Til hamingju með daginn öll sömul!

Grein eftir guðfræðingana Baldur Kristjánsson, Arnfríði Guðmundsdóttur, Sólveigu Önnu Bóasdóttur, Sigurð Árna Þórðarson og Sigrúnu Óskarsdóttur:

Það eru margar ástæður til þess að mæla með því að kirkjan stilli sér upp við hlið réttlætisins og mæli með því að sömu lög gildi í landinu fyrir pör sem kjósa að ganga í hjónaband. Með því verður aðgreiningu eftir kynhneigð aflétt.

Margir hafa bent á að Þjóðkirkjan er aðili að alþjóðlegum kirkna samtökum, m.a. Lúterska heimssambandinu og Porvoo kirknasamfélaginu. Í þessum samtökum er afstaða til málefna samkynhneigðra umdeild og víða mikil átök. Aðeins tvær kirkjur þar sem prestarnir eru vígslumenn að lögum, þ.e. sænska kirkjan og Sameinaða mótmælakirkjan í Kanada, hafa samþykkt skilgreiningu ríkisvaldsins á einum hjúskaparlögum fyrir alla.

Ef þjóðkirkjan er kjörkuð tekur hún sér stöðu með þessum kirkjum, mælir með einum hjúskaparlögum og gleðst yfir því að prestar hennar hafi heimild til hjónavígslu tveggja einstaklinga sem unnast.

Við viljum áfram vera hluti hins alþjóðlega kirknasamfélags en við viljum einnig standa vörð um boðskap kirkjunnar. Það er ekki sjálfsagt að vera í samfélagi kirkna sem neita að vígja konur til prestsþjónustu og jafnvel líta á það sem skilyrðislausa kröfu að konur þegi á safnaðarsamkomum. En við látum okkur hafa það. Við verjum ekki valdníðsluna og óréttlætið. Við stillum okkur upp við hlið systra okkar sem búa daglega við ranglætið og styðjum þær í baráttunni. Við þolum að vera í samstarfi við kirkjur sem fordæma samkynhneigð og líta á hana sem synd. Það er ekki til þess að sýna kirkjustjórnum þar samstöðu. Við stillum okkur upp við hlið trúarsystra okkar og -bræðra sem þrá samfélag kirkjunnar og við tökum höndum saman um að búa þeim það rými sem þeim ber.

Það var ýmislegt reynt til að hnekkja á Jesú. Það var líka lögð mikil áhersla á að breytingar væru hættulegar. Þannig var komið með veikan mann til Jesú á hvíldardegi til þess að kanna hvort hann myndi voga sér að brjóta boðið um að halda hvíldardaginn heilagan. Hvað gerði Jesús? Kallaði hann saman ráðgjafarþing sem svo vísaði málinu í nefnd? Nei, hann læknaði manninn og kenndi viðstöddum þá mikilvægu lexíu að hvíldardagurinn væri til fyrir manninn en ekki maðurinn fyrir hvíldardaginn.

Þannig skulum við einnig leggja okkar lóð á vogarskálina við umfjöllun og afgreiðslu um ein hjúskaparlög. Munum að lögin eru sett til að vernda okkur öll en ekki til að mismuna.

Birtist í Fréttablaðinu 10. júní.


mbl.is Hjúskaparlög samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Kæri Baldur.

Það hefur aldrei þurft kjark til að fylgja anda heimsins. Jesús Kristur er ennþá að leysa samkynhneigða, en þú og aðrir vita það ekki. Langar að benda þér á 2. Þess.2.11 sem virðist því miður passa vel við ykkur greinarhöfunda. Ég á erfitt að skilja hvernig fólk í ykkar stétt getur orðið svona blekkt. Að óska fólki til hamingju með að brjóta og afbaka boð Guðs, er  það nú þjónusta prestsins ?

Kristinn Ásgrímsson, 11.6.2010 kl. 23:39

2 Smámynd: Adda Guðrún Sigurjónsdóttir

Kristinn....ég hef séð að þú ert gegnsýrður af fordómum í garð okkar samkynhneigðra. Það er sorglegt og lýsir þér en ekki okkur. Þig skortir þann kærleik sem þarf til að sýna öllu fólki umburðarlyndi, sama hvernig það er á litinn, hvaða kyn það er eða hvaða kynhneigð það hefur.

Þú ert afar sorglegt dæmi um kreddukall sem les Biblíuna með þínum eigin túlkunum og tekur úr henni það sem þér dettur í hug.

Ég vona innilega að börnin þín verði svo heppin að hljóta sömu kynhneigð og þú, þeirra vegna..

Aftur á móti má spyrja sig þegar svona miklir fordómar sjást hvort um sé að ræða dulda samkynhneigð sem ekki er viðurkennd.....bara vangaveltur mínar......

Adda Guðrún Sigurjónsdóttir, 12.6.2010 kl. 00:42

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Tek undir orð Öddu Guðrúnar,  nýlega kom til mín ung kona sem var að koma út úr skápnum, þ.e.a.s. gagnvart sjálfri sér og nánum vinum sem hún treysti og var að segja mér frá sinni sálarangist að geta ekki sagt foreldrum sínum "vegna þess þau væru svo trúuð"  og þau myndu örugglega ekki viðurkenna hana og jafnvel reka hana að heiman ef hún segði þeim sannleikann hver hennar kynhneigð væri.

Það er ekki hægt að lýsa þeirri sorg að þurfa að heyra svona, og á hverju byggir þetta trúaða fólk öðru en ótta og undirgefni við fornan texta sem talaður er inn í samfélag sem var þá. Núið er núna og  Guð hefur svo sannarlega ekki þagnað eins og sumt Biblíutúrarfólk virðist álíta.  Að orð Guðs séu læst í bók.  Orð Biblíunnar verða einungis lifandi ef við lesum þau og túlkum, annars eru þau dauð. Talað er að lesa með Krist í brjósti. 

Ég hvatti stúlkuna til að ræða við foreldra sína og sem foreldrar hlytu þau að elska hana nóg til að viðurkenna hana eins og hún væri.  Hún sagði mér þá að fjölskyldumeðlimur hefði komið út úr skápnum og þá hefðu þau hætt að tala við hann, svo hún vissi hvaða sjónarmið þau hefðu. 

Það er ekki verið að brjóta eða afbaka orð Guðs, því að orð Guðs er Kærleikur,  orð Guðs er Jesús Kristur.   Elskum náungann eins og okkur sjálf, það er hið æðsta boðorð. 

Kristinn og aðrir sem ríghalda í neikvæða mynd af samkynhneigð, þið þurfið að opna augun fyrir þeirri staðreynd að samkynhneigð er raunveruleiki, hún er ekki ofbeldi eða hroki, sem eru raunverulegar syndir - og þegar verið er að tala um að gifta karl og karl eða konu og konu þá er það að sjálfsögðu byggt á sams konar ást og verið væri að gifta konu og karl.  Það er ekkert öðruvísi. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 12.6.2010 kl. 06:57

4 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Það er að sjálfsögðu gott mál að stuðla að auknum mannréttindum.

Það er aftur á móti ekki gott að pólitík og Alþingi skipti sér af því er skrifað er í heilagri ritningu oða hvað egi að vera ritað þar. 

Það er einfaldlega ekki þeirra mál.

Óskar Guðmundsson, 12.6.2010 kl. 09:44

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er auðvitað verkefni Alþingis að setja lög í landinu, líka hjúskaparlög.

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.6.2010 kl. 12:52

6 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Adda mín, hef enga fordóma gagnvart þér eða öðru samkynhneigðu fólki, hef heldur ekki mér vitanlega duldar tilfinningar í þá átt.

Það að mér finnist þessi lífsmáti óeðlilegur, þýðir ekki að ég hati þig eða annað fólk. Hins vegar hef ég kynnst mörgu fólki sem hefur snúið baki við þessum lífsmáta. Og er það ekki merkilegt Adda, að aðrir samkynhneigðir virðast hafa fordóma gegn þeim.

Ég á líka nákomna sem eru samkynhneigðir og eru jafnvelkomnir og aðrir í mitt hús. Adda ef að börn min eða barnabörn myndu koma til mín og segjast samkynhneigð, myndi ég elska þau og virða jafnt fyrir það.

Ég er einfaldlega ekki á móti fólki, ég hins vegar trúi að hjónaband sé milli karls og konu, það er það sem þessi umræða snýst um.

Jóhanna, ég hef neikvæða mynd af því sem ég tel óeðlilegt og rangt. Skil ekki skilgreiningu þína á raunverulegum syndum og öðrum syndum.

Synd er lagabrot, það er einnig synd fyrir kristin mann að framganga ekki í kærleika. Nú geri ég mér grein fyrir að þið teljið mig ekki framganga í kærleika, meðan ég kalla samkynhneigð synd. En það er Guð sem dæmir hjörtu okkar allra.

Adda ég bið þér Guðs blessunar og óska þér alls hins besta í lífinu.

Kristinn Ásgrímsson, 12.6.2010 kl. 19:09

7 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Baldur minn! þú færð mig til að trúa aftur, trúa ekki, en halda sagði hann séra Sigurður Pálsson þegar hann var að undirbúa okkur fyrir ferminguna. Þessi orð hans eru þau einu sem ég man eftir úr þessari kennslu á Selfossi. Það þarf að ýta við manni öðru hvoru til að maður opni augu og huga eða hjartað kannski heldur. En hvað um það, þessi samkynhneigð  og gifting er eitthvað nýtt og óþroskuð afstaða margra er skiljanleg. Ef menn ekki trúa geta þeir haldið! Það er alveg ágætis sálarnesti á lífsleiðinni, held ég.

Eyjólfur Jónsson, 15.6.2010 kl. 22:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband