Sveitin milli sanda...

Öræfingar eru aldeilis sérstakt og skemmtilegt fólk.  Þannig byrjar maður gjarnan klausur frá Krít eða Grikklandi (EH) en í þessu tilfelli nota ég lýsinguna um Öræfinga.  Ég var þar nefnilega á ferð um helgina í veðurblíðu. Þeir sem við hittum voru alminnilegir og góðir við börn líkt og fólk flest. Það var skýjað loft.  Skýin dempuðu hitann frá sólinni og fyrir vikið leið okkur vel. Það fann ég vel þegar við komum á Rangárvellina í gærkvöldi og svitinn fór að boga af okkur og þegar við komum á Selfoss sáum við hvað fólkið var þreytt eftir alla sólina.  En við vorum eins og nýslegnir túskildingar eftir göngur um hlíðar og skóga í hæfilega röku veðri, eftir ærsl í kringlóttu sundluginni á Svínafelli og eftir að hafa upplifað dulúð, fjallanna, jökulsins og sandanna. Öræfingar voru í heyskap.  Athygli vakti að engar rúllur voru á túnunum.  Kunnugir sögðu mér að bændur í Öræfum væru snyrtimenni sem hugsuðu vel um túnin sín og hirtu rúllurnar jafnóðum. Í Freysnesi er góður kokkur sem matreiðir silung án þess að skemma hann.

Á leðinni heim, rétt fyrir austan Hvolsvöll höfðu þeir verið að leggja nýtt slitlag og beggja vegna stóð skýrum stöfum. Nýtt slitlag, steinkast, akið varlega. Sniðugir menn Rangæingar en skrítið að þeir skuli ekki hafa áttað sig á því að í þriðja hverjum bíl er fólk sem ekki les íslensku.  Það eru til skilti sem sýna þessa hættu á táknmáli, steinn sést spýtast undan dekki á bíl, bíll sést skransa. Á þessum slóðum á þessum tíma eru einmitt margir útlendingar á ferð og allt of margir útlendingar láta lífið á íslenskum vegum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband