Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Á ferð um landið - 4. dagur. - Draumur Sigurgeirs.
25.5.2010 | 09:26
Þessi sexlógía (sex daga ferð) mín birtist hér til vaðveizlu og þess vegna til lestar. Set þennan kafla inn aftur, endurbættan þó, samhengis vegna.
Ég er á fjórða degi á ferð minni um landið mitt, Ísland hið nákalda, hlýlega land, land lækjanna sem í endaleysu sinni renna niður fjöllin til sjávar. Við, 37 vinir, vöknuðum í morgun á Stöng sem er feðaþjónustubær við Mývatn. Þar reka eldri hjón ferðaþjónustu í gömlum bæ með viðbyggðu þjónusturými, matsal, setustofu og þ.h.. Gistiaðstaða var sæmileg, þröng og notaleg og viðmótið frábært og maturinn sömuleiðis. Við fengum í gærkvöldi lambalæri að hætti mömmu og ávaxtagraut með rjómablandi á eftir. Allt bragðaðist alveg ljómandi vel og þó að húsfreyjan þyrfti að skreppa út í fjárhús til að reyna að bjarga lambi fengu allir nægju sína og vel það. Ekki tókst að bjarga þeim lömbum sem voru í matinn að þessu sinni. Þetta er hópur af verðandi leiðsögumönnum sem ég ferðast með. Þeir Snorri Valsson og Karl Jóhannsson eru yfirkennarar en allir í hinum 40 manna hópi eru vel að sér fróðir og flinkir, fólk á öllum aldri af báðum kynjum, fólk með margskonar bakgrunn, sumir hafa verið leiðsögumenn áður, aðrir verkfræðingar, hugsuðir, leikstjórar eða kennarar, einn kokkur er, einn fjörkálfur, eskfirðingur finnst þar og svo er þarna ungt og efnilegt fólk með óliðna sögu.
Eftir indælan og hefðbundin morgunmat komum við á Fuglasafn Sigurgeirs. Þar má sjá ótal uppstoppaða fugla í mjög vel hugsaðri uppstillingu. Maður ýtir á takka við fuglsnafn og ljós kviknar hjá fugli. Safnið er satt að segja alveg frábært fyrir fávita jafnt sem fræðinga, mátulega stórt, vel uppraðað og viðmót fólksins ljúft. Byggingin yfir safnið er falleg og látlaus og er á Ytri Neslöndum. Þetta mun vera stærsta einkasafn í einkaeigu á Íslandi.
Sigurgeir heitinn fórst við þriðja mann í sviplegu slysi á Mývatni árið 1999. Þeir voru að leggja símakapal á smábát í vondu veðri og hvolfdi undan þeim. Einn mannannna var Jón Kjartansson snillingur, símamaður vinur minn, hörmulegt slys. Sigurgeir Stefánsson hafði alla tíð safnað eggjum og tvítugt byrjaði hann að safna fuglum og láta stoppa þá upp og átti gríðarlega mikið safn þegar hann drukknaði 37 ára gamall. Hann átti sér þann draum að geta reist hús yfir safnið og ættingjar hans og vinir gerðu þann draum að veruleika eftir hans dag. Frábært framtak.
Frábært fuglasafn, uppsett af nostursemi og umhyggju. Skylduviðkomustaður ferðamanna sem ferðast um með höfuð og hjarta. Aðgangseyrir 800 krónur, 700 krónur fyrir hópa og 400 krónur fyrir börn og gamalmenni. Ekki missa af þessu og kaffið sem ég keypti mér á eftir var gott.
Við fórum að Skútstöðum og löbbuðum þar upp á hól, gervigígar. Skoðuðum kúluskít inn á hótelinu, sáum straumendur og húsendur, röltum um Dimmuborgir undir styrkri stjórn Guðmundar Túliníusar skipaverkfræðings, kíktum að Grjótágjá. Í jarðböðunum við Mývatn sáum við hverjir höfðu legið í ljósum í vetur. Jarðböðin toppa Bláa Lónið ef eitthvað er. Í Möðrudal sáum við hvar Jesú virðist renna sér á rassinum niður græna brekku í altaristöflu snillingsins með barnshjartað Jóns Stefánssonar. Við ökum um Skáldaslóðir, Jökuldalinn, horfum yfir sögusvið Hrafnkötlu, drekkum gúrmekaffi á Egilsstöðum og ökum í gegnum hinn líflega álbæ Reyðarfjörð.
Og nú er ég ásamt hinum fríða flokki lagstur í kvöldkör á hlýlegu gistiheimili á Eskifirði og móttökurnar lofa góðu. Meira um það á morgun.
Á ferð um landið-3.dagur -Frá Öngulsstöðum að Stöng
24.5.2010 | 10:59
Dumbungur upp úr Eyjafirði. Snorri Valsson flutti frábæran fyrirlestur um nautgriparækt og galloway kynið. Útskýrði hvernig hægt var að koma því á með því að flytja bara inn naut en ekki kvígur. Við fyrstu sæðisgjöf kemur hálfur galloway. Á þá ungu kvígu er aðflutta nautinu hleypt og þá kemur ¾ galloway gripur. Enn er aðflutta nautið notað og enn og enn þar til hlutfallið er komið í 63/64 eftir sex kynslóðir kvígukálfa. Þá er gamla innflutta nautið fyrir löngu orðið pervert og því lógað. Þá er öllum hleypt á alla.
Við erum komin yfir Víkurskarð þegar þessari fræðslu lýkur og maður fer að velta fyrir sér nafninu Fnjósk en við það er sá dalur sem gengur inn austan Vaðlaheiðar kenndur svo og áin. Ekki vekur kenningin Vaglir minni furðu en við þá kenningu er skógurinn kenndur. Þarna ólst upp held ég hinn frægi klerkur og ágæti maður Jón Ísleifsson. Framhjá Stóru-Tjarnarskóla og Ljósavatni Þorgeirs goða er haldið og ekki numið staðar fyrr en við Goðafoss en í fossinn er sagt að Þorgeir hafi hent styttum sínum af Þór og öðrum goðum eftir að hann kom heim frá Þingvöllum þar sem hann hafði legið undir feldi og hugsað eins og frægt er orðið. Þetta er flottur foss og víða hægt að fara alveg fram á klettabrúnir. Þarna er nokkur aðstaða fyrir ferðamenn og komin svona ferðamannabúð eins og víða eru að spretta upp að Skandinavískri fyrirmynd þar sem seldar eru peysur, pils, leðurólar og plattar, horn og krúsir. Þetta er framarlega í Bárðardal en inn Bárðadal fer meður inn í það óendanlega ef maður vill fara inn á Sprengisand og um hann suður á land. Eyðileg leið og erfið.
Á Ljósavatni sáum við himbrima sem er fugl. Það er uppstigningadagur þegar við keyrum þarna um og við gefum sérstakan gaum að hinni nýreistu Þorgeirskirkju en þar er altaristaflan náttúran sjálf. Á Ysta Felli í Kinn ólst upp Jón A. Baldvinsson víglusbiskup á Hólum en meðhjálparinn ágæti í Víðimýrarkirkju sagði okkur frá Guðmunmdi góða sem var líka biskup á Hólum. Jón þessi er friðsamur maður og á ekki í útistöðum við höfðingja eins og henti Guðmund góða. Tíðin er önnur. Við keyrum út Reykjadal og Aðaldal um hið gríðarlega Láxárhraun sem kom niður farveg Láxár úr Lúdentsborgum.
Á Húsavík skoðum við Hvalasafnið. Húsavík er ferðamannabær en dauður bær um þetta leyti eins og allir bæir síðan inniklósett, tölvur, sími og bílar komu, ekki sála á ferli og hvert ætti svo sem að vera erindið. Ferðamönnum finnst Húsavík fallegur bær. Við félagarnir hrekjumst út úr rándýrum restaurant og fáum okkur pylsu í þrifalegri N-1 sjoppu. Leiðinlegt hvernig þetta fyrirtæki Engeyjarættarinnar hefur fengið að drita sér um allt með þetta forljóta merki - en þarna fer maður.
Það er ekið um Tjörnesið í súldarbrælu. Árið 1984 var ég leiðsögumaður um Tjörnesið með hóp blindra í sumardvöl á Vestmannsvatni um Tjörnesið í svipuðu skyggni. Þá var jafnt á með öllum í rútunni komið. Það létti lítillega til í Ásbyrgi og Snorri og Karl fóru með okkur alveg inn í botn þar sem er lítið vatn, Botnstjörn, undir tignarlegum klettaveggjum byrgisins sem gnæfa 110 metra upp í loftið. Við hefðum ekki náð uppá brún þó við hefðum klifrað upp á axlirnar hvert á öðru enda bara um fjörtíu í hópnum og margir litlir. Það hefði þurft tæplega 70 til en 58 Baldrar hefðu nægt.
Það hafði staðið til að fara að Dettifossi í Jökulsá á Fjöllum en vegur var ekki talinn fær. Því var farinn sama leið til baka.
Við skildum gellurnar eftir í Reykjahlíð en áður en haldið var í gistingu og góðan mat að Stöng í Mývatnssveit var gengið á Leirhnjúk, hressandi klukkutíma ganga í mátulegri færð.
Segir ekki meira af þessum degi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Á ferð um landið- 2. dagur-um Dali, Húnavatnssýslur og Skagafjörð.
23.5.2010 | 18:40
Ég bið ekki nokkurn mann að lesa þessu skýrslu um hringferð mína. Ekki komið inn á hrun eða eitthvað slíkt. Aðeins sett hér inn til eilífrar varðveizlu.
Vaknað er í Stykkishólmi og að sjálfu leiddi að lagt var af stað þaðan. Fyrst hélt undirritaður að landið hefði umturnast en í ljós kom að ekið var til baka í Bjarnarhöfn þar sem Björn austræni Ketilsson bjó og getið er um í Landnámabók. Hann var bróðir Auðar djúpauðgu og Helga Bjólu og var sá eini þeirra systkina sem hélt tryggð við heiðna trú og lét ekki skírast. Samt er þarna kirkja. Þarna býr nú eldri maður Hildibrandur Bjarnason og hann stundar hákarlaverkun og hefur opið safn og er skemmtilegur og gaman er að skoða kirkjuna sem við fengum ekki að þessu sinni.
Síðan var ekið í vestur. Narfeyri poppar upp í kollinn. Þar bjó Vilhjálmur Ögmundsson stærðfræðingur sem dó 1965. Skógarstöndin var ekin áfram. Þar hefur ekkert breyst frá því að frændur mínir voru að reyna að búa þar fyrir fimmtíu árum. Grímur flutti erindi um eyjarnar í Breiðafirði og Flateyjarbók. Breiðafjörður var matarkista norðursins. Við sáum haförn. Í Dölunum hefur heldur ekki þurft að fara fram umhverfismat. Þar er bær og bær á stangli eins og á tímum Laxdælu. Eini munurinn er sá að nú eru ekki lengur skrifaðar sögur um fólkið sem þar býr og langt er síðan Gunnar á Hlíðarenda hefur komið í heimsókn til að gabba fólk. Við námum staðar á Eiríksstöðum þar sem hressilegur bóndasonur frá Vatni skemmti okkur með sögum af Eiríki rauða og öðrum þeim glönnum sem héldu vestur um haf áður en flugið var fundið upp og höfðu átt heima þarna. Hann var mjög upplífgandi maðurinn.
Síðan var ekki farið vestur í Saurbæ, þar sem við Karl leiðsögukennari þekkjum okkur vel, en farið um Laxárdal norður í Hrútafjörð og hrundum í hamborgara í hinum nýja Staðarskála. Magnús Gíslason var frumkvöðull og stofnaði Staðarskála ásamt sínu fólki 1961. Ekkjan hans, Bára, afgreiddi mig á kassa 1. Ég mundi eftir henni frá því að ég var tíu ára drengur í sveit á næsta bæ.
Áður en við vitum af erum við komin inn á Hvammstanga og skoðum þar áhugavert Selasafn í fallegasta húsi bæjarins. Förum ekki fyrir Vatnsnes að skoða seli (Við fórum niður í sellátur á sunnanverðu Snæfellsnesi). Ég bendi ásamt fleirum á Borgarvirki í Húnavatnssýslum þar sem varist var. Þingeyrarkirkja er sérstök. Kolugljúfur í Víðidal er óvænt náttúruundur. Ekki er komið við hjá Gretti Ásmundssyni. Man næst eftir mér í Víðmýrarkirkju í Skagafirði. Á Víðmýri bjuggu Ásbirningar helstur Kolbeinn Tumason sem orkti: Heyr himna smiður/hvers skáldið biður. Kolbeinn var einn voldugasti maður á Íslandi um sína daga (1208-1245). Um átök Sturlungaaldar, um Víðimýri, Flugumýri, Flóabardaga og annað slíkt væri hægt að talum í hundrað daga án hlés. Við kíkjum næst á glugga í Glaumbæ. Gleymum ekki Bólu-Hjálmari á leið framhjá Bólu, höldum á Öxnadalsheiði förum um Öxnadal (þessi leið var valin, hef ég heyrt fyrir þjóðveg, vegna þess að það bjuggu svo margir Framsóknarbændur í Öxnadal. Vegurinn um Hjaltadal hefði verið ekki síður ákjósanlegur). Minnumst þjóðskáldsins Jónasar þar sem háir hólar/hálfan dalinn fylla, skiljum helstu gellurnar eftir á Akureyri og brennum á Öngulsstaði sem er tíu mínútum suð-austur afAkureyri og ung hjón reka huggulega bændagistingu í skemmtilegu og nýlegum húsakynnum. Þar fengum við gott að borða og gott viðmót.
Á ferð um Ísland- dagur 1.
22.5.2010 | 12:18
Ferðadagbók. Ég bið menn að fletta yfir þetta. þetta fjallar ekki um hrunið eða neitt slíkt heldur um hringferð sem undirritaður skellti sér í til heilsubótar og sett hér inn til eilífrar varðveizlu.
1. Dagur.
Á undan hverri ferð er ferð. Sú ferð hjá mér hefur reyndar staðið í sextíu ár, en ég kýs að hefja aðdragandann í Þorlákshöfn sem er smábær við suðurströnd Íslands, þriðjudaginn 11. maí kl. 08:15 á tvö þúsundusta og tíunda ári tímatals vors.
Ég renni upp Skógarhlíðarbrekku og um veg sem kenndur er við Þrengsli, gegnum Svínahraun um Sandskeið og niður í sollinn til Reykjavíkur. Eitt stopp var á leiðinni: Í Litlu kaffistofunni bauðst mér kaffi og pönnuköka í boði hússins.
Á svokallaðri Umferðarmiðstöð beið mín hópur leiðsögunema ásamt kennurunum Snorra Valssyni og Karli Jóhannssyni. Ég hef sem sagt slegist í sex daga hringför um eldfjallaeyjuna með leiðsögunemum við skásta Háskóla landsins, Háskóla íslands, endurmenntunardeild hans.
Lagt var upp þaðan upp úr klukkan níu. Farið var vesturum og fyrsti áfangastaður var fyrirhugaður í Stykkishólmi.
Leiðsögumennirnir kenndu okkur ýmislegt gagnlegt til að byrja með svo að umhverfið fór svolítið fyrir ofan garð og neðan. Ég lærði að að huga þyrfti vel að klósettferðum ferðalanga. Telja þyrfti í bílinn eftir hvert stopp. Maður ætti að vera kurteis og almennilegur við farþega. Ekki tala of mikið. Vera bæði umhyggjusamur og fræðandi. Huga vel að þörfum farþega. Huga vel að því hvernig raðað væri í bílinn og hvernig rótera og hvort rótera skyldi farþegum. Í þessari ferð var valin sú leið að fólk færðist aftur um tvö sæti daglega sæti það hægra megin í rútunni þegar horft væri frameftir en framávið á vinstri vængnum. Þetta kerfi er nokkuð gott þegar tveir og tveir ferðast saman en verra þegar allir þekkja alla eða enginn neinn. Maður situr uppi með sama kexið alla ferðina. Hvernig tekst til getur ráðið úrslitum um andlega heilsu allt til æviloka.
Þá er ekki nóg í sex daga ferð að hoppa í annað hvert sæti. Þeir sem byrjuðu um miðjan bíl voru alltaf í fremri eða aftari hluta rútunnar eftir því hvort þeir byrjuðu vinstra eða hægra megin.
Undirritaður byrjaði fremst hægra megin og færðist aftar og aftar eftir því sem leið á ferðina og endaði einn og yfirgefinn aftast því að unga stúlkan sem hann hafi hlammað sér hjá í upphafi flúði á fjórða degi upp að hlið herramanns sem var á hraðri leið framávið. Þetta var hörmuleg endurspeglun á lífi hins misheppnaða manns.
Jæja. það var svo mikið við að vera að heilsa öllum að ég man ekkert eftir mér fyrr en við Dritvík á utanverðu Snæfellsnesi. Rámar mig þó í viðkomu í Borgarnesi, hamborgarasjoppu þar og tivísanir leiðsögukennara í Egils sögu. Í Dritvík stoppuðum við og lyfti ég hálfsterkum eins og allar stelpurnar í ferðinni. Grímur, strákurinn í ferðinni, klifraði upp á alla kletta.
Við höfðum reyndar stoppað í kaffihúsi sem er í skúr utan í kletti á Hellnum þar sem ég náði að vera fyrstur inn ásamt stelpu sem heitir Sara og við pöntuðum okkur Capúsínó en lentum á hægfara kaffivél og fengum okkar þegar allir hinir voru búnir að fá sitt. það var erfiður tími og mikil spæling en nokkur lexía um hina síðustu og fyrstu.
Við ókum svo um Hellisand, Ólafsvík og Grundarfjörð og sveitirnar þar á milli, um Berserkjahraun, söguslóðir Eyrbyggju. Snorri sagði okkur frá nafna sínum goða í Helgafelli og Guðrúnu Ósvífursdóttur áður en við áður en við komusmst í bæli okkar í Stykkishólmi en það er fallegur bær á enn fallegri stað sem lítið fer fyrir og væri löngu gleymdur ef væri ekki fyrir nunnur sem settust þar að en eru dánar.
Alþjóðadagur gegn homofóbíu!
17.5.2010 | 09:17
Í dag 17. maí er alþjóðadagur gegn homofóbíu. Af því tilefni skorar Þorbjörn Jagland framkvæmdastjóri Evrópuráðsins á aðildaríki að hefja sig upp fyrir alla fordóma í garð lesbía, homma og tvíkynhneigðs fólks. Ríki Evrópu eru þessi árin, ekki síst fyrir tilstilli Evrópuráðsins, að hreinsa alla löggjöf af mismunun sem byggir á mismunandi kynhneigð fólks þ.m.t. hjónabandslöggjöfina.
Það er mjög mikilvægt að ganga alla leið. Hommar og lesbíur hafa mátt búa við fyrirlitningu, ofbeldi og útskúfun, höfnun. Ungt fólk hefur grátið, verið rekið frá sínum nánustu, lifað með leyndinni, höfnuninni, ógeðslegu bröndurunum, verið annars flokks sýningardýr, lifað með skömmustutilfinningu, ótaldir tekið líf sitt. Það er kominn tími til að við réttum kúrsinn, förum í huganum í iðrunargöngu, horfum í augun á hvort öðru sem manneskjur, tökum utan um hvert annað, reisum hvort annað við, rísum upp til nýrrar hugsunar, endurskoðum þá hugsun að það á einhvern hátt dragi úr gildi hjónabandsins þó að allir njóti þess, höfnum þeirri klisju að Jesú Kristur hefði staðið gegn því að allir stæðu jafnréttir(!). Kristur samdi enga siðareglugerð, hann fór ekkert yfir sviðið. Í stórum dráttum gaf hann hins vegar þá grunnreglu að elska alla og virða. Á þeirri hugsun hans og annarra hefur mannréttindastarf í veröldinni byggst eftir heimstyrjaldirnar tvær á síðustu öld. Geltum á alla fordóma í garð samkynhneigða. Sjáum til þess að upp vaxi kynslóðir lausar við slíka fordóma. Göngum alla leið.
Draumur Sigurgeirs!
14.5.2010 | 20:40
Ég er á fjórða degi á ferð minni um landið mitt, Ísland hið nákalda, hlýlega land, land lækjanna sem í endaleysu sinni renna niður fjöllin til sjávar. Við, 37 vinir, vöknuðum í morgun á Stöng sem er feðaþjónustubær við Mývatn. Þar reka eldri hjón ferðaþjónustu í gömlum bæ með viðbyggðu þjónusturými, matsal, setustofu og þ.h.. Gistiaðstaða var sæmileg, þröng og notaleg og viðmótið frábært og maturinn sömuleiðis. Við fengum í gærkvöldi lambalæri að hætti mömmu og ávaxtagraut með rjómablandi á eftir. Allt bragðaðist alveg ljómandi vel og þó að húsfreyjan þyrfti að skreppa út í fjárhús til að reyna að bjarga lambi fengu allir nægju sína og vel það. Ekki tókst að bjarga þeim lömbum sem voru í matinn að þessu sinni. Þetta er hópur af verðandi leiðsögumönnum sem ég ferðast með. Þeir Snorri Valsson og Karl Jóhannsson eru yfirkennarar en allir í hinum 40 manna hópi eru vel að sér fróðir og flinkir, fólk á öllum aldri af báðum kynjum, fólk með margskonar bakgrunn, sumir hafa verið leiðsögumenn áður, aðrir verkfræðingar, hugsuðir eða kennarar, einn kokkur er, einn fjörkálfur, Eskfirðingur finnst þar og svo er þarna ungt og efnilegt fólk með litla sögu.
Eftir indælan og hefðbundin morgunmat komum við á Fuglasafn Sigurgeirs. Þar má sjá ótal uppstoppaða fugla í mjög vel hugsaðri uppstillingu. Maður ýtir á takka við fuglsnafn og ljós kviknar hjá fugli. Safnið er satt að segja alveg frábært fyrir fávita jafnt sem fræðinga, mátulega stórt, vel uppraðað og viðmót fólksins ljúft. Byggingin yfir safnið er falleg og látlaus og er á Ytri Neslöndum. Þetta mun vera stærsta einkasafn í einkaeigu á Íslandi.
Sigurgeir þessi fórst við þriðja mann í sviplegu slysi á Mývatni árið 1999. Ef mér skjöplast ekki þá voru þeir að leggja símakapal á smábát í vondu veðri og hvolfdi undan þeim. Einn mannannna var Jón Kjartansson snillingur, símamaður vinur minn (og leiðrétti mig sá sem veit betur), hörmulegt slys. Sigurgeir Stefánsson hafði alla tíð safnað eggjum og tvítugt byrjaði hann að safna fuglum og láta stoppa þá upp og átti gríðarlega mikið safn þegar hann drukknaði 37 ára gamall. Hann átti sér þann draum að geta reist hús yfir safnið og ættingjar hans og vinir gerðu þann draum að veruleika eftir hans dag. Frábært framtak.
Frábært fuglasafn, uppsett af nostursemi og umhyggju. Skylduviðkomustaður ferðamanna sem ferðast um með höfuð og hjarta. Aðgangseyrir 800 krónur, 700 krónur fyrir hópa og 400 krónur fyrir börn og gamalmenni. Ekki missa af þessu og kaffið sem ég keypti mér á eftir var gott.
Og nú er ég ásamt hinum fríða flokki lagstur í kvöldkör á hlýlegu gistiheimili á Eskifirði og móttökurnar lofa góðu. Meira um það á morgun.
Framsækin kirkja!
30.4.2010 | 09:55
Guð blessi allt þetta fólk!
19.4.2010 | 16:28
Ég get ekki hætt að hugsa um fólkið undir Eyjafjöllunum og þar suður og austur af sem lendir inn í öskustróknum. Það hlýtur að vera andlegt sem líkamlegt áfall að lenda í myrkri öskunnar, sjá líffsstarf sitt í hættu, heill fjölskyldunnar í uppnámi, áhyggjurnar af skepnunum, og hafa yfir sér ofaná á allt saman, ógnina um enn verri náttúruhörmungar. Björgunarsveitarmenn eru sem betur fer duglegir við að hjálpa og það verðum við væntanlega öll þegar kemur að því að styðja þá sem orðið hafa fyrir hörmungunum upp úr ósköpunum aftur. Guð blessi allt þetta fólk.
Óhæfir stjórnendur!
18.4.2010 | 20:05
Gott hjá Margréti Tryggvadóttir í Silfrinu í dag að benda á flokkshugsunarháttinn. Fólk segir af sér af því að það er best fyrir flokkinn. Þetta er lærður hugsunarháttur innan flokkanna og gerir þá varhugaverða sem stofnanir eins og reynslan sýnir. Ég er fyrst og fremst Sjáfstæðismaður yst sem innst sagði brottrekinn sveitarstjóri nýlega. Þetta er voðalegt að heyra þetta. Það versta er að flokksdýrin eru svona upp til hópa, forystumenn sem óbreyttir, og finnst það eðlilegt. Útkoman er sú að flokkarnir sjá okkurmeira og minna fyrir stjórnendum sem eru ófærir um að stjórna með almannaheill í huga.
Er þetta minnimáttarkennd í Íslendingum?
15.4.2010 | 14:25
Það hefur komið á daginn að íslensk löggjöf á fjármálasviði er ófullkomin. Það hefur einnig komið í ljós að við eigum erfitt með að taka ábendingum erlendis frá. Hvernig er þetta á öðrum sviðum? Þar sem ég þekki til í mannréttindageiranum er ástandið svipað. Löggjöf er ófullkomim og íslensk stjórnvöld gera allt of lítið með ábendingar sérfræðinga t.d. frá Evrópuráðinu. Telja yfirleitt að um óþarfar ábendingar sé að ræða. Það er munur á löndum í þessum efnum. Svíar fengu svolítið harða meðferð í skýrslu ECRI (European Commission against Racism and Intolerance) miðað við það að þeir eru að flestu leyti til fyrirmyndar. Þeir móðguðust ekki eins og stundum gerist en sendu bréf um hæl og báðu um frekari útlistanir og fyrirmæli. Mér finnst að Íslendingar bregðist við með því að látast ekki heyra. Með hugarfarinu við vitum best. þetta er þó ekki algilt.