Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Loksins var amx fyndinn!

Loksins er amx vefur hægri sinnaðra Sjálfstæðismanna fyndinn og hann er að andskotast í forystu flokksins og teygir og togar hana og landsfundinn sundur og saman í háði. Engu líkara er en að Davíð Oddsson skrifi pistilinn, nema annar fyndinn maður sé kominn í flokkinn? Það er komið fyrir Sjálfstæðisflokknum eins og Framsóknarflokknum:  Hann er klofinn ofaní rót. Og Vinsti Grænir eru klofnir líka.  ESB gengur í gegnum miðju allra flokkanna, klýfur þá.  ESB sinnar og ESB andstæðingar geta einfaldlega ekki verið saman í flokki með sæmilegu móti því að í málinu kristallast svo gjörólík þjóðfégassýn og lífssýn fólks. Ef menn gera ekki upp málið í þessum flokkum  og þeir óánægðu beygi sig undir niðurstöðuna eða skipti um vettvang þá verða menn í mannskemmandi innanflokksdeilum lengi fram eftir þessari öld eða þangað til þeir verða dauðir og smám saman tekur fólk við sem ekki þekkir annað.  Innanflokksdeilur eru nefnilega mannskemmandi, deilur milli flokka geta hins vegar verið mannbætandi.

Sagði ekki prófessor Bjarni Guðnason um Hannibal í frægri ræðu að hann gæti dundað sér við það að kljúfa rekaviðardrumba í ellinni vestur á fjörðum svo mikla verkþekkingu hefði hann í því að kljúfa.  það er eiginlega langt síðan við höfum eignast almennilegan klofningsmann. Kannski Davíð brilleri í því eins og öðru.


Þjóðkirkjufyrirkomulagið þarf ekki að mismuna!

Evrópuráðið hefur ekki talið að þjóðkirkjufyrirkomulagið á Norðurlöndunum mismuni þegnunum. Þetta er fyrirkomulag á sér djúpar rætur í menningu þjóðanna og fjárhagslegt samband ríkis og kirkju er bundið samningum.  Kirkjan hefur afsalað sér landeignum, kirkjujörðum og eignum biskupsstóla í hendur ríkisins en fær í staðinn greidd laun prestanna.  Ríkið sér síðan um innheimtu sóknargjalda en sóknargjöld eru ekki framlag ríkis til kirkju.

Íslenska kirkjan er sennilega sjálfstæðust þjóðkirkna á Norðurlöndum.  Engin ástæða er til þess að breyta þessu ágæta hefðbundna fyrirkomulagi þó að gæti þurfi þess að fullt jafnrétti sé meðal fólks þegar kemur að trúmálum.  Sjálfsagt er að tryggja að svo sé í stað þess að berja bumbur og heimta aðskilnað sem þegar er til staðar að því marki sem skynsamlegt er.

Á Norðurlöndunum eru menn að mestu leyti hættir þessu fjasi um aðskilnað enda er hann staðreynd alls staðar nema í Danmörku sem heldur sér fast við forna skipan og farnir (fyrir löngu) að einbeita sér að mannréttindaumræðu, umræðu um það hvernig byggja eigi réttlátt samfélag án mismununar. Skref í þá átt var stigið á alþingi nýlega með einum hjúskaparlögum og mikill meirihluti presta, menntaðra guðfræðinga, styður þau lög heilshugar


Til hamingju með daginn öll sömul!

Grein eftir guðfræðingana Baldur Kristjánsson, Arnfríði Guðmundsdóttur, Sólveigu Önnu Bóasdóttur, Sigurð Árna Þórðarson og Sigrúnu Óskarsdóttur:

Það eru margar ástæður til þess að mæla með því að kirkjan stilli sér upp við hlið réttlætisins og mæli með því að sömu lög gildi í landinu fyrir pör sem kjósa að ganga í hjónaband. Með því verður aðgreiningu eftir kynhneigð aflétt.

Margir hafa bent á að Þjóðkirkjan er aðili að alþjóðlegum kirkna samtökum, m.a. Lúterska heimssambandinu og Porvoo kirknasamfélaginu. Í þessum samtökum er afstaða til málefna samkynhneigðra umdeild og víða mikil átök. Aðeins tvær kirkjur þar sem prestarnir eru vígslumenn að lögum, þ.e. sænska kirkjan og Sameinaða mótmælakirkjan í Kanada, hafa samþykkt skilgreiningu ríkisvaldsins á einum hjúskaparlögum fyrir alla.

Ef þjóðkirkjan er kjörkuð tekur hún sér stöðu með þessum kirkjum, mælir með einum hjúskaparlögum og gleðst yfir því að prestar hennar hafi heimild til hjónavígslu tveggja einstaklinga sem unnast.

Við viljum áfram vera hluti hins alþjóðlega kirknasamfélags en við viljum einnig standa vörð um boðskap kirkjunnar. Það er ekki sjálfsagt að vera í samfélagi kirkna sem neita að vígja konur til prestsþjónustu og jafnvel líta á það sem skilyrðislausa kröfu að konur þegi á safnaðarsamkomum. En við látum okkur hafa það. Við verjum ekki valdníðsluna og óréttlætið. Við stillum okkur upp við hlið systra okkar sem búa daglega við ranglætið og styðjum þær í baráttunni. Við þolum að vera í samstarfi við kirkjur sem fordæma samkynhneigð og líta á hana sem synd. Það er ekki til þess að sýna kirkjustjórnum þar samstöðu. Við stillum okkur upp við hlið trúarsystra okkar og -bræðra sem þrá samfélag kirkjunnar og við tökum höndum saman um að búa þeim það rými sem þeim ber.

Það var ýmislegt reynt til að hnekkja á Jesú. Það var líka lögð mikil áhersla á að breytingar væru hættulegar. Þannig var komið með veikan mann til Jesú á hvíldardegi til þess að kanna hvort hann myndi voga sér að brjóta boðið um að halda hvíldardaginn heilagan. Hvað gerði Jesús? Kallaði hann saman ráðgjafarþing sem svo vísaði málinu í nefnd? Nei, hann læknaði manninn og kenndi viðstöddum þá mikilvægu lexíu að hvíldardagurinn væri til fyrir manninn en ekki maðurinn fyrir hvíldardaginn.

Þannig skulum við einnig leggja okkar lóð á vogarskálina við umfjöllun og afgreiðslu um ein hjúskaparlög. Munum að lögin eru sett til að vernda okkur öll en ekki til að mismuna.

Birtist í Fréttablaðinu 10. júní.


mbl.is Hjúskaparlög samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn af systkinunum á Kvískerjum!

Í þessu skrifi mínu um hringþeytingu mína hefur mér ekki tekist að móðga neinn en var hissa á sjálfum mér að setja ekki Þórbergssafnið í flokk með steinasafni Petru, Fuglasafni Sigurgeirs og Byggðasafninu á Skógum. Það ætti enginn að fara hring um eyjuna án þess að reka út álkuna á þessum fjórum stöðum.  Þá tókst mér að gleyma Ara Björnssyni þegar ég taldi upp hin merku systkini á Kvískerjum.  Að ég skyldi ekki fletta þessu upp sýnir bara hvað ég held að ég sé vel að mér en er ekki..  með sama hætti misnefndi ég Benedikt bróður þeirra Steinþórs  og Þórbergs og kallaði Stein sem var afi þeirra bræðra.  Sváfnir Sveinbjarnarson sem var lengi sóknarprestur á Kálfafellsstað  í Suðursveit (og síðar á Breiðabólstað í Fljótshlíð) benti mér á þessi glöp.  Ég leyfi mér að taka upp úr óprentuðum minningum hans þar sem hann talar um systkinin á Kvískerjum.

 

,,Öll voru systkinin vel að sér um almenna þekkingu - og þá alveg sérstaklega í því sem

sneri að jarðfræði og gróðurfari umhverfisins. En það sem sérstaka athygli vakti var

sú verkaskipting eða sérhæfing sem ríkti á flestum sviðum heimilisstarfa, fræða og verk-

mennta.  Systurnar, Guðrún eldri og Guðrún yngri, kunnu svo til allra verka í matar-

gerð og geymslu, sem og í móttöku og viðurgjörningi við gesti og ferðafólk, að uppfyllt

hefði ýtrustu kröfur sem seinni tíma ferðaþjónusta gerir til stjórnenda og starfsfólks.

Létt var þeim einnig um að fræða ferðafólk, svara spurningum og leysa úr hverjum

helst vanda sem að höndum bar. Gestrisni og umhyggjusemi var þessu fólki inngróin.

Flosi var elstur bræðranna og sérgrein hans var kunnátta og færni í tungumálum flestra

nágrannaþjóða. Auk norðurlandamála, ensku og þýsku, las hann einnig frönsku og

finnsku. Hann mun hafa annast bréfaskipti við erlenda fræði- og vísindamenn, auk þess   sem eftir hann liggja einnig vandaðar ritgerðir, m.a. um jökla- og jarðfræði.

Ari var næstelstur og hafði með höndum stjórn búskaparins á Kvískerjum. Hann var

vel lesinn í búvísindum hvers konar og átti góðan bókakost um þau efni, enda fræða-

sjór um málefni bænda og búskapar. Hinir bræðurnir unnu að búskapnum undir hans

stjórn eftir því sem þörfin kallaði.

Sigurður var næstur í aldursröð og hann var sagnfræðingurinn og fræðagrúskarinn í hópnum. Hafði aflað sér mikillar þekkingar á sögu héraðsins allt frá landnámi, svo og

persónusögu og ættfræði sveitunga sinna og héraðsbúa. Hann hafði og stundað atvinnu

sem ýtustjóri, einnig í öðrum landshlutum, - og einnig grafið eftir heimildum, bæði af fornmenjum í  jörðu og á skjalasöfnum í höfuðborginni og víðar. Hann var einnig mjög virkur í félagsmálum sveitar og héraðs.

Ingimundur var veiðimaðurinn í hópnum, kunni vel að fara með skotvopn, sem og

veiðitæki í vötnum, bæði fyrir fisk og sel. Þau störf voru stunduð af hófsemd og virð- ingu fyrir lífríki náttúrunnar, hvort sem matfanga var aflað eða vargi haldið í skefjum.

Helgi var smiður og tæknimaður heimilisins. Lagtækur vel og útsjónarsamur, enda full þörf á slíkum hæfileikum, þar sem ekki var til annarra að leita sökum fjarlægða og tor-

leiðis. Hann smíðaði jafnvel heimilistæki, svo sem þvottavél, eftir eigin uppdráttum og útreikningum.

Hálfdan var fugla- og skordýrafræðingur og safnari, talinn standa í fremstu röð hér-

lendra vísindamanna á því sviði. M.a. fenginn til að taka þátt í leiðangri til Grænlands

til að rannsaka lífríkið á þeim slóðum, auk mikilvægra starfa og rannsókna á þessu

sviði hérlendis.

Páll bróðir þeirra á Fagurhólsmýri var tónlistarmaðurinn í fjölskyldunni. Hann var

organisti og söngstjóri í Hofskirkju og hélt uppi söngmenningu í sveitinni, einnig á

öðrum samkomum og gleðimótum.”

 

Frásögnin er öll í þátíð því að Sváfnir er að lýsa liðnum tíma en Hálfdán og Helgi eru lifandi og búa á Kvískerjum.  Já, þetta var og er indæl tíð.


Og þá er bara Lónið eftir!

Svo heitir sveitin á milli Vestra-Horns og  Eystra- Horns í A-Skaftafellssýslu. Hún hét áður formlega Bæjarhreppur en tilheyrir nú sveitafélaginu Hornafirði. Þetta er fámenn sveit núorðið en áður fyrri (hornfirska) bjuggu þar milli 2 og 300 manns frá bænum Hvalnesi í austri sem stendur undir Eystra – Horni að Syðra Firði í vestri sem stendur Vestra Horns megin. Þar er sólargangur styðstur á Íslandi.

Vísa um Syðra-Fjörð eftir Eirík Guðmundsson er svona:

Mikaels frá messudegi

miðrar góu til

í Syðra- Firði sólin eigi

sést það tímabil.

Lengi að þreyja í þessum skugga

þykir mörgum hart.

Samt er á mínum sálarglugga

sæmilega bjart.

Bær í Lóni er landnámsbærinn.  Landnámsmaður samkvæmt Landnámu  var Þórður Skeggi Hrafnsson en hann seldi síðan Úlfljóti  sem var fyrsti lögsögumaður á Íslandi eftir að bróðir hans Grímur geitskór hafði fundið upp á Þingvöllum.

Skammt austan Reyðaár sem er býli undir Reyðarártindi fyrir miðjum austurhluta sveitarinnar er minnisvarði um Úlfljót.

Jökulsá í Lóni, stórfljót, skiptir sveitinni í tvo nokkuð jafna hluta.  Í austurhlutanum má ennfremur nefna Hraunkot.  Þar bjó Sigurlaug Árnadóttir kennd við Hraunkot ásamt Skafta Benediktssyni  manni sínum og Guðlaugu systur hans sem var skyggn.  Sigurlaug  var menningarfrömuður og blómaræktarkona.  Bæjarstæðið í Hraunkoti er frábært, bærinn kúrir undir hraunhólum  og blómagarðurinn var óviðjafnanlegur en hefur látið á sjá eftir að gamla fólkið dó.  Það er alveg þess virði að skreppa þarna niðureftir ef maður er á lítilli rútu eða þaðan af minna farartæki.  Þarna niðurfrá, á landi sem er auðvitað framburður Jökulsárinnar er einnig gamalt félagsheimili sveitarinnar, nýuppgert, fallegt.

Stafafell í Lóni er bær og fyrrum prestsetur og höfuðból.  Þaðan er mjög vísýnt. Bræðurnir Gunnlaugur, Bergsteinn og Sigurður Ólafssynir reka þar ferðaþjónustu. Inn af Stafafelli í Stafafellsfjöllum er sumarbústaðabyggð og inn af hin víðkunnu  Lónsöræfi þar sem steinanrnir glitra og náttúrufegurð er engu lík.  Margir kannast við Illakamb, Kollumnúla (þar er göngubrú yfir Jökulsá) og Víðidal sem er nyrst í Lónshálendinu og menn freistuðust til að reyna búskap þar fyrr á öldum en þeim tilraunum lauk 1949 er snjóflóð féll á bæinn með hörmulegum afleiðingum.

Í Suður Lóni er helst að nefna Papós.  Þar varð verslun og vísir að kaupstað á 19. öld en húsin flutt á Höfn 1897.  Verslunarstjóri var afi Guðmundar Túliníusar skipaverkfræðings og leiðsögumanns. Við Papós er talið að minjar séu frá pöpum, írskum einsetumönnum fyrir landnám norrænna manna.

Heimildir

Þorsteinn Jósepsson/Steindór Steindórsson 1980 Landið þitt Ísland. Örn og Örlygur Reykjavík

Tómas Einarsson og Helgi Magnússon (1989) Íslandshandbókin. Örn og Örlygur Reykjavík

Siugurður Björnsson 1989. Skaftfellingur.  Samkoma á Papós 1963 A-Skaftafellssýsla Höfn 1989


Meiriháttar bær, Höfn í Hornafirði

Höfn í Hornafirði stendur á tanga milli Hornafjarðar og Skarðsfjarðar sem báðir eru innan eiðis eða sandrifs en sjávarföll streyma um þröngan ós, Hornafjarðarós.  Ósinn er varhugaverður sjófarendum en þegar inn er komið er gott skipalægi. Mannskæð slys hafa orðið í ósnum alvarlegast þegar mótórbáturinn Sigurfari fórst þar með átta ungum mönnum árið 1971.  Á seinni hluta níunda áratugar síðustu aldar fórst kennsluskip, skólaskip í ósnum.  Fimm ungir menn, grunnskólanemendur, komust af eins og fyrir kraftaverk en skipstjóri og stýrimaður fórust.  Færeyskur bátur fórst þar nokkuð síðar og með honum a.m.k. einn maður.  Sagt hefur verið að Hornafjörður ali af sér góða skipstjórnarmenn vegna óssins.  Hverjum sem er er ekki treyst til að sigla þar út og inn  í margs konar veðrum og straumfærð.Höfn er ungt kauptún.  Byggð hófst þar ekki fyrr en 1897 þegar Ottó Túliníus flutti verslun sína frá Papósi til Hornafjarðar.  Þau hús má enn sjá.  Í öðru þeirra, austast á Hafnarbrautinni, ofan við Höfnina, er fallegt veitingahús og á túninu fyrir ofan bæinn er það sem áður var sölubúð á Papósi, nú  Byggðasafn.  Síðan 1897  hefur Höfn verið miðstöð Suðausturlands bæði í viðskiptalegum og félagslegum efnum.  Höfn er nú miðstöð sveitarfélagsins Hornafjörður sem nær frá Eystra-horni út yfir miðjan Skeiðarársand.  Stórfyrirtækið Skinney –Þinganes ber uppi fiskvinnslu og útgerð staðarins. Á Höfn  er prestur og sýslumaður, heilsugæsla, gott hótel sem aldrei hefur skipt um kennitölu lengst af rekið af Árna Stefánssyni.  Þess utan fjórir aðrir matsölustaðir.  Á Höfn er grunnskóli og tveir leikskólar. Framhaldsskóli er á Höfn, Héraðsbókasafn og nýsköpunarmiðstöð, leikfélag þar sem Guðjón Sigvaldason er vinsæll leikstjóri. Þokkalegur innanlandsflugvöllur er í nágrenni Hafnar og þannig mætti lengi telja.Útsýni frá Höfn er viðbrugðið.  Stórbrotinn Vatnajökull blasir við, gnæfir yfir með útjöklum sínum Hoffellsjökli, Fláajökli, Heinabergsjökli og Skálafellsjökli.  Í austri Vestra-Horn (sem sumir kalla Eystra Horn) óopinbert einkennismerki  Hafnar (tilheyrir Lóninu), í vestri fjörðurinn yfirleitt spegilssléttur.    Það er svo sannarlega þess virði að aka niður á Höfn, fara t.d. upp að Hafnarkirkju  og njóta útsýnisins. HeimildurÞorsteinn Jóspsson, Steindór Steindórsson (1981) Landið þitt Ísland Örn og Örlygur Reykjavíkhttp://www.rikivatnajokuls.is/

Hali í Suðursveit

Hali í Suðursveit er einn Breiðabólstaðarbæjanna.  Hinir eru Gerði og Breiðabólstaður. Bæjartorfan er nokkuð vestarlega í Suðursveitinni undir stórbrotnu fjalli, Breiðabólstaðarfjalli.  Á því eru þrír tindar Gerðistindur, Fosstorfutindur og Kvennaskálatindur. Magnaður klettar eru í fjallinu og lýsir rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson (1889-1974) sem alinn er upp á Hala í Suðursveit fjallinu í bók sinni, Í Suðursveit,  og hvernig fé átti það til að verða innlyksa í því og hvernig því var bjargað. Þórbergur sem sagt fæddist á Hala og ólst þar upp einn þriggja bræðra. Hinir voru Steinþór og   Steinn.   Minnisvarði um bræðurna er fyrir ofan þjóðveginn.  Steinþór varð landsþekktur er hann sagði bók sína Nú-Nú, bókin sem aldrei var skrifuð,  í útvarp árið 1970.Þórbergur er af mörgum talinn fremsti snillingur íslenskrar tungu og Halldór (Laxness) og Þórbergur voru gjarnan nefndir í sömu andrá. Frægasta bók hans er Bréf til Láru, fyrst gefin út 1924 og olli miklum jarðskjálftum bæði í bókmenntaheiminum íslenska og ekki síður í hinum pólitíska heimi landsins. Þá má nefna Íslenskan aðal (sem geymir m.a. framhjágönguna í Hrútafirði), Ofvitann  og ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar og Sálminn um blómið sem er bókin um Sobbeggi afa og lillu Heggu.Mikið lón er framan við Breiðabólstaðartorfuna aðskilið hafinu með mjóu eiði en útifyrir var í bernsku Þórbergs gjarnan krökkt af frönskum skútum með hvít segl.Nú hefur Þórbergssafn verið opnað á Hala rekið af hjónunum Fjölni Torfasyni og Þorbjörgu Arnórsdóttur.  Fjölnir er sonur Torfa Steinþórssonar sem var mikill bændahöfðingi í Suðursveit um sína tíð. Þórbergssafn geymir í máli og myndum og módelum lífssögu Þórbergs á Hala og í Reykjavík og gefur innsýn inn í líf Íslendinga í sveit og bæ á fyrri hluta 20. aldarinnar. Virkilega smekklegt safn og þar er einnig veitingasala. Heimildir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson Landið þitt Ísland. Örn og Örlygur 1981Tómas Einarsson og Helgi Magnússon Íslandshandbókin Örn og Örlygur 1989

Kvísker í Öræfum

Sveitin milli sanda er hún stundum kölluð sveitin sú sem heitir Öræfi og liggur á milli Breiðamerkursands og Skeiðarársands sunnan undir Öræfajökli við hafnlausa strönd.Þessi  sveit hét áður Litla Hérað og lagðist næstum því í auðn við eldgos úr Öræfajökli 1362, það er stærsta gos sem orðið hefur í Evrópu sl. 2000 ár. Umtalsvert eldgos varð aftur 1727 en  sú byggð sem þá hafði myndast skrimti og svo hefur verið til dagsins í dag þrátt fyrir einangrun og jökulhlaup.Bæirnir hafa hnappast saman.  Eru ekki lengur út um allt heldur á sex blettum undir fjallsrótum þar sem reynslan hefur sýnt að byggð helst.  Bæjartorfurnar eru Skaftafell,  Svínafell,  Hof, Fagurhólsmýri (með Hofsnesi),  Hnappavellir og austasti bærinn er  Kvísker.  Ótalið er Freysnes, hótelbyggð milli Skaftafells og Svínafells, nýtt bæjarstæði í nútíð.Bæjarstæði Kvískerjabæjarins er vinalegt, bærinn stendur við brekkufót undir vinalegri hlíð, tignarleg fjöllin bakvið og Öræfajökull gnæfir yfir.  Framundan og austur af Breiðamerkusandur, austan við bæinn rennur  Hrútá sem hefur oft flæmst um sanda.  Fjær er Fjallsá, stórfljót, jökulvatn.Lengi mun Kvísker hafa verið í byggð.  Um næst síðustu aldamót settist þar að búi Björn Pálsson frá Svínafelli og kona hans Þrúður Aradóttir og áttu þau heima þar alla sína tíð.Börn þeirra urðu Flosi, Guðrún, Guðrún yngri, Ingimundur, Páll, Sigurður, Hálfdán og Helgi.Af þessum systkinum lifa nú aðeins Helgi og Hálfdán og búa á Kvískerjum. Þau systkinin þóttu og þykja einstök í sinni röð.  Bræðurnir urðu flestir miklir sjálfmenntaðir fræðimenn, kunnir fyrir skarpa athygli, hagleik og hugkvæmni.  Flosi lagði t.a.m. stund á jökla – og náttúrufræði og erlend tungumál, Helgi er listasmiður og smíðaði m.a. skírnarfontinn í Hofskirkju.  Hálfdán sá yngsti á fjölbreitt náttúrugripasafn og býr yfir frábærri þekkingu á jurta og dýralífi. Systurnar voru annálaðar hannyrðakonur, Ingimundur dó ungur.Páll hafði yndi af söng.  Fagursti söngurinn sem hann heyrði var ómur af sálminum ,,Lofið vorn Drottinn hinn líknsama föður á himnum.“  Það var 7unda  nóvember 1936.  Sigurður bróðir hans hafði lent undir snjóflóði í Breiðamerkurfjalli, borist með því í 28 metra djúpa geil inn undir jökulinn, lá þar ósjálfbjarga.  Leitarmenn höfðu nær gefist upp er Páll heyrði óminn en Sigurður stytti sér stundir og hélt sér á lífi og von sinni með því að syngja sálmabókina sem hann hefur eflaust kunnað utanbókar.  Hann var grafinn upp alheill eftir 25 tíma legu í snjóflóðinu.  Sigurður varð mikill sagnfræðingur og lést fyrir örfáum árum í hárri elli. HeimildÞorsteinn Jóhannsson(1998) Kvísker. Kvískerjabók, Sýslusafn Höfn Hornafirði.

Á ferð um landið -6. dagur - gegnum öskuna.

Það tók Guð sex daga að skapa heiminn og það tekur okkur sex daga að ferðast umkring eitt hans mesta undur. Þetta með Guð er þó ekki satt.  Hann er enn að eins og við komumst að raun um þennan daginn sem er sunnudagur 16. maí og árið er 2010.  Upp úr sakleysilegum Eyjafjallajökli hafði um mánaðarskeið staðið strókurinn, hraun, eiturgufur og  aska.  Við byrjuðum á því að skoða gljúfrin fyrir ofan Hunkubakka, Fjarðárgljúfur, stoppuðum í Vík, fórum síðan í fjöruna undir Reynsifjalli og við ungu strákarnir fórum úr skónum og böðuðum fæturna í ylvolgri öldunni.  Fararstjórar töldu óvenju vel þegar komið var í rútuna. Enginn hafði týnst.  Helgi Jón, einn af snillingunum í náminu, fræðir okkur um krossana í berginu á Dyrhólaey. Við fórum síðan upp á sporðinn á Sólheimajökli.  Jörðin var grá af ösku sem huldi túnin og þyrlaðist upp undan bílunum svo ekki sá handa skil.  Slökkviliðsmenn sprautuðu vatni á þök í Mýrdalnum. Hvítur jökullinn var kolsvartur.  Gosdrunur í nálægum fjarska. Svartgrár mökkurinn upp af eldstöðvunum.  Gætnir settu upp öndunargrímur.  Þórður á Skógum tók okkur fagnandi í öskugráu umhverfi Skóga.  Við skoðuðum reiðtygi, bíla og dráttarvélar frá þeim tíma þegar ég var ungur.  Ég set safnið á Skógum í flokk með steinasafni Petru og fuglasafni Sigurgeirs.  Fáir gestir í safninu. Aðeins áhættufíklar komu í safnið dagana gegnum strókinn. Ferðamenn vita ekki sitt rjúkandi ráð frekar en fýllinn.  Skógarfoss steyptist niður öskugrár.

Það er af nógu að taka á Njáluslóðum en allir kunna hana eins og lófann á sér.  Njála er mátulegt viðfangsefni og skemmtilegt.  Það var borðað á veitingarstað sem ber nafn Hlíðaenda.  Ég fékk mér hamborgara með miklum osti til minningar um Hallgerði langbrók og þræl hennar.

Hella er enginn farartálmi.  Við lítum niðrá vatnsmesta foss á Íslandi á leið yfir Þjórsá.  Ökum um Árnessýslu sem heitir eftir eyju í þjórsá.  Förum í gegnum Selfoss með sitt bókakaffi  yfir Hvítá gegnum Ölfusið meðfram Ingólfsfjalli.  Hvergerði er á hægri hönd, rútan erfiðar upp Kamba.  Vegurinn þar hefur verið mikið lagaður síðan Breskir hermenn steyptust þar niður í hrönnum í stríðinu.  Á Hellisheiði stíga hvítir strókar til himins og minna á deilur samtímans um nýtingu jarðorku.  Hvað á að virkja og í hvaða tilgangi?  Margar slíkar spurningar voru teknar  á ferðinni um landið, ferðinni sem nú er að ljúka.  Leiðsögumennirnir Snorri Valsson og Karl Jóhannsson mótuðu þetta vel.  Skipulögðu hóflega og gáfu það svigrúm sem þurfti til að öllum liði vel, meiddu engan með athugsemdum en drógu fram kosti, uppörvuðu. Hópurinn var hæfileikaríkur og margslunginn.

Við rennum niður Sandskeiðið inn í borg Guðjóns Samúelssonar.  Alls staðar kemur sá mæti maður við sögu.  Minni ferð er ekki lokið. Ég legg á heiðina. Leiðin liggur austur yfir fjall eftir sex daga stíð, hringstríð með kátum krökkum.  Merkilegri fyrirbæri en ég hafa hvílt sig eftir sex daga törn. Fyrir höndum er hvíldardagur, sjöundi dagurinn sem að þessu sinni er mánudagur.

Takk fyrir mig.


Á ferð um landið - 5. dagur - Frek og leiðinleg prestsfrú.

Þá held ég áfram í ferðinni en hvet engan til að lesa.  Aðeins sett hér inn til varðveizlu.

Þetta er eins og í hestaferð. Á fimmta degi er þetta farið að venjast.  Rasssærið sem gerði þriðja daginn óbærilegan og fjórða daginn slæman er orðið eðlilegur hluti af þjáningu daganna.  Við ökum um Eskifjörð og út á Mjóeyri og ég man það helst að það er talað um freka og leiðinlega prestsfrú og nízka sýslumannsfrú.  Svona eru  konur í menningunni!  Á Mjóeyri var karlinn Eiríkur nokkur geymdur áður en hann var tekinn af lífi eftir að hafa helétið samfanga sína.  Nær hefði verið að taka sýslumann af lífi fyrir vanræksluna.  Þetta var morgunfríður hópur sem hlustaði með athygli á hinar hryllilegu sögu.  Grímur var sem betur fer yngstur í rútunni. Börn hefðu orðið hrædd.

Við horfðum á bergganga í fjöllunum, innskot og hraunlög á leið okkar að göngunum milli Reyðafjarðar og Fáskrúðsfjarðar en þá förum við bóksaflega um berggöng og það er eins og að fara um tímagöng því að þegar við komum út mæta okkur frásögur um franska tímabilið í Fáskrúðsfirði. Frakkar veiddu þar útifyrir,  reistu spítala, eru grafnir þar og menningartengsl Fáskrúðsfirðinga og Frakka eru þó nokkur. Rútan hægir þó ekki á sér fyrr en komið er að steinasafni Petru á Stöðvarfirði en þar snarstoppar hún. Greinilega vön að stoppa þarna.  Þar er nóg að skoða.  Það eru börnin hennar Petru sem taka á móti okkur af lifandi umhyggju fyrir okkur hinum lifandi steinum og hinum dauðu steinum safnsins. Safnið er svo sannarlega upplifun og Petra hefur unnið lofsvert þrekvirki með því að safna nöfnum sínum saman en nafn hennar þýðir steinn, klettur eða bjarg eins og tungumálasnillingurinn Stan var fljótur að benda á.  Steinasafn Petru kemst í flokk með steinasafni Sigurgeirs yfir athyglisverðustu söfn á hringnum.

Austfirðir mynda ásamt Vestfjörðum elsta part landsins og berglögin halla inn að megineldstöðvum.  Við þreyjum Berufjörðinn með þolinmæði, skoðum slípaða steina  Sigurðar Guðmundssonar á bryggjunni á Djúpavogi.  Steinarnir bera nöfn fugla og eru lagaðir eftir lögun eggjanna.  Mér þótti þetta ekkert sérstakt en flestum finnst það.

Nú er haldið áfram og ekki rennt niður á höfuðstað Suð-Austurlands Höfn, fallegur staður Höfn á óviðjafnanlegu bæjarstæði.  Við stoppum vitaskuld í  Árnanesi þar sem þau hjónin Ásmundur Gíslason og Helga Erlendsdóttir, sem lést í vetur, hafa byggt upp ferðaþjónustu.  Árnanes stendur miðlægt í byggðinni í þríhyrning við Hóla þar sem Þorleifur í Hólum býr og Seljavelli þar sem bændahöfðinginn og alþingsimaðurinn Egill á Seljavöllum bjó.  Í Árnanesi höfðum við pantað súpu og kjömsum á henni dágóða stund í notalegri borðstofu.

Náttstaður okkar er Hunkubakkar á Síðu og engar gellur fara út á Klaustri.  Við höfum vitaskuld ekið ræmuna alla meðfram Vatnajökli.  Horft heim að Hoffelli, Svínafelli í Nesjum, Smyrlabjörgum, Skálafelli, bæjunum í Borgarhafnartorfunni og Breiðabólstaðartorfunni.  Námum staðar við Jökulsárlón en sigldum ekki. Héldum áfram yfir Fjallsá, minntumst á Kvískerjabræður, ókum hjá Hnappavöllum, Fagurhólsmýri, Hofsnesi þaðan sem Sigurður Bjarnason í Hofsnesi og Einar sonur hans taka fólk á heyvagni út í Ingólfshöfða.  Áfram var haldið fram hjá Hofi þar sem byggð hefur verið upp ferðaþjónusta og Svínafelli þar sem einnig er ferðaþjónusta og sundlaug og sérstakt hús klætt bárujárni upp í brekkunni og við fórum í Skaftafell og laufléttur hópurinn hljóp upp að Svartafossi og missti við það nokkur kíló.  Fólk sat í andaslitrunum við stuðlabergsmyndaðan fossinn og hugsaði til Guðjóns Samúelssonar sem einmitt kom frá Hunkubökkum sem varð gististaður okkar eftir hraðferð yfir svartan Skeiðarársandinn sem verður þó sífellt grænni.

Merkilegt hvað hægt er að komast á einum degi og þó áttu allir nóg eftir nema undirritaður sem sofnaði eins og barn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband