enginn munur og ástin er sú sama  Auk þess tel ég að hæfileikinn til að vera gott foreldri sé ekki bundinn við kynhneigð.  það er  þessi stóri munur að í gagnkynhneigðu sambandi geta elskendurnir ákveðið hvort þau vija verða foreldrar án þess að spyrja kóng eða prest.  Eðli málsins samkvæmt geta samkynhneigðir það ekki.  Þess vegna er eðlilegt að halda til streitu að hjónaband sé helgað karli og konu eins og verið hefur hingað til.  Sambandi samkynhneigðra para á að veita blessun og með viðeigandi fallegum orðum.  Hjónaband verður áfram milli kalrs og konu.

Auður (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 23:27

16 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Ég var nú svo afskaplega ánægð með þig í Kastljósinu í kveld kæri Baldur og stolt af því að þú uppfræddir son minn í hans fermingarundirbúningi og skírðir dóttur mína !! 

En að þessu blessaða hjónabandi og barneignum,- það geta alls ekki allir gagnkynhneigðir ákveðið hvort þeir vilja verða foreldrar!!  bæði er nú töluvert um ófrjósemi og síðan eldist fólk nú,- nema kannske að konum eftir breytingaskeið verði þá bannað að ganga í hjónaband vitandi það að þær geti ekki eignast barn !! Mér finnst þessi rök um barneignir bara ekki ganga upp !!!

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 26.10.2007 kl. 23:38

17 identicon

Hjónaband hefur hingað til verið helgað konu og karli. Mér finnst það ágætt þannig.  Enginn getur haldið því fram að samband tveggja karla og samband tveggja kvenna sé algjörlega sambærilegt.  Þeir sem það gera eru einfaldlega að blekkja sjálfa sig.  Samband tveggja einstaklinga af sama kyni er nákvæmlega eins mikilvægt og einlægt og samband gagnkynhneigðra.  Eðlismunurinn liggur í því að tveir einstaklingar af sama kyni geta ekki getið barn saman.  Þetta er munur sem ekki er hægt að horfa framhjá.  Þess vegna er einfaldlega ekki hægt að leggja að jöfnu samband karls og konu og samband karls og karls og konu og konu.  Að öðru leyti er vafalaust enginn munur og ástin söm við sig  Auk þess tel ég að hæfileikinn til að vera gott foreldri sé ekki bundinn við kynhneigð.  það er  þessi stóri munur að í gagnkynhneigðu sambandi geta elskendurnir ákveðið hvort þau vija verða foreldrar án þess að spyrja kóng eða prest.  Eðli málsins samkvæmt geta samkynhneigðir það ekki.  Þess vegna er eðlilegt að halda til streitu að hjónaband sé helgað karli og konu eins og verið hefur hingað til.  Sambandi samkynhneigðra para á að veita blessun  með viðeigandi  og fallegum orðum.  Hjónaband verður áfram milli karls og konu.

Auður (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 23:39

18 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Illa finnst mér menn gleyma kærleiksboðskap Krists sjálfs þegar þeir velja hommahatur úr ýmiskonar grimmdarlegum fyrirskipunum Móses sem jafnvel taldi sæma að láta vega 3000 af sínu eigin fólki til að friðþægja Guð vegna kálfslíkans, eða vitna frekar til Páls en Krists sem vissulega var vitur maður en barn síns tíma og gekk ekki samferða Kristi frekar en ég og þú. 

Kærleiksríkur Guð undanskyldi ekki konur eða ataðist út í homma - það hafa hinsvegar karlmenn gert um aldir, og ríkjandi fordómar samfélagsins og valdastéttin sem eingöngu voru karlar hafa valdið slagsíðu á þá hliðina í a.m.k. 2000 ár - það er engin hætta á að nein hugmyndafræði þurrki þá slagsíðu út á nokkrum árum. Í besta falli má aðeins vega á móti henni.

Er það ekki í raun Guðlast í ljósi boðskaps Krists að segja Guð ekki elska homma jafnt og þá fordómafullu sem krefjast misréttis og vilja valda hommum þj´ningum og misrétti, ætli Guð elski ekki börn sín öll jafnt óháð kynferði og hvert ást þeirra beinist?

Helgi Jóhann Hauksson, 26.10.2007 kl. 23:47

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég þakka góð og hlý orð til mín hér í innlegginu á undan.

En nú vil ég svara henni Þórhildi Helgu (kl. 23.38) um hjónabandið. -- Þegar heimspekingar og trúfræðingar töluðu hér áður fyrr um tilgang (á grísku: telos, lat. finis) skapaðra fyrirbæra og samfélagshátta, áttu þeir ekki endilega við eitthvert markmið, sem við mennirnir settum þeim hlutum af okkar geðþótta, heldur íbúandi gildi og nytsemi þeirra samkvæmt þeirri náttúru og því ætlunarverki sem þeim var áskapað af skapara okkar. Nú er það augljóst, að án barneigna viðhelzt mannkyn ekki öldinni lengur eða svo. Til að tryggja stöðugt og farsælt uppeldi m.m. var þörf samfélagsstofnunar, sem er hjónabandið. Eins þarfnast fólk hlýju og öryggis, fæðu, húsaskjóls og ekki sízt ástar og umhyggju. Allt þetta verður hjónabandið farvegur eða rammi til að varðveita og tryggja í annars viðsjálli veröld. Það verður aldrei sagt, að í heildina tekið verði gildi þessa samfélagsfyrirbæris sem barneignar- og barnauppeldisstofnunar nokkurn tímann afstætt, heldur er það absolút gildi, sesm nánast hvarvettna er að sýna sig; og þessi "tilgangur" (telos, finis) þeirrar stofnunar verður ekki frá henni skorinn "í heildina tekið", eins og ég sagði, jafnvel þótt einstök hjónabönd kunni að reynast girndarráð eða hafa verið til fjár eða eru ást(úð)artjáning fólks sem er löngu komið úr barneign eða giftingarsamband fólks sem síðar kemst að raun um, að annað þeirra sé ófrjótt. Þrátt fyrir að vera komin úr barneign og þrátt fyrir náttúruleysi getur fólk gifzt af annarri ástæðu en vegna barneigna, þ.e. af ást og umhyggju, sem er annað höfuðgildi og -tilgangur hjónabands, en hinn tilgangurinn og gildið, barneignir, verður samt aldrei tekinn frá fyrirbærinu sem slíku, þótt einstök dæmi séu þess, að menn fari á mis við þær. Þar að auki ber að benda á, að ófrjósemi hefur aukizt á síðari árum, og verður Skaparanum ekki um það kennt, heldur í ýmsum tilfellum okkur sjálfum, svo sem vegna kynsjúkdóma og fósturdeyðinga. Röksemdin, að barnlaus hjónabönd séu sönnun fyrir því, að hjónabandið sé ekki einungis fyrir karl og konu, stenzt því ekki í reynd. M.a.s. eru gagnkynja sambönd karls og konu ávallt sjálf grunnforsendan fyrir jafnvel tilvist samkynhneigðra og þar með öllum ástarsamböndum samkynhneigðra, sem og öðru því sem líf þeirra býr yfir. Með náttúrlegum hætti er því hjónaband karls og konu absolút grunngildi í samfélaginu.

Jón Valur Jensson, 27.10.2007 kl. 02:37

20 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svo á séra Baldur gersamlega eftir að svara efnislega innleggi mínu í gærkvöldi, 26. október kl. 20:46.

Jón Valur Jensson, 27.10.2007 kl. 21:16

21 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Ef hjónabandið grundvallast svo mjög á barneignum, eins og Auður heldur hér fram, þá ættum við að vera sjálfum okkur samkvæm og banna t.d. öllum konum yfir fimmtugu að giftast, þar sem þær geta að öllum líkindum ekki eignast börn.

Einnig, ef bókstafurinn í Biblíunni skiptir öllu, þá ættu prestar Þjóðkirkjunnar og annarra kristinna safnaða að neita því að gifta fráskilið fólk. Biblían er mjög skýr hvað það varðar:

"Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór." Hjónaband fráskilinna er sem sagt hórdómur, samkvæmt Biblíunni. Getur Þjóðkirkjan verið þekkt fyrir að stuðla að hórdómi?

Svala Jónsdóttir, 28.10.2007 kl. 14:47

22 identicon

Þar erum við afar ósammála, Svala og undirrituð.  Mér leiðast bönn og  öfgar yfirleitt.  Eina sem ég vil halda til steitu í þessu máli er að hjónaband sé milli karls og konu eins og verið hefur lengi, lengi.  Samband karls og karls og konu og konu á að blessa og nefna t.d. samband eða velja annað fallegt orð.  Ég er kannski bara svona gamaldags. 

Auður (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband