Hættum að selja tóbak í matvöruverslunum!

Ég kom með þá tillögu í vetur að við ættum að hætta að selja tóbak í matvöruverslunum. Þessi hugmynd fékk litla athygli nema frá nokkrum tóbaksfíklum (sem vitaskuld er ekki sjálfrátt) sem hópuðust inn á síðuna mína og töluðu um frelsi. Nú sé ég að álíka hugmyndir eru að skjóta upp kollinum um allan heim.  Vitaskuld er það ekkert annað en hugsunarvilla að hafa fíkniefnið tóbak til sölu í öðru hverju húsi.  Innan um mjólkina í matvöruversluninni og innan um bensínið, ísinn og súkkulaðið á bensístöðvum.  Er nema von að börn byrja að reykja í fyllingu tímans? ,,Það getur ekki verið að tókak sé í alvöru svona hættulegt fyrst að það er svona viðurkennt.”

Tóbak á að selja í sérverslunum. Rétt væri að selja það eingöngu í Áfengis- og Tóbaksverslun ríkisins.  Reykingar ætti sömuleiðis að banna nema á sérstökum svæðum.  Eins og við reynum að ná hraðakstri af götum með sérstökum kvartmílubrautum ættum við að ná reykingum úr augsýn barna t.d. með sérstökum reykingagörðum sem yrðu þá svolítiða afsíðis.

(Í upphaflegum pistli var Bónus tiltekið en þar er ekki selt tóbak sbr. athugasemdir) 

Frjálslyndir jafnaðarmenn geta menn verið þó þeir vilji setja hömlur á sölu fíkniefna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Sammála

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 16.5.2008 kl. 09:27

2 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Bendi á að Bónus hefur séð sóma sinn í því að selja ekki tóbak og hefur aldrei gert.

Ég er sammála þér en ég vil ganga örlítið lengra. Eingöngu selja tóbak í kartonum, Þá finnur fólk betur fyrir því hvað þetta er dýrt.  Það mætti frekar auka aðgengi að hjálpardóti eins og nikótínstautum og svoleiðis dóti. Það er til dæmis hálf fáránlegt að sá sem er að bögglast við að hætta að reykja þurfi að fara á sérstaka staði til að kaupa stautana og þarf að kaupa þá í stórum skömmtum en getur allsstaðar orðið sér út um sígarettur.

Þóra Guðmundsdóttir, 16.5.2008 kl. 09:49

3 identicon

Nema hvað að tóbak er ekki selt í Bónus verslunum. :)

En þar fyrir utan að þá er ég ekki sammála þessu, því jú tóbak er löglegt á íslandi, og það er í umræðunni að færa áfengi yfir í matvöruverslanir, og að mínu mati þarf fólk að læra að taka ábyrgð á sjálfum sér, heldur en að setja boð og bönn sem leysa að mér finnst ekki neitt. 

Jóhann (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 09:50

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mig minnir að framlag Jóhannesar í Bónus til forvarna gagnvart tóbaksnotkun væri að hafa ekki þá tegund neysluvara á boðstólum. Í raun hafa verslanir ekki mikið upp úr því að selja tóbak, álagning er sáralítil en kostnaður töluverður og áhætta því oft leggja innbrotsþjófar leið sína í verslanir til að stela tóbaki! Því er sjálfsagt ekki eftir miklu að slægjast með því að selja tóbak.

Oft var það nefnt að veita þjónustu við sem breiðastan hóp viðskiptavina. Þannig var það með tóbakið. Áður fyrr fékk verslunin einnig sáralítið fyrir að selja mjólk og mjólkurvörur. Þetta var þjónusta! Af þessu tilefni var tekinn upp sá háttur við skipulag verslunar að hafa mjólkurvörurnar innst í búðunum! Þangað áttu allir erindi og unnt var að leggja ýmsar freistingar um tilboð oft á e-u sem enginn þarfnaðist raunverulega en keypti engu að síður!

Svona er sálfræðin gjörnýtt í þágu fræða kaupahéðna. Ætli margir aðilar myndu ekki fagna því að tóbak yrði gert útlægt úr venjulegum verslunum? Mætti þar nefna tryggingafélögin sem hafa sjálfsagt meira tjón af þjófum en flestir aðrir aðilar í samfélaginu? Þó bæta þeir sér upp útgjöldin með því að hækka iðgjöldin.

Best væri að verslunareigendur tækju upp á því sjálfir að hætta að hafa tóbak á boðstólum en ekki sett lög eða reglugerðir með boðum og bönnum. Íslendingar eru hvort sem er ekki svo mikið að fara eftir skýrum reglum eins og t.d. bann við nagladekkjum eftir miðjan apríl. Enn eru allmargir svartir sauðir að skrölta á þeim bæði samfélaginu og ekki síst þeim sjálfum til mikils tjóns.

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 16.5.2008 kl. 10:00

5 Smámynd: Þórður

Er nú sammála Jóhanni að hluta til, þetta er löglegt. Ég hins vegar get alveg tekið undir það að færa þessa sölu í sérstakar verslanir, sjálfu tek ég í vörina og fer bara þangað sem neftóbakið fæst hverju sinni. Get ekki séð að það breyti neinu hvort ég kaupi það í N1 eða sérverslun með tóbak. Svo er nú eitt sem verslunareigendur verða að gera betur það er að fylgjast betur með aldri þeirra sem eru að kaupa tóbak.

Áfram Fjölnir - Áfram MAN UTD.

Þórður, 16.5.2008 kl. 10:18

6 identicon

Góðan dag; Síra Baldur og aðrir skrifarar !

Heyr á endemi ! Hugðist nú ekki, ætla að ónáða þig, sem þína lesendur og skrifara, hér á síðu þinni, en,................ nú tekur steininn úr, klerkur góður.

Reykingar; eru eini munaður minn, í þessu volaða jarðlífi, og þætti mér, sem fleirrum snautlegt, yrði okkur settar frekari skorður, en orðnar eru, nú þegar. Nær væri að reisa enn frekari skorður, við áfengisböli landsmanna, hvert er jú; oftsinnis undanfari neyzlu sterkari eiturefnanna.

Sjálfur; hefi ég reykt, síðan í Apríl 1982, samfleytt, og tel mig ekkert betri eða verri þegn þessa lands, fyrir vikið, og raunar slétt sama, hvort ég lifi 5 árunum lengur eða skemur. Tek afar sjaldan umgangspestir, hvar bakteríudrepandi efni, margvísleg; finnast í tóbakinu, þótt auðvitað drepi tóbakið, hvern og einn, hægt og bítandi.

Með sæmilegum kveðjum, úr Efra- Ölvesi / Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 12:03

7 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll Óskar Helgi! Gott að heyra í þér aftur hressum og glaðbeittum. kv. B

Baldur Kristjánsson, 16.5.2008 kl. 13:46

8 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Þetta er eðlilegt framhald á áratugaþróun.  Menn einfaldlega gerðu sér ekki grein fyrir skaðseminni þegar þessi sala var leyfð í verslunum á sínum tíma.  Nú er bara öldin önnur í a.m.k. tvennum skilningi.

Ps. Óskar, þú ferð bara í Ríkið og kaupir tóbakið.  Það er enginn að fara fram á það við þig að þú hættir.  Þú tekur þá ákvörðun sjálfur...eða ekki.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 16.5.2008 kl. 13:53

9 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Ef við förum út í það já, kannski væri best að banna alla menn!  kv. B

Baldur Kristjánsson, 16.5.2008 kl. 15:05

10 Smámynd: Bjarni Harðarson

það verður öll vitleysa að ganga sína götu til enda áður en það er snúið við. ég hef bundið vonir við að öfgar gegn reykingum og allskonar annað ofstæki væri í rénun enda fyrir löngu alltof langt gengið - en kannski verður að fara enn lengra. svo fer þetta að snúast við og áður en við kveðjum þetta jarðlíf séra verður brosað að þeim mönnum sem settu hugsjónir sínar í að banna mönnum allt sem gæti verið óhollt. lifi umburðarlyndi okkar hinna frjálslyndu,- sem vitum að við erum bæði breyskir og dauðlegir. ég er viss um að þú ert bara að spauga með því að halda þessu bulli fram!

Bjarni Harðarson, 16.5.2008 kl. 17:30

11 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Nei Bjarni mér er full alvara! Þegar við sitjum saman á hjúkrunarheimilinu, ég með gangráð og þú með loftkút þá get ég sagt við þig um leið og við horfum yfir fallegt land jafnaðarmennskunnar.  Sjáðu Bjarni, ég átti þátt í, með skeleggum málflutningi, að koma á reyklausu Íslandi meðan þú afrekaðir það eitt að tefja inngöngu íslands í ESB um nokkur misseri. Ólíkt höfðumst við að segi ég þá og þú hóstar svo mikið að þú getur ekki svarað mér.  Kv. B

Baldur Kristjánsson, 16.5.2008 kl. 18:36

12 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ekki þetta hálfkák Baldur - ég hef sagt það áður: Eina vitið er að banna tóbak með öllu á Íslandi; innflutning, sölu og neyslu. Bara eitt heljarmikið pennastrik, bamm! Þetta er ekki hæðni hjá mér, heldur fúlasta alvara. Þá hætti ég loks. Kannski í lagi að hafa aðlögunartíma með pakkann á 3.000 krónur stykkið.

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.5.2008 kl. 19:00

13 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Styð þetta eindregið. takk fyrir að benda á hér í athugasemdunum fyrir ofan að Bónus selur ekki tóbak. Við ættum að beina viðskiptum okkar bara til þannig aðila.  Það ættu allir að skammast sín fyrir að selja tóbak.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.5.2008 kl. 19:35

14 Smámynd: Skarfurinn

Alveg kostulegt að heyra í ykkur siðapostulunum sem viljið reyna að stjórna öllum öðrum með boðum og bönnum, vegna þess að það snertir ykkur ekki. Til hvers að selja bara tóbak í einkasölubúllum ÁTVR (EINOKUN) ? tóbak er kyrfilega falið í öllum sjoppum í dag þó varan sé lögleg og ríkið græði á sölunni.Ef þið væru sjálfum ykkur samkvæm legðuð þið  til bann við sölunni punktur.

Það er barnaskapur að halda því fram að það sé einhver góðmennska falin í því að Bónus selji ekki tóbak, ástæðan er að það gefus svo lítið í aðra hönd, þetta er fyrst og fremst þjónusta.

Boð og bönn virka ekki hérlendis sbr. bann við nagladekkjum eftir 15. apríl, ég sé fjölda bíla daglega á nöglum og löggan geriri ekkert, þeir eru svo uppteknir við að fylla á gasbrúsana sína og hamra á almenningi.

Skarfurinn, 16.5.2008 kl. 20:48

15 Smámynd: Skarfurinn

Eftir lestur greina hér að ofan vil ég sérstaklega taka hatt minn ofan fyrir Bjarna Harðarsyni, þarna talar hann af viti finnst mér og er þetta sennilega í fyrsta skipti sem við erum sammála.

Skarfurinn, 16.5.2008 kl. 20:52

16 identicon

Spurning hvort að það eigi ekki að banna súkkulaði og annað sælgæti líka. Það hefur sáralítið næringargildi og afskaplega slæm áhrif á "lýðheilsuna". Á varla heima innan um mjólk, brauð og aðra nauðsynlega og nærandi matvöru. Myndi það ekki senda rétt skilaboð til æskunnar að henda slíkri vöru út úr matvörubúðum og væri það ekki skref í átt að björtum og nýjum heimi?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 21:39

17 identicon

Þú ert nú meiri brjálæðingurinn og morðinginn, Hans Haraldsson. Viltu virkilega að mjólk og brauð sé selt almenningi innan um grænmeti og ávexti og aðrar nauðsynlegar og nærandi vörur? Mér finnst löngu tímabært að banna sölu á áfengi, tóbaki, sykri, karbóhýdrötum, hvítu hveiti, mjólkurvörum og öllum ólífrænum landbúnaðarvörum. Já, og kjöti.

 Hvers vegna haldið þið eiginlega að börn þjáist af offitu og hvers vegna haldið þið að fólk deyji fyrir aldur fram af krabbameini og hjartasjúkdómum og öðru? Það af vegna þess að við erum að senda skilaboð um að það sé allt í lagi að hafa forræði yfir eigin líkama með því að leyfa almenna sölu á svona óþverra.

Tökum forræðið af almúganum og neyðum fólk til heilsu! 

Gunnar Hrafn Jónsson (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 23:30

18 identicon

Baldur á það til að ná húmornum ágætlega upp eins og í færslu 13 þar sem hann kemur með ágæta framtíðarsýn á stjórnmálaferil Bjarna Harðarsonar

En aftur að máli málanna. Reyktir þú Baldur einhverntíman á lífsleiðinni?

Mín lausn varðandi tóbakið er ekki að hætta að selja það í búðum enda tel ég að það myndi lítið gefa sig. Ég myndi byrja á að hefja ræktun nikótínslaus tóbaks sem ég myndi svo sitja á markað og henda hinu tóbakinu út. Mönnum yrði svo gert ljóst að eftir 5 ár yrði Ísland tóbakslaust land. Þarna fengju menn því aðlögunartíma til að hætta erfiðri fíkn. 

Johnny Rebel (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 05:53

19 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Já, bönnum tóbakið bara alveg. Þá verður þetta svona eins og með bjórinn í denn. Mér dettur alltaf í hug skets úr gömlu Skaupi; maður pantar sér bjór á barnum og barþjónninn forvitnast um starf mannsins á meðan hann hellir í glasið. Ég man þetta nú ekki alveg orðrétt, en samtalið var eitthvað á þessa leið;

Barþjónn: "Ertu sjómaður, já?"

Kúnni: "Nei, nei, nei."

B: "Flugmaður þá!"

K: "Nei, ekki heldur."

B: "Nú! Sendiherra!?"

K: "Nei, elskan mín, ég er bara venjulegur."

B: "Nú, þá máttu ekki fá bjór!!!"

Það hefur aldrei verið góð hugmynd að senda vörur í undirheimana. Það virkaði ekki með áfengið, það virkar ekki með dópið og það mun ekki virka með tóbakið heldur.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 17.5.2008 kl. 06:28

20 identicon

Skammastu þín Baldur fyrir að neyða mig til þess að vera sammála Bjarna Harðarsyni og ósammála þér. Dagmömmu þjóðfélag er ekki eitthvað sem ég styð.

Þetta gæti flokkast sem ofbeldi meirihluta gagnvart minnihlutahóp og þetta flokkast pottþétt sem forsjárhyggja. Það er ofboðslegur hroki fólginn í forsjárhyggju. Hún felst í því að stjórnmálamenn, oft vinstra meginn, finna sig knúna til þess að segja öðru fólki hvernig það á að haga sér, stýra því hvað það á að borða, hvar það má reykja og svo framvegis. Forsjárhyggja er ein hrokafyllsta hegðun sem nokkur maður getur tekið sér fyrir og lýsir þeirri skoðun viðkomandi að hann sjálfur hafi til að bera yfirburðar vitsmuni og hæfileika til að segja öðru fullorðnu heimskara fólki sem veit ekki betur, hvernig á að haga sér.

IG (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 13:30

21 Smámynd: kiza

Má einnig benda á að önnur ástæða fyrir að Bónus selur ekki sígarettur er vegna þess að á kössunum hjá þeim vinnur aðallega fólk sem hefur ekki náð  18 ára aldri og má lagalega séð ekki selja tóbak.  Bæði það, og staðreyndin að leyfin og gjöldin sem búðin þarf að borga fyrir að selja  þetta, og á sama tíma fá varla neinn gróða í hönd...Haldið þið virkilega að Bónus sé að þessu út af góðmennsku sinni?  ...frekar barnalegt sjónarmið þar.

Fyrst að tóbakið er svona hrikalega mikið þjóðarmein, af hverju er þá ekki bara búið að gera þetta ólöglegt? Ég má ekki reykja sígarettur inni á skemmtistaðnum sem ég kaupi þær á (dýrum dómum nota bene), NEI, ég þarf að fara út og helst ekki sjást. En á sama tíma er ríkið sátt við að flytja þetta inn og selja fólki (með stöðugum verhækkunum), en fordæmir neyslu þess á sama tíma?   Þetta er háborin hræsni, skil ekki að fólki finnist þetta ekki eitthvað undarlegt.  Og ég hef reynt að kaupa sígarettur í Ríkinu á bæði Austurstræti og í Kringlunni, en þeir bara selja það ekki þar! Þrátt fyrir að kalla sig Áfengis-og TÓBAKSVERSLUN Ríkisins!!  Hvað er málið með það?

Baldur þú segist hafa tekið þátt í að "koma á reyklausu Íslandi" , ég sé nú ekkert að það sé reyklaust með alla andskotans stubbana fljúgandi um allar götur...en hvert á maður svosem að henda þessu þegar engin stubbahús eða tunnur eru til staðar hjá veitingastöðunum og maður má svo sannarlega ekki koma með þá inn aftur..?

Finnst bara að Ríkið eigi að "shit or get off the pot" varðandi tóbakið.  Annaðhvort er þetta löglegt eða ekki, og reglugerðir ættu að fara eftir því. Fáránlegt að skikka eigendur fyrirtækja til að banna fólki að reykja (sbr. kaffihús og skemmtistaði) en bjóða þeim að selja varninginn á uppsprengdu verði!

Hver er svo statusinn á reykingaherberginu í Alþingishúsinu, getur einhver sagt mér það?

- Jóna.

kiza, 17.5.2008 kl. 15:14

22 identicon

Bílar og vestræn neysla er eitthvað sem banna ætti strax. Fólki finnst hinsvegar óþægilegt að horfast í augu við slíkt, velur sér frekar eitthvað annað til að pirra sig á. Ákveður síðan í framhaldinu að bjarga heiminum með tóbakstuði og nagladekkja-banni.

maggi (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 17:55

23 Smámynd: Zaraþústra

Hvað með að við afnemum bara bann, tolla og syndaskatta á öllum vímuefnum?

Zaraþústra, 17.5.2008 kl. 18:07

24 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Hvernig væri að fólk snéri sér að sjálfu sér og léti náungan í friði og hans lesti. Þessi forsjárhyggja  er komin langt út í öfgar og auk þess eins og Freddy Mercury sagði WHo wants to life for ever.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 17.5.2008 kl. 19:41

25 Smámynd: Ylfa Lind Gylfadóttir

Það er svooooooo gott að reykja

Ylfa Lind Gylfadóttir, 18.5.2008 kl. 01:15

26 Smámynd: Alexander Kristófer Gústafsson

Ég er ÓSsammála kommalýðinum hér

Alexander Kristófer Gústafsson, 18.5.2008 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband