Borgaryfirvöld að standa sig!
10.3.2011 | 15:20
Og enn minni ég á að Íhaldsstjórnin í Bretlandi er að skera miklu meira niður en vinstri stjórnin hér. Síðast voru þeir að skera niður laun og fjölda lögreglumanna. Annars eru borgaryfirvöld í Reykjavík að standa sig vonum framar. þetta fólk í meirihlutanum, Gnarr og Dagur og Oddný, á virkilegt hrós skilið fyrir það að leggja í það að sameina skóla, leikskóla og grunnskóla og spara á allan hátt í rekstri borgarinnar. Eins og fyrri daginn æpa og veina allir og gleyma því að hér varð efnahagshrun og peningar eru takmörkuð auðlind. Landsbyggðin hefur farið í gegnum sameiningu og niðurlagningu skóla og ekkert að því þó hið sama sé gert í þéttbýlinu þar sem almenningssamgöngur gera allt dæmið auðveldara. Ofaní kaupið er hreyfing, breyting, já endurskipulagning yfirleitt af hinu góða.
Thor væri óskiljanlegur.....
8.3.2011 | 15:13
Ég fór að kíkja og ég sé að ég á margar bækur Thors. Ég man hvernig því víkur við. Á þrítugsaldri var mér umhugað um að upptrekkja bókmenntasmekk ættarinnar og gaf nánum ættingjum bók eftir Thor Vilhálmsson á jólum. Oftar en ekki hélt ég á gjöfinni heim með þeim orðum þiggjanda að hún væri betur komin hjá mér Thor væri óskiljanlegur.
Samt las ég þær fæstar og er ef til vill einbeitingaskorti um að kenna. Og þó, Grámosinn lifir í huga mér, andblær hans settist þar að. Það er þannig að maður man göngu yfir úfið hraun betur en rölt yfir sléttan mel. Og í nótt rifjaði ég upp Turnleikhúsið. Ég var sendur með það heim aftur og sofnaði út frá því á jólanótt og síðan hefur mannþröngin í við leikhúsið og í andyrinu og uppgangan í turninn fylgt mér með sínum þröngu göngum, veggmyndum og ólíkinda andrúmslofti. En ég kláraði bókina aldrei. Nú skal hún kláruð og endurútgáfu á verkum Thors beðið svo ég geti gefið nýrri kynslóð ættmenna gjafir sem gætu útvíkkað innra rými heilans og gert hann að notalegri stað til að vera á. Því að Thor var og er snillingur.
Mér finnst leitt að hafa aldrei kynnst Thor persónulega. Sem blaðamaður tók ég aldrei viðtal við hann. Mér var aldrei trúað fyrir neinu öðru en pólitík á meðan gáfumenn á borð við Egil Helgason sáu um aðra gáfumenn.
Ótti bænda, ótti við framtíðina!
7.3.2011 | 19:39
Nokkur ár síðan ég reyndi að segja forystumanni íslenskum að ekki væri allt sem sýndist með að finnskur landbúnaður hefði farið illa út út úr ESB aðild. Ekki var hlustað, menn eru fastir fyrir. Þetta var eftir samræður sem ég átti við finnskar mannvitsbrekkur. Nú hefur Þröstur Haraldsson leitt rök að því sama í ríkara mæli enda lengra um liðið. Breytingar á finnskum landbúnaði er breytingar tímans ekkert ósvipaðar því sem hafa orðið hér en margskonar evrópsk útfærsla hefur styrkt byggð í Finnlandi og æ fleiri forystumenn bænda þar telja að finnskum landbúnaði sé betur borgið innan ESB en utan.
Ótti forystu bænda við ESB er þegar öllu er á botninn hvollft ótti við breytingar, ótti við framtíðina. ESB eða ekki, dregið verður úr tollum og viðskiptahindrunum, en innan ESB er lögð áhersla á að styrkja byggð og búsetu á dreifbýlum svæðum. Bændur eiga auðvitað að haska sér í það að nútímavæða framleiðslu sína og búa í haginn fyrir þann tíma þegar tollmúrar hrynja eins og múrar Jeríkó og þeir geta flutt framleiðslu sína óhindrað út, beint frá býli ef því er að skipta. Bændur verið óhræddir, því sjá.......
Landbúnaði stafar ekki hætta af ESB. Landbúnaði á Íslandi stafar fyrst og fremst hætta af lögum frá 2003 sem afléttu ábúendaskyldu á jörðum. Þá var Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra.
Málflutningur Þorgerðar og Ragnheiðar...
5.3.2011 | 14:50
Eins og ég upplifi málflutning Þorgerðar Katrínar og Ragnheiðar Elínar þingkvenna þá telja þær að mikil umræða hafi farið fram um staðgöngumæðrun innan og utan Alþingis. Margt gott hafi komið fram í umræðunni annað síðra og nú sé bara að drífa sig í að samþykkja málið svo að fólk þurfi ekki að bíða. Alveg er horft fram hjá því að niðurstaða ætti í siðuðu lýðræðisríki að vera í samræmi við umræðuna. Umræðan á að leiða til niðurstöðu sé allt með felldu. Þetta á ekki að vera eins og tíðkast hefur á Alþingi að mál eru rædd og rædd og síðan samþykkt án tillits til umræðunnar en í slíku andrúmslofti hafa þær stöllur auðvitað verið allt of lengi. Rétt er að minna á að 13 af 15 umsagnaðilum um málið mæltu gegn þingsályktunartillögu um að leyfa staðgöngumæðrun þegar Alþingi leitaði umsagna: mannréttindasamtök, samtök kvenna, læknar, þjóðkirkjan eða allir(eða nær allir) umsagnaraðilar sem ekki voru stofnaðir beinlínis til framgöngu þessa máls. Öll helstu rök í málinu mæla gegn samþykki þess. Staðgöngumæðrun á ekkert skylt við önnur þau úrræði sem barnlausu fólki standa til boða í okkar frjálslynda samfélagi. Niðurstaða umræðunnar er því miður alveg skýlaus. Staðgöngumæðrun er óásættanleg lausn.
Hvort sem Alþingi samþykkir eitthvað í þessa veru eða ekki er kominn tími til að stofna siðfræðiráð sem fjalli um þau siðferðilegu málefni sem fyrir Alþingi koma. Það er ekki víst að fólk sem kosið er á Alþingi vegna áhuga á atvinnumálum t.d. sé fært um að taka á erfiðum siðferðilegum álitaefnum og er ég þá ekkert að vísa sérstaklega til þesara tilteknu þingkvenna en þessi háttur er hafður á í Danmörku. (Þar sitja siðfræðingar eins og ég).
Grein Þorgerðar:http://www.pressan.is/pressupennar/LesaThorgerdi/segjum-ja-vid-stadgongumaedrun
Upp rís réttlátara samfélag!
3.3.2011 | 18:16
Ekki verður annað sagt en að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé að standa sig ákaflega vel. Með yfirbjóðendur allt um kring er henni að takast að leiða þjóðina uppávið til þeirrar hagsældar sem þjóðin var búin að venja sig á og engin ástæða er til að ætla annað en hér rísi upp réttlátara samfélag en áður var orðið. Hér er jú að uppistöðu til stjórn jafnaðarmanna studd af fólki sem talar máli þeirra sem minna mega sín. Samfylkingin og Vinstri Grænir eru, að skilgreiningu, ekki flokkar þeirra sem hreiðrað hafa best um sig heldur flokkar alþýðu. Þetta eru ekki flokkar sérhagsmuna heldur almannahagsmuna. Þess vegna mun þessi ríkisstjórn berjast gegn hvers konar misrétti og jafna aðgengi fólks að hvers konar gæðum.
Ríkisstjórnin og þingmeirihluti sá sem stendur að baki henni hefur hins vegar þurft að skera grimmt niður og hefur það bitnað á nánast öllum í samfélaginu. Allir kveinka sér. Allir bregðast við eins og hér hafi ekkert hrun orðið. Sjálfstæðisflokkurinn fordæmir skattahækkanir og niðurskurð. Systurflokkur hans í Bretlandi, Íhaldsflokkurinn beitir sér fyrir miklu róttækari niðurskurði og miklu meiri skattahækkunum. Að mín viti fer ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur eins skynsamlega í málin og hægt er við erfiðustu aðstæður sem nokkur ríkisstjórn hefur glímt við.
En stuðningsmenn hennar eru ekki nógu brattir. Þeir haga sér eins og lúbarin alþýða allra alda, eru að drepast úr minnimáttarkennd og sjálfsefa, jafnvel sjálfseyðileggingarhvöt.
Njála lifir á Sögusetrinu!
1.3.2011 | 17:28
Við fengum boð um að vera viðstödd opnun sýningarinnar með myndum af sögupersónum Njálu í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Þar átti að opinbera fyrir okkur hvernig helstu persónur Njálu hefðu litið út. Þórhildur Jónsdóttir myndlistarkona, dóttur dóttir Sveinbjörns Högnasonar, væri höfundur myndanna. Frumkvæðið væri Bjarna Eiríks Sigurðssonar sem er einhver allra merkilegasti Sunnlendingur allra tíma, skólastjóri, hestamaður, reyndar margháttaður frumkvöðull á því sviði, uppstoppunarbúðareigandi og sjarmör og í seinni tíma sérfróður um Njálu enda býr hann í Fljótshlíðinni. Hann er eigandi myndanna og meðhöfundur í þeim skilningi að hann lýsti hugmyndum sínum fyrir listakonunni um það hvernig persónur Njálu hefðu litið út í lifanda lífi. Myndirnar eru unnar með hjálp tölvutækni einherskonar grafísk hönnun. Með penna eða pensli dregur listamaður upp drætti á flöt og birtist jafnóðum á tölvuskermi þar sem hægt er að vinna áfram með efnið.
Það er kominn alveg nýr maður þarna í Njálusafnið, Sigurður Hróarsson bókmenntafræðingur, eitt sinn leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu ef mér skjöplast ekki. Sigurður virðist falla alveg að landslagi þarna, stingur ekki á nokkurn hátt í stúf við annað sem sem er í þessu merka safni, fróður vel um hina fornu sögu, frásagnargóður og áhugasamur. Hann leiðbeindi okkur hjónum um sýninguna sem er hin forvitnilegasta.
Það er þannig að mér finnst upphaf Njálu lang skemmtilegast og merkilegast. Risið er þegar Gunnar Hámundarson fer dulbúinn vestur í Dali til þess að blekkja þá hálfbræður Höskuld og Hrút og liðsinna þar með Unni Marðardóttur frændkonu sinni. Þetta er auðvitað skemmtilegasti og merkasti hluti sögunnar því þarna koma Dalamenn við sögu. Enda er það svo að þeir eru lang myndarlegastir á sýningunni Höskuldur og Hrútur ásamt með Dalakonunni Hallgerði Höskuldsdóttur. Að vísu er Gunnar firna flottur, en hann var líka aðalhetjan, ljóshærður, fagureygður, sviphreinn og myndarlegur , minnir þannig á írsk ættaða Dalamennina, en alls ólíkur öllum öðrum Rangæingum þess tíma og til þessa dags.
Ekki var ég alveg ánægður með alla. Mér fannst Njáll líta út eins og venjulegur Sunnlendingur, bræður Gunnars frekar álappalegir svo og Njálssynir nema þá Skarphéðinn. Ég sá tvær myndir af honum. Á Hópmynd þar sem hann er nokkuð líkur sjálfum sér en síður á hinni myndinni þar sem hann er ekki nógu sköruglega flottljótur. Og þar er ég kominn að kjarna málsins: Öll höfum við í huga okkar nokkuð fastmótaðar útgáfur af því Njálufólki sem hefur lifað með okkur öll þessi ár og nú er ég að tala um okkur reynsluboltana sem komnir eru af barnsaldri. Þannig eru Njálurnar jafn margar og við sem höfum tekið ástfóstri við söguna. Þessi sýning breytir engu um það en gaman er að sjá hvernig aðrir, í þessu tilviki þau Bjarni Eiríkur og listakonan Þórhildur Jónsdóttir hafa séð þetta fyrir sér.
Ef eitthvað er finnst mér konurnar of fríðar til dæmis Þorgerður Þráinsdóttir og Unnur Marðardóttir. Ef eitthvað er að marka nýjustu vísindakenningar um að konur verði ,,fríðari með hverri kynslóð ættu núlifandi dömur að vera ennþá fallegri en þær þó eru miðað við fegurð þessara fornaaldarkvenna. Nema Bergþóra sé formóðirin en hún er höfð forljót og það er ég alls ekki sáttur við.
Ég skoðaði alls yfir þrjátíu myndir og vil hrósa listkonunni fyrir listaverkin og henni og Bjarna Eiríki fyrir tiltækið. Sumar myndirnar eru þegar farnar að hafa áhrif á hugmynd mína um sögupersónur. Þeir sem vilja að heimsmynd þeirra verði fyrir áhrifum ættu að bregða sér á sýninguna en þeir sem vilja lifa við óbreytta hugmynd sína um heiminn ættu að halda sig heima.
Njála í máli og myndum. Myndlistarsýning í Gallerí Ormi í Sögusetrinu á Hvolsvelli
Myndverk Þórhildar Jónsdóttur af persónum í Njálssögu
Sýningin er opin fram í miðjan apríl og er opin á opnunartíma setursins
Ókeypis aðgangur
Baldur Kristjánsson
Hvernig gat annað eins gerst?
21.8.2010 | 19:55
Þagnarskyldan og heilög almenn skynsemi!
21.8.2010 | 16:32
Þagnarskyldan felur í sér glæp sé henni fylgt án skilyrða. Skjólstæðingur kveður prest sinn með þeim orðum að hann ætli að fara og misnota barnið hans. Samkvæmt ítrustu túlkun á þagnarskyldu má prestur ekki bregðast við þá er hann að misnota trúnað. Skjólstæðingur segir presti sínum í sálgæsluviðtali að hann ætli að út á leikskóla og sprengja hann í loft upp. Allir sjá þann glæp að sitja hjá og þegja. Vitaskuld er þagnarskyldan heilög en ekkert í veröldinni er án undantekninga. Almenn skynsemi er hins vegar öllu öðru æðri. Almenn skynsemi er heilög. Að auki hefur löggjafinn tekið það ómak af prestum , sálfræðingum og öðrum að þurfa að nota skynsemi sína þegar kemur að níðingsskap gagnvart börnum. Bæði prestum og skjólstæðingum þeirra má ljóst vera að lög tryggja að frá slíku verður sagt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Prestar: Vel menntað fagfólk á ferð!
21.8.2010 | 12:05
Það er kannski rétt að ítreka að prestar á Íslandi eru vel menntað fagfólk. Guðfræðinám er fimm ár og flestir prestar sækja sér þar að auki framhaldsmenntun í annaðhvort sálgæslu, almennri guðfræði, siðfræði, félagsfræði eða tengdum greinum. Í hópnum eru doktorar og magisterar. Prestar eru upp til hópa vammausir sómamenn, konur og karlar sem hefðu getað haslað sér völl á mörgum sviðum samfélagsins. Yfirleitt er það þörfin að láta gott af sér leiða sem hefur leitt þá í prestsskap (vegna kjörfyrirkomulags er einn og einn sem hefur verið valinn vegna útlits en yfirleitt eru þeir valdi vegna mannkosta). Að öllu samanlögðu má segja að preststéttin á Íslandi sé í hópi þeirra stétta sem hafi hvað bestu og fjölbreyttustu menntun.
Prestar er yfirleitt fjölskyldufólk. Það mæðir oft mikið á heimili þeirra og mökum, fjölskyldu. Vinnuálagið er mest þegar börn og maki eru í fríi frá skóla og vinnu. Þetta eru að mínu viti ein skýringin á því að skilnaðir eru jafn algengir meðal presta og annarra þrátt fyrir það að prestar ættu að vera sérfæðingar í því hvernig byggja eigi upp gott hjónaband, einkum ef tekið er mið af góðumm hjónabandsræðum þeirra.
Inn kirkjunnar starfar mikið af ágætu fólki. Í kirkjuhúsinu í Reykajvík eru milli 30 og 40 fyrirvinnur fjölskyldna u.þ.b. 20 konur og 15 karlar. Allt valinkunnugt sómafólk. Í hveri sókn er það fólk með hjartað á réttum stað sem vinnur fyrir kirkjuna, sumir fyrir einhver laun, flestir sem sjálfboðaliðar og sjá þar með um að ávallt er til reiðu staður til jarðafara, skírna, giftinga, ávallt opinn staður sem hægt er að leita til. Í mínu litla umdæmi hefur kirkjan á síðasta ári stutt milli 20 og 30 fjölskyldur sem féllu ekki undir hjálparskilmála sveitarfélaga eða ríkis.
Eins og allar stofnanir þessar þjóðfélags, já eins og þjóðfélagið allt, fór kirkjan bratt inn í nútíðina. Það má segja að nútiminn hafi komið hratt inn í staðnað íslenskt samfélag. En kirkjan hefur brugðist hratt við og sett sér skýlausar og skýrar reglur á ýmsum sviðum. Stjórnssýslu hennar er þó áfátt í ýmsu en það stendur til bóta. Hópur af vel menntuðu og hugsandi fólki var kosinn á kirkjuþing í vor og þess munu sjást merki strax í haust. Kirkjan hefur og mun í framtíðinni taka sjálfa sig alvarlega. Og að lokum er rétt að taka fram að kirkjan er ekki prestakirkja. Á alþingi kirkjunnar, Kirkjuþingi, eru leikmenn, þeir sem ekki eru prestar í meirihluta.
Af landlausu Roma fólki!
20.8.2010 | 13:26
Undanfarið hafa Frakkar og fleiri þjóðir staðið í því að vísa Roma fólki (sígaunum) úr landi, yfirleitt til Rúmeníu. Margir koma til baka þar sem fólk getur sem betur fer flutt sig til og frá um Evrópu án afskipta yfirvalda.
Tugþúsundir sígauna (Roma) búa í Evrópu án þess að eiga lögheimili í nokkru tilteknu ríki. Þeir hafa engin fæðingarvottorð, engin vegabréf og þeim er oft neitað um grundvallarréttindi eins og menntun, heilsugæslu og kosningarétt svo ekki sé talað um félagslega aðstoð.
Vandamálið er verst á Balkanskaganum þar sem mikil umskipun hefur átt sér stað í sambandi við borgararétt í kjölfar stríðsátakanna á tíunda áratug síðustu aldar. Tugþúsundir fyrrum íbúa hafa þar verið afmáðair af skrám bæði í Slóveníu en einnig í Serbíu og Króatíu.
Fjöldamargir Roma frá Kosovo voru neyddir til að flýja og öll skjöl um tilveru þeirra glötuðust. Þeir eru því tugþúsundum saman landlaust fólk og þeim er miskunnarlasut vísað til og frá og oft á tíðum meðhöndlaðir eins og skepnur eins og við segjum.
Roma fólkið hefur verið á ferð um Evrópu miklu lengur en flest þeu þjóðríki sem þar eru urðu til. Vitaskuld hefur hvelft þeirra runnið inn í þjóðirnar, samlagast. En ekki allir. Það er í eðli þeirra að taka sig upp. Þeir eru ekki börn neins sérstaks þjóðríkis. Þeir eru Roma og skiptast sem slíkir í ótal kvíslir. Þeir falla ekki inn í kerfin, eru utan þeirra. þeir eru mikið fjölskyldufólk, elska það að dansa og vera til. Kunna ekki á klukku.
Út af þessum eiginleikum er þeim mismunað. Hið reglubundna þjóðríki getur ekki sætt sig við svona afbrigði. Þeir eru gjarnan fyrirlitnir og lítilsvirtir bæði af almenningi og stjórnvöldum. Fólki virðist ekki eiginlegt að sjá heiminn út frá bæjardyrum annarra.
Undirritaður hefur skoðað aðstæður Roma fólks víða í Evrópu. Þær eru hreint út sagt hörmulegar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)