Leiðin út - guðfræðingar benda á leið - sáttaleið

Anna S. Pálsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir, Baldur Kristjánsson, Hjalti Hugason, Pétur Pétursson, Sólveig Anna Bóasdóttir, Sigrún Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson rita þriðju greinina í Morgunblaðið í dag og nú um sáttaleið í samfélaginu.

Sáttaleið – Um forsendur fyrirgefningarinnar

8. mars 2009

Atburðir síðustu mánaða hafa sýnt að ranglæti hefur viðgengist á Íslandi. Um það ranglæti höfum við fjallað í tveimur greinum á þessum vettvangi að undanförnu. Einstaklingar og stofnanir hafa valdið eða stuðlað að óréttlæti. Hvernig eigum við, þjóðin, að bregðast við? Nornaveiðar hafa aldrei gefist vel, opinberar hýðingar sökudólga eru ekki heppileg leið til að bæta fyrir brot eða efla heill, hvorki þjóðar né einstaklinga. Ættum við þá bara að fyrirgefa, gleyma fortíðinni og snúa okkur svo að verkum okkar hvert í sínu lagi? Nei, róttækari viðbragða er þörf.

Tími sáttargjörðar og sannleika

Nú er kominn sá tími að mikilvægt er að byrja að huga að leiðum uppbyggingar og sáttar í samfélagi okkar. Mörg dæmi úr sögunni vísa okkur veginn. Eitt hið besta kemur frá Suður Afríku. Á tíunda áratug síðustu aldar var mikil vinna lögð í að þróa sáttar- og fyrirgefningarferli eftir langt tímabil aðskilnaðarstefnu milli hvítra og svartra. Svartur minnihluti hafði verið beittur stórfelldu ranglæti sem gera varð upp þegar aðskilnaðarstefnunni lauk. Skörp skil þurftu að verða þegar stigið var af braut ranglætis yfir á veg réttlætis. Áhersla var lögð á sannleikann: Að allur sannleikurinn yrði sagður.

Það er vissulega munur á því ranglæti sem framið var í Suður Afríku í tíð aðskilnaðarstefnunnar og þess ranglætis sem afhjúpað hefur verið í íslensku samfélagi. Viðbrögð við félagslegu ranglæti hljóta þó ætíð að vera lík enda er tilgangurinn sá sami: Að byggja upp réttlátt samfélag.

Að segja sannleikann er undanfari þess að hægt sé að taka næsta skref í sáttaferli. Þetta var gert í Suður Afríku. Miklum tíma var varið í að leyfa fórnarlömbum kúgunar og ofbeldis að stíga fram og segja sögu sína frammi fyrir kúgurum sínum svo verk þeirra yrðu opinber og öllum kunnug. Þau sem sannanlega höfðu átt mestan þátt í hinu rangláta kerfi aðskilnaðarstefnunnar voru látin sæta ábyrgð og sum sóttir til saka. Áhersla var lögð á að engin sáttargjörð gæti orðið fyrr en allur sannleikurinn hefði verið leiddur í ljós.

Fyrirgefning eða sátt

En hvað merkir sáttargjörð? Merkir hún það sama og að fyrirgefa? Nei, sáttargjörð er annað en fyrirgefning. Fyrirgefning getur verið einhliða. Sáttargjörð er hins vegar alltaf gagnkvæm. Við getum fyrirgefið þeim sem vita ekki af því að þau hafi gert eitthvað á hlut okkar eða viðurkenna ekki sök sína. Við getum fyrirgefið látnu foreldri eða einhverjum sem hefur skaðað okkur á lífsleiðinni, án þess að viðkomandi komi þar að. Oft er þrýst á einhliða fyrirgefningu þegar einstaklingar eiga í hlut: Þolendur ranglætis eru þá hvattir til að gleyma og halda ótrauðir áfram, sleppa reiði eða haturshugsunum, frelsa sjálfa sig undan hremmingum erfiðra tilfinninga og losna þar með úr kreppu sinni. Stundum getur þesskonar afstaða og ferli hjálpað en mikilvægt er að slík fyrirgefning felur ekki í sér að við afsökum, réttlætum eða viðurkennum framkomu þess sem beitt hefur okkur ranglæti.

Sinnaskipti og leið sátta

Þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku samfélagi eru þess eðlis að við hvetjum ekki til fyrirgefningar fólks. Við viljum gerast boðberar sáttargjörðar fremur en fyrirgefningar. Við hvetjum til sáttarferlis þar sem upphafið markast af því að sannleikurinn verði leiddur í ljós líkt og gert var í Suður Afríku og þeir kallaðir til ábyrgðar sem hana bera. Við leggjum til að opinber sáttanefnd taki til starfa og þar fái sannleikur að hljóma. Flett verði ofan af kerfisbundnu ranglæti og þeim sem báru ábyrgð á því.

Við köllum eftir sinnaskiptum. Í því felst að meintir gerendur breyti bæði hugarfari sínu og gerðum. Sinnaskipti felast í siðvæðingu viðskiptalífsins þar sem eigendur og stjórnendur fjármálafyrirtækja sjá náunga sinn í því fólki sem byggt hefur upp það samfélag og þá velferð sem kom undir þá fótunum. Náungakærleikur og samábyrgð er grundvöllur sannrar velferðar. Við erum sköpuð til þess að þjóna hvert öðru og bera sameiginlega ábyrgð. Þessi viska er samviska og í henni felst krafan um sinnaskipti. Við köllum eftir virkri sátt í samfélagi okkar. Sú sátt getur ekki orðið nema sinnaskipti verði hjá einstaklingum og þjóð. Sinnaskipti eru viðsnúningur þegar iðrun er heil og yfirbót sönn. Krafan um iðrun og yfirbót beinist að gerendum og ekki þolendum ranglætis. Meginkrafan er sú að þau sem bera ábyrgð bæti fyrir brot sín. Ef þau hafa brotið gegn lögum eiga þau að taka út refsingu. Það er ekki hefndarhugur sem býr að baki heldur þvert á móti virðing við hina brotlegu: Þeim er sýnd virðing þegar komið er fram við þau eins og skynsemisverur sem beri ábyrgð á gerðum sínum, geti gengist við þeim og tekið afleiðingum þeirra.

Verða að biðjast afsökunar

Sáttargjörð er annað og flóknara ferli en einhliða fyrirgefning. Sáttargjörð felur í sér að allir sem hlut eiga að máli taki þátt í að bregðast við og bæta úr þeim aðstæðum sem upp eru komnar. Í því má alls ekki beita yfirvarpsaðgerðum heldur verða heilindi að ráða för. Í þessu ferli er beiðni um afsökun óhjákvæmileg. Það er lágmarkskrafa í sáttarferlinu. Í okkar dæmi hér á landi verða stjórnvöld, eftirlitsstofnanir, eigendur og stjórnendur bankanna, fjölmiðlar og ýmsar sérfræðingastéttir að biðjast afsökunar á því að hafa brugðist trausti almennings. Þeir sem hafa skotið undan fé eiga auðvitað að skila því. Einnig getur komið að því að einhverjir biðji um fyrirgefningu. Skilyrði þess að hægt sé að veita hana er að iðrun og yfirbót sé bæði huglæg og efnisleg, komi fram í afstöðu, orðum og bótagerðum. Að því skilyrði uppfylltu er möguleiki á því að fyrirgefning verði veitt.

Fyrirgefningar getur enginn krafist af öðrum. Fyrirgefningin er þó það viðmið sem við ættum öll að stefna að. Að henni fenginni getum við gengið saman til móts við sameiginlega framtíð. Fyrirgefning er æskileg en er þó enn sem komið er fjarlægt heilbrigðismarkmið fyrir þjóð sem orðið hefur fyrir ranglæti. Til að vinna að því hvetjum við til að farin verði sáttaleið, sannleikurinn sagður, flett verði ofan af ranglætinu, fólki gefið færi á að gangast við mennsku sinni og brotum og hafi möguleika til bóta. Tíminn er kominn.

Anna Sigríður Pálsdóttir
Arnfríður Guðmundsdóttir
Baldur Kristjánsson
Hjalti Hugason
Pétur Pétursson
Sigrún Óskarsdóttir
Sigurður Árni Þórðarson
Sólveig Anna Bóasdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Baldur.

Tíminn er kominn segið þið.

Ég tek heilshugar undir efni greinarinnar og þakka ykkur fyrir að koma kristnum gildum og reynlu aðdáunar vel til skila.

Spurningin sem lestur greinarinnar vakti hjá mér er þessi:,,Er tíminn kominn?" Getur verið að við vitum ekki nóg um sekt og sakleysi til að hefja skiplagt sáttaferli?

Mikið væri gott fyrir alla ef þeir sem vita á sig sök gengju nú í sig og játuðu brot sín og bæðust fyrirgefningar og þeir sem hafa oftekið skiluðu aftur til samfélagsins illa fengnum auð.

Kveðjur, H.P.

Hólmfríður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 21:23

2 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Tilraun ykkar guðfræðinganna er virkilega virðingarverð - - að byggja upp samstöðu um leiðir og lausnir . . .

kannski hefur HP samt lög að mæla; við vitum ekki nóg ennþá . . . til að geta lagt upp "maklega málagjöld" og þá um leið kallað fram þá fyrirgefningu og iðrun sem þörf er fyrir . . .

Áfram samt í þessarri pælingu . . . . eitthvað verður að gera

Benedikt Sigurðarson, 8.3.2009 kl. 21:40

3 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Frábær viðleitni hjá ykkur guðfræðingunum þarna. Einnig er ég sérstaklega ánægður með hvernig viðmiðunin á aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og aðstæðna á Íslandi er notuð af smekkvísi og bent réttilega á að ekki sé hægt að bera saman ofsóknir á blökkumönnum við það ástand sem ríkir hér. Alltof oft finnst mér illa farið með slík viðmið svo jaðri við rasisma.

Hilmar Gunnlaugsson, 8.3.2009 kl. 22:55

4 Smámynd: Gústaf Níelsson

"Að því skilyrði uppfylltu er möguleiki á því að fyrirgefning verði veitt." Engu líkara er, en að hér mæli þeir sem vald hafa, bæði á himni og jörð. Alltaf hefur mér dauðleiðst þessi pólitíska guðfræði, sem að ágætri lipurð er beitt hér. Meira að segja er kynjahlutfalla gætt!!

Gústaf Níelsson, 10.3.2009 kl. 01:08

5 identicon

Sá sem verður fyrir broti af völdum annars manns hefur vald, Gústaf. Hann ræður því hvort hann tekur hann í sátt eða ekki. Hitt er svo annað mál, hvenær Guð fyrirgefur, en ef eitthvað er að marka Jesú, þá er það þegar sá sem braut sér að sér og snýr um 180°. Þetta er ekkert flókið.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband