Áfram Alþjóðahús!
2.9.2009 | 08:05
Alþjóðahúsið, stofnun þess og starfræksla er eitt af því sem Íslendingar hafa gert vel í málefnum innflytjenda. Í skýrslum Evrópuráðsins hefur því verið hrósað. Það væri því misráðið að leggja það af. Starfssemi eins og þar fer fram stuðlar að bættu samfélagi.
Auðvitað ætti ríkið að tryggja rekstargrundvöll hússins. Á okkur sem heild hvílir sú krafa að aðstoða nýtt fólk við að aðlagast íslensku samfélagi og stuðla að því að innfæddir læri eitthvað í því ferli einnig. Í þessu hefur Alþjóðahúsið gegnt mikilvægu hlutverki. Verið góð útfærsla á því starfi sem þarf að inna af hendi.
Heimspeki að morgni dags!
31.8.2009 | 09:01
Sennilega er það æðsta köllun mannsins að láta gott af sér leiða. Trúlega er það besta ráðið til að öðlast ró og frið, sátt við sjálfan sig. Markmið með lífinu getur verið það að ná hámarksþægindum fyrir sjálfan sig og sína nánustu en reynslan kennir okkur að það leiðir ekki nauðsynlega til neinnar hamingju.
Flest trúarbrögð sem ég þekki ganga út frá þessari forsendu að maðurinn þurfi til þess að öðlast einhvers konar sálarfrið að láta gott af sér leiða. Hjálpa öðrum, reynast öðrum vel. Þeir sem halda því að maðurinn gangi eingöngu fyrir eigin hagmunum myndu halda því fram að dýpst inni skynjaði hver manneskja að hún gæti komist í þá stöðu að þurfa hjálp. Að hjálpa öðrum væri því praktísk hegðun. Aðrir myndu segja að samúð með öðrum lifandi verum væri manninum í blóð borin. Hugsanlega hafa manneskjur með samhjálpargen lifað af manneskjurnar með sjálfshyggjugenin. Það væri þá í takt við þá fornu speki að sameinaðir stöndum vér sundraðir föllum vér.
Og ég held að trúarbrögð, kristni meðtalin, séu ekki uppspretta góðvilja mannsins eða samúðar hans með öðrum lifandi verum. Frekar mætti segja að þau endurspegluðu þessa tilhneigingu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hleypum ekki frjálshyggjugaurum að!
30.8.2009 | 11:21
Kemur Íslendingum og öðrum Evrópubúum yfirleitt spánskt fyrir sjónir hvað Bandaríkjamenn hafa ófullkomið sjúkratryggingakerfi. Rifjast upp þegar horft er á CNN nú þegar Ted Kennedy er allur. Hef reynslu af kerfinu sjálfur. Ég veiktist en sem Harvard stúdent átti ég mjög huggulega tvo daga á sjúkrahúsi. Félagi min í öðrum skóla varð að súpa gums þegar hann var lagður inn enda með ódýra tryggingu. Ég skrifaði ritgerð þar sem ég bar saman heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum annarsvegar og Kanada og Íslandi hins vegar. Tíu mínútna útlistun sem átti að vera varð að klukkustundar spurningaflóði. Hugmyndin um almennt tryggingarkerfi var bekkjarsystkinum mínum framandi.
Okkar heilbrigðiskerfi er dýrmætt. En því hefur hnignað. Aðgengi er dýrara en áður og víða torsóttara. Snúum þeirri þróun við. Hvikum ekki frá því markmiði að reka hér heilbrigðiskerfi sem gagnast öllum jafnt án tillits til búsetu eða efnahags. Hleypum ekki frjálshyggjugaurum að þessari dýrmætu auðlind.
Þetta er allt að koma!
29.8.2009 | 09:32
Það er að koma Höfuðdagur. Er það ekki dagurinn sem er tileinkaður höfði Jóhannesar skírara þess sem Heródes konungur lét hálshöggva og færa höfuðið dóttur Herodíasar á fati vegna þess að hún fór fram á það sem laun fyrir dans sinn? Þetta partí eins og því er lýst í Markúsarguðspjalli hefur verið eins og meðal útrásarpartí íslensks banka. Um Höfuðdag á veður að breytast og vonandi breytist nú andrúmsloftið í íslensku samfélagi. Stefnan hefur verið mörkuð við ætlum að standa við skuldbindingar okkar, vera þjóð meðal þjóða, höfum afgreitt Icesave (vonandi heldur það) og ákveðið að sækja um formlega inngöngu í klúbb sjálfstæðra þjóða í Evrópu en þar erum við nú aukameðlimir eins og allir vita. Þetta er allt að koma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bitruvirkjun?
27.8.2009 | 09:22
Nú stefnir í átök milli Hvergerðinga og bæjarstjórnar Ölfuss vegna fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar. Þessi óþarfa deila er vegna úreltrar sveitafélagaskipunar. Auðvitað eiga íbúar að hafa skipulagsvald um sitt nánasta nágrenni annað er út í hött. Það væri fáránlegt að pólitíkusar í Hveragerði hefðu skipulagsvald hér niðurfrá í kringum Þorlákshöfn.
Meðan menn breyta ekki þessu úrelta skipulagi verða byggðirnar auðvitað að koma fram við hverja af fullkominni tillitssemi. Samstarf sveitarfélaga á að vera með jákvæðum formerkjum, vera lausnarmiðað og sáttanefndir á að setja ef fulltrúar reynast ófærir um að leysa mál í sátt og samlyndi.
Við Sigurður Hjaltason heitinn fyrrum sveitarstjóri vorum einu sinni settir í sáttanefnd á Hornafirði. Út úr því kom ein allsherjar sátt eins og nærri má geta.
Með þessu er ekki afstaða tekin til Bitruvirkjunar. Atvinnutækifæri eru gulls ígildi. Ég er þó heldur á því að náttúran eigi að njóta vafans ef vafi er, sérstaklega ef mannfólkið sem býr þarna nálægt óttast um hag sinn.
Heimurinn hefur misst mikinn baráttumann fyrir réttlæti!
26.8.2009 | 09:34
Það er gott að muna og hafa samhengi. Edward Kennedy hefur verið hluti af veröld manns síðan um 1960. Frábær senator, baráttumaður fyrir borgaralegum réttindum, menntun og heilsugæslu. Baráttumaður gegn kynþáttafordómum og misrétti.
Reyndar kaus ég hann einu sinni sem öldungadeildarþingmann fyrir Massachussets svona óbeint, ég hafði verið fenginn til þess að aðstoða mjög mikið fatlaða konu í kjörklefanum. Við fengum að fara fram hjá hræðilega langri röð og inn í kjörklefa og kusum með því að taka í stangir á stórri kjörvél, gamalli. Hún skáskaut augunum á nöfnin og ég tók í handföngin. Hún kaus, skulum við segja, Ted Kennedy í öldungadeildina og Mik Dukakis í forsetann og jafnaðarmaðurinn frá Íslandi tók með ánægju í handföngin. Svo kusum við helling af öðru fólki og tókum afstöðu í margs konar álitamálum eins og t.d. hvort að mætti loka kjúklinga inni frá fæðingu til dauða. Ég held að bandaríkjamenn hafi að mörgu leyti opnara lýðræði en við flokksþrælarnir.
En Edward Kennedy er allur. Heimurinn hefur misst mikinn baráttumann fyrir réttlæti. Og hann var einn allra mesti ræðumaður stjórnmálamanna þessa heims. Hann varð goðsögn í lifanda lífi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fólkið í skuldaböggunum!
24.8.2009 | 16:45
Gegni óvenju stóru svæði núna vegna sumarleyfa og hef enda fengið nokkur símtöl og hjálparbeiðnir í dag aðallega frá fólki hvers unglingar eru að byrja í skóla. Svipuð reynsla og prestur í Hafnarfirði hefur tjáð sig um. Það er óhætt að hvetja fólk til þess að leita til okkar prestanna í nauðum sínum. Kirkjur eru auðvitað misjafnlega í stakk búnar til að hlaupa undir bagga en við getum allavega bent á einhver úrræði. Sömuleiðis ætti fólk að hafa samband við skólana og láta vita af vandanum og félagsþjónustu sveitarfélagsins og hugsa einnig til þess hvort það eigi ekki góða vini.
Við verðum að gæta þess að enginn unglingur gráti vegna þess að hann getur ekki keypt skólabækur. Við megum ekki láta það henda að börn eða þá nokkur- fari svangur að sofa.
Nýtt sjónarhorn er til staðar. Fólk í glæfralega flottum húsum leitar ásjár. Fyrir dyrum úti stendur óþarflega nýr bíll. Báðum finnst þetta erfitt þeim sem biður ásjár og þeim sem hjálpina veitir. En þetta fólk getur átt erfitt. Það á oft minna en ekki neitt og sér fram á að missa allt. Þetta er fólkið í skuldaböggunum sem það reisti í góðri trú bjartsýnisáranna. Sumt af þessu fólki er þegar búið að selja fjölskyldusilfrið. Það getur verið ennþá lengra í fimm þúsund kallinn hjá þessu fólki en flestum öðrum.
Eini vitræni vegur vegvilltrar þjóðar!
8.7.2009 | 10:26
Allt frá því að ég kom til búsetu í Austur Skaftafellssýslu árið 1985 hefur náttúrufar svæðisins heillað mig. Þessi 200 kílómetra ræma frá Hvalnesi í Lóni að austanverðu að Skaftafelli í vestri er samfelld upplifun. Á aðra hönd sandar og sær á hina fjöllin og jökulhettan, skriðjöklar, viðkvæm blóm, himininn. Byggð rofnar hvergi. Höfn, eina þéttbýlið teygir sig út í Atlantshafið, hvarvetna eiði, lón, jökulár, sprænur, gargandi fuglar.
Næstu vikur mun ég í hópi góðra manna og kvenna fara á hestum endilangt þetta svæði. Við hefjum ferðina í námunda við ferðaþjónustubýli vinar míns Gunnlaugs Ólafssonar og bræðra hans Stafafelli í Lóni og linnum ekki fyrr en á söndununum niðurundir Svínafelli og Skaftafelli í Öræfum.
Ég verð því ekki í netsambandi næstu vikur en vona að Alþingi hafi samþykkt Icesave með fyrirvörum þegar ég opna tölvuna næst og þá einnig samþykkt að leita eftir samningum um inngöngu Íslands i Evrópusambandið. Icesavesamningarnir eru ill nauðsyn, liður í að rétta af ríki og þjóð sem hélt skelfilega illa á málum sínum. Innganga í Evrópusambandið, að því gefnu að samningar verið viðunandi, eini vitræni vegur vegvilltrar þjóðar. Nútíma samstarfsvettvangur sjálfstæðra þjóða í Evrópu.
Jón Sveinsson -in memoriam-
7.7.2009 | 09:08
Ég kunni alltaf vel við Jón Sveinsson og taldi hann til vina minna. Hann var skemmtilegur, óhefðbundinn, uppátækjasamur, glettinn eða stríðinn myndi maður segja en um leið græskulaus og vildi öllum vel. Ég kynntist honum mest í bridsheimum. Makker hans var Árni Stefánsson hótelsstjóri. Þetta voru þrumukallar, spiluðu vínarkerfið. Ungir galgopar með flott kerfi settust með látum en yfirgáfu borðið oftar en ekki sneyptir og steiktir. Jón og Árni voru nefnilega iðulega meðal efstu manna og alltaf í hópi bestu manna líka á Austurlandsmótum í brids sem voru mjög sterk mót og eru kannski enn. Mér finnst að þeir hafi orðið Austurlandsmeistarar en vil ekki fullyrða um það.
Eitt sinn fór ég með Jóni og tengdasyni hans Grétari í fótboltaferð til Liverpool og Manchester. Jón var poolari. Ég man enn og mun alltaf muna þegar hann var að tala við Bretana um McManaman sem var aðalastjarnan þá. Í Liverpool vorum við ræstir út vegna sprengjuhótunar í gegnum hóteleldhúsið og máttum dorma í hliðargötu meðan leitað var að sprengju sem aldrei fannst. Þetta var á viðsjárverðum tímum. Þetta var skemmtileg ferð. Við vorum ekkert blankir og sáum öll bestu liðin spila alla bestu leikina.
Jón var virtur útgerðarmaður, gerði út Gissur hvíta með félögum sínum, formaður Útvegsmannafélags Hornafjarðar ef ég man rétt og varð síðari árin trillukarl. Ekta maður, vinnusamur, heiðarlegur maður sem létti manni lund, greip í mann, sagði einhvern djöfulinn og hló svo sínum bjarta hlátri. Ég þakka kynnin og sendi góðar kveðjur til Sigríðar konu hans og Röggu, Axels, Sveinbjargar og þeirra fólks.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sjálfstraust ættgegnt fyrirbrigði!
6.7.2009 | 08:44
Ég les í Daily Telegraph (2. júlí) að sjálfstraust sé genabundið ekkert síður en greind. Hingað til hefur það verið almenn skoðun að sjálfstraust ráðist einkum af uppeldislegum þáttum. Þetta virðist passa. Oft ganga kynslóðir sama veg. Synir og dætur lenda á svipaðri hillu og foreldrar. Virðast setja sér svipað hátt þak.(Gjörbreyting á aðgengi að menntun og flutningur úr sveit í borg gerir íslensku myndina á síðustu öld flókna) Synir og dætur alþingismanna verða t.d. oft alþingismenn (samkvæmt þessu urðu Guðni Ágústsson, Björn Bjarnason og Árni Matthiesen ekki alþingismenn vegna ættartengsla heldur vegna þess að þeir höfðu erft svipað sjálfstraust og feðurnir).
Sé þetta rétt ætti árangur af sjálshjálparbatteríinu sem byggir einkum á því að auka sjálfstraust að vera takmarkaður. Flestir þeir sem stunda lestur slíkra bóka (og hlusta á spólur) þekkja það að árangur er enginn, aðeins tímaeyðsla. Því hefur meira að segja verið haldið fram að þetta virki öfugt (svartsýnt og niðurdregið fólk þurfi á svartsýnum og niðurdregnum hugsunum sínum að halda til að þrífast almennilega, sjálfstraust manns minnki hreint og beint við það að lesa stöðugt að hann sé frábær og geti flest).
Það sama gildir þá um raus okkar prestanna í sömu veru. Það eykur þá bara á vanda fólks.