Samanburður við Ísland!?

Norðmenn hafa verið að færa sig í átt til fjölmenningar og skyldunámskúrsinn heitir nú hjá þeim líkt og hjá okkur “Kristindómur, trúarbrögð og siðfræði”, en áður var það einfaldlega Kristinfræði.  Gallinn hjá þeim er sá að námsefnið er skylda og börn geta aðeins sloppið við þennan kúrs að takmörkuðu leiti þ.e. aðeins þann þátt hans sem felur í sér tilbeiðslu eða iðkun trúarbragðs.  Stofnanir Evrópuráðsins(t.d. ECRI) hafa verið að vara Norðmenn við undanfarin ár að þeir verði að ganga lengra í þá átt að aðskilja trúarbragðakennslu og skólastarf. Sú krafa hefur verið borin uppi í Noregi af “Norwegian Humanist Association” og einnig “The Islamist Council of Norway” (sem þó hafa haldið sig frekar til hlés).Krafan hefur verið sú að börn geti alfarið sagt sig frá kúrsinum.  Ég sé ekki á þessari frétt (mbl.) hvort dómur Evrópudómstólsins gangi út á það að þeim skuli leyft það eða hitt að kúrsinn sé bannfærður.  Sennilega þó það fyrrnefnda.

Óvarlegt er að hrapa að samnburði við Ísland.  Eftir því sem ég best veit þá drögum við þrengri mörk en Norðmenn og bjóðum ekki upp á bænahald í námsefninu auk þess sem krakkar geta alfarið sagt sig frá kennslunni. Sambærilegur kúrs hér er sem sagt ekki skylda. Við höfum hins vegar verið gagnrýnd fyrir það(af ECRI) að bjóða börnum ekki upp á nógu skýran valkost a.m.k. ekki alls staðar.


mbl.is Mannréttindadómstóll gagnrýnir kristinfræðikennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Ástandið hér á landi er nú ekki eins slæmt og í Noregi, enda hefur kirkjan (sem betur fer) ekki jafn sterk ítök í þjóðfélaginu.

Það er hins vegar skoðun Púkans að trúfræðsla í einu formi eða öðru eigi ekki heima í skólum landsins, ekki nema þá að öllum trúarbrögðum og ýmsum myndum trúleysis sé gert jafn hátt undir höfði.  Ef foreldrar vilja að börn þeirra fái sérstaka fræðslu um tiltekin trúarbrögð geta þau bara séð um það sjálf.

Annars hefur Púkinn nú ritað margt um trúmál, en á þessum hlekk má sjá ýmsar greinar Púkans varðandi trúleysi, trúarfasisma, vísindakirkjuna og annað í sviðpuðum dúr.

Púkinn, 6.7.2007 kl. 11:42

2 Smámynd: Sigrún Ósk Arnardóttir

Ég held nú kannski að þetta sé ekki alveg rétt hjá þér með hversu sterk tök kirkjan hefur hér heima. Sjálf á ég barn á grunnskólaaldir og í grunnskóla míns barns er farið í heimsóknir í kirkjuna á hátíðum og það eru kenndar biblíusögur í kristinfræðitímum. Svo eru unnin "kristin" verkefni fyrir jól og páska þ.e. fræðsla um þær hátíðir og unnin verkefni kring um það. Vissulega eru ekki kenndar bænir eða haldnar neinar bænastundir en samt þá finnst mér þetta vera trúboð þar sem ekki er fjallað á sambærilegan hátt um önnur trúarbrögð en kristni. Og það er í raun enginn skýr valkostur fyrir börnin vilji maður ekki að þau taki þátt í kristinfræðinni. Hver vill vera barnið sem er sett fram á gang að lita þegar kristinfræðikennslan er í gangi? Vissulega er boðið uppá það að kippa barninu úr bekknum en það er ekkert sem kemur þá í staðinn fyrir kristinfræðina.

Sigrún Ósk Arnardóttir, 6.7.2007 kl. 11:54

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Mér finnst það nú hálf einkennilegt, Sigrún, að gera athugasemdir við að unnin séu kristin verkefni fyrir jól og páska. Eru þetta ekki kristnar hátíðir? Ef fólk vill vera sjálfu sér samkvæmt í þessu kristindómshatri verður það þá ekki að láta sig hafa það að sleppa því einfaldlega að halda upp á kristnar hátíðir, ekki satt? Annars er þetta bara eitthvert röfl.

Þorsteinn Siglaugsson, 6.7.2007 kl. 12:13

4 identicon

Þorsteinn, málið er að það eru bara unnin kristin verkefni. Væri ekki meira samræmi í að vinna verkefni tengd öllum helstu trúarbrögðunum þegar kemur að þeirra mikilvægustu hátíðum? Ég er persónulega ekki að mæla með því, mér finnst að þetta eigi einfaldlega að vera sérhæfð sögukennsla (saga trúarbragða) en þá væri a.m.k. ekki verið að hygla einni trú á kostnað annarra í veraldlegum menntastofnunum.

Og Jólin voru nú hátíð hér áður en landið var kristnað, er ekki til í að kaupa það hrátt að einungis kristið fólk geti fagnað þeirri ljósahátíð...

Páll Jónsson (IP-tala skráð) 6.7.2007 kl. 12:33

5 identicon

 Það er reyndar rangt Þorsteinn að jól og páskar séu kristnar hátíðir.

Það hefur  nógu oft verið fjallað um það hvernig kristna kirkjan tók ýmsar fornar hátíðir og gerði að sínum, að óþarfi er að hjakka á því hér.

En með því að tyggja lygina nógu oft gætu einhverjir farið að trúa henni.

Árni Árnason (IP-tala skráð) 6.7.2007 kl. 12:37

6 Smámynd: Sigrún Ósk Arnardóttir

Held að Páll og Árni hafi svarað þessu ágætlega fyrir mig.

Bottom line: Trúboð á ekki heima inni í skólum. Það er foreldranna að ákveða hvaða gildi/trú þeir kjósa að innræta sínum börnum. 

Sigrún Ósk Arnardóttir, 6.7.2007 kl. 13:57

7 Smámynd: Sigrún Ósk Arnardóttir

Eitt enn Þorsteinn. Ég er enginn kristindómshatari eins og þú orðar það svo smekklega. Ég ber virðingu fyrir skoðunum þeirra sem kristnir eru og ætlast til hins sama af þeim gagnvart mér.

Á meðan Ríki og kirkja eru ekki aðskilin og trúboð viðgengst í skólum er hins vegar ekki borin virðing fyrir mér og mínu frelsi til að ala mitt barn upp í þeim trúarbrögðum sem ég kýs nú eða bara trúleysi. 

Sigrún Ósk Arnardóttir, 6.7.2007 kl. 14:00

8 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Þessi dómur er partur af alþjóðavæðingunni. Allar þjóðir eiga að vera án sérkenna, steyptar í eitthvert alþjóðlegt mót. Ef að þessi dómur hefur áhrif hérlendis getur þýtt það að íslenskir skólar lendi í vandræðum því að mikill hluti skólastarfs hérlendis er tengt ríkjandi menningu í landinu sem litast af kristnihaldi, rétt eins og aðrar vestrænar þjóðir það er væntanlega þyrnir í augu trúleysingja að halda jól og undirbúa þau í skólum en þar tíðkast að halda jólaböll, gefa samnemendum jólakort og skreyta kennslustofurnar fyrir jólin, halda helgileiki og syngja jólalög, nú og jólasveinninn er tilkominn af heilögum Nikúlas sem ég held að sé dýrlingur innan kaþólsku kirkjunnar (er samt ekki viss) jólasveinninn getur eflaust sært blygðunarkennd hinna trúlausu. Helgihátíðir íslendinga fara afskaplega í taugarnar á trúleysingjum, þeir þola ekki að verslanir og margir veitingastaðir séu lokaðir á jóladag, páskadag og hvítasunnudag, Þeir mótmæltu eftirminnilega þessu ranglæti hinnar kristnu þjóðar með því að spila bingó á Austurvelli á hvítasunnudag. Nú í íslenskum skólum tíðkast að kenna íslendingasögur það þykir sjálfsagt vera rasismi og vart boðlegt útlendingum. Hver getur fært sönnur á því að Egill Skallagrímsson hafi orðið mannsbani aðeins 6 ára. Er ekki líka tómt bull að kenna íslensk ljóð og kvæði, þau eru náttúrulega óður til ættjarðarinnar það er klárlega mismunun.

Guðrún Sæmundsdóttir, 6.7.2007 kl. 15:48

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Innilega sammála þér, Guðrún. Kristinn dómur er einfaldlega mikilvægur hluti af menningu okkar og sjálfsagt að virða það, hvað sem líður öðrum trúarbrögðum sem eru það ekki. Það virðist hins vegar mjög í tísku núna að vera á móti kirkju og kristni en mig grunar að þeir sem halda slíkum skoðunum hæst á lofti hafi sjaldnast velt málinu fyrir sér af neinni dýpt. Þetta fólk ætti kannski að kynna sér stöðuna í löndum múslima, nú eða bara í biblíubeltinu í BNA. Þá fengi það fyrst eitthvað raunverulegt til að kvarta yfir.

Þorsteinn Siglaugsson, 6.7.2007 kl. 19:55

10 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Ég á 15 ára son sem hefur hlotið svokallaða trúarbragðafræðslu í grunnskólanum, sú fræðsla er mjög víðtæk og góð. En hann hefur  samt fengið ítarlegri fræðslu um Kristni og Ásatrú, er það ekki eðlilegur hlutur þar sem þau trúarbrögð hafa haft mest áhrif á sögu okkar og menningu? Grunnskólinn er vettvangur fyrir íslensk börn hvaðan sem þau koma, ég hef ekki alltaf verið sátt við kennsluaðferðirnar sem börnin mín hafa setið undir en ég þarf ekki að ráðskast með skólann útaf mínum persónulegu skoðunum. Það er beinlinis stjórnunarfíkn að ætla sér að breyta siðfræði þjóðar þar sem yfir 90% tilheyra kristni!  Dytti fólki í alvöru í hug að ætla sér að breyta skólakerfi í Kína þar sem trúleysið er iðkað, og heimta þar meiri kristnifræðikennslu eða goðafræðikennsluð? þar yrði manni einfaldlega varpað í fangelsi fyrir slíkar tilraunir, það er nú allt frelsið í trúleysislandinu.

Guðrún Sæmundsdóttir, 6.7.2007 kl. 22:12

11 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Ástæða þess að ég ber trúleysi saman við kommúnistalöndin er sú að ég fór að íhuga hvaða þjóðir það eru sem hafa opinbert trúleysi sem megin "trú" og byggja stjórnarskrá sína á þeirri stefnu. upphaflega var sú stefna mjög falleg, en ávextirnir hafa ekki verið eftirsóknarverðir. Þær þjóðir sem aðhyllast Íslam eiga ekki uppá pallborðið hjá mér. ég get ekki betur séð en að þau þjóðfélög sem hafa byggst upp með kristnihaldi séu almennt með bestu mannréttindi fyrir sína borgara.

Guðrún Sæmundsdóttir, 7.7.2007 kl. 12:16

12 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Eg á 3 dætur. Tvær voru á fermingaraldir þegar sú 3. byrjaði skólagöngu. Þær 2 elstu eru skýrðar af gömlum vana, svona eins og venjulegast er á Íslandi, en 3 stelpan kom ekki fyrr en ég var að verða 40 ára. Það voru búnar að vera miklar umræður um homma, kvennpresta og kirkjuna í þjóðfélaginu áður en sú litla fæddist og ég fékk meira og meira ógeð á kirkjunni. Þegar sú litla fæddist, varð mér hreinlega óglatt við tilhugsunina um að standa upp í kirkjunni og lofa því að ala barnið mitt upp í kristinni trú. Þá gengum við úr þjóðkirkjunni og eftri það hef ég þurft að berjast fyrir þeim rétti mínum að fá að ala börnin mín upp trúlaus. Eins og ég sagði áður, hef ég ekkert á móti að þau fræðist um trúarbrögð, en þegar dóttir mín kom heim úr skólanum 6 ára og sagði okkur við kvöldverðrborðið að guð hefði skapað heiminn og hana sjálfa, komu miklar mótbárur frá eldri systrunum. Sú elsta var í 10 bekk og var að læra um stóra hvell,(takið eftir að það er ekki fyrr en í 10 bekk sem þau eru talin nógu þrostkuð til að læra um það) og reyndi að útskýra fyrri litlu systur hvernig heimurinn hefði orðið til. Sú litla fór í skólann daginn eftir og full af tilhlökkun ákvað hún að reyna að skýra þetta út fyrir krökkunum og kennaranum hvernig hlutirnir hefðu orðið til. Það tókst ekki betur en svo að 6 ára barnið sem talaði mjög svo bjagaða íslensku( við vorum búin að búa hér í nokkra mánuði) lendi í því að rökræða trúmál við allan bekkinn. Hún fékk enga aðstoð frá kennaranum til að skýra mál sitt. Hún kom heim og spurði mig hvort það geti verið að fólk í Svíþjóð þar sem hún hafði alist upp, hafi bara ekki heyrt um guð, því bæði kennarinn og allir krakkarnir í bekknum voru sannfærð um að guð hafi skapað heiminn.

Hvaða forsendur hafa svona lítil börn til að taka á svona málum?

Ég fékk lánaða kristinfræði bókina, til að kynna mér hvað þau voru að læra um. Þetta voru þessar venjulegu sögur úr biblíunni, settar fram algjörlega gagnrýnislaust. Til dæmis var þar sagan um Noa og flóðið og sagt að guð hafi ákveðið að það kæmi mikið flóð sem drekkti öllum nema þeim á örkinni, vegna þess að fólkið væri vont og gerði ekki eins og guð sagði. Síðan voru spurningar í lok kaflans þar sem þau áttu að velta ýmsu fyrir sér. Þar var engin spurning um hvort þessi hrottaskapur hafi verið siðferðislega réttur. Er leyfilegt að drekkja þeim sem gera ekki eins og guð segir. Síðan voru spurningar eins og hvað meinar guð með að hann sé ljós lífsins? Ég get ekki svarað þessari spurningu, og ég held maður verði að trúa að guð til og að hann sé ljós lífsins til að geta svarað þessu.

Ég vil minna á að þetta er námsefni fyrir 1-3 bekk og er þetta fyrir krakka sem eru ekki það þroskuð að þau geti tekið á móti þessu án gagnrýni. þess vegna verður þetta að vera sett fram á gagnrýnin hátt. Það er spurning hvort þau séu yfirhöfuð nógu þroskuð til að læra um trúarbrögð á þessum árum. Það má að mínum dómi frekar kenna þeim siðfræði, það er að vera góð við hvort annað, sameiginlega ábyrgð fyrir að allir hafi það gott í skólanum og enginn sé útundan og þess háttar.

Síðan má kenna þeim kristinfræði og önnur trúarbrögð og um humanistma þegar þau eru aðeins eldir og geta myndað sér sjálfstæða skoðun. Eins og kennslan er núna er hún ekkert nema trúboð.

Ásta Kristín Norrman, 8.7.2007 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband