Jóns Ólafssonar á Kirkjulæk minnst!

Hún var falleg Fljótshlíðin í gær en þangað fór ég til að fylgja frænda mínum fjarskyldum og kunningja Jóni Ólafssyni á Kirkjulæk í Fljótshlíð.  Jón lést aðeins 53ja ára gamall eftir erfið veikindi.

 Að Breiðabólstaðarkirkju dreif að fólk hvaðanæfa. Jón var vinsæll af sveitungum og öðrum sunnlendingum enda manninum margt til lista lagt, kvæðamaður, hagyrðingur, söngmaður, húmoristi, hleðslumaður, smiður, ættjarðarvinur. Óvenju hæfileikaríkur maður  Jón Ólafsson frá Kirkjulæk og greinilegt var að fráfall hans snart marga djúpt. Sennilega hafa verið um 800 manns við jarðarförina. Fólk sat í bílum sínum og hlýddi á sálmasöng og ágæta ræðu Hjálmars Jónssonar og þegar dró að lokum athafnar stigu menn úr bílum sínum og söfnuðust saman fyrir utan kirkjuna.  Það var fallegt og eftirminnilegt að sjá.  Veðrið lék við syrgjendur og í hlíðinni fyrir ofan léku sér hestar, fuglarnir sungu.  Karlakór Rangæinga stóð heiðursvörð. 

Fljótshlíðin er fjölmenningarlegt samfélag. Innan um bændur og búalið þjóðþekkt andlit stjórnmálamanna og fjármálajöfra.  Jón hafði það sterka nærveru og var það hlýr maður að hann tengdist öllum sem hann umgengst og greinilegt var að allir vildu honum fylgja.  Með honum er góður og eftirminnilegur maður genginn.

Eftir stendur kaffi Langbrók sem hann rak ásamt fjölskyldu sinni og Meyjarhofið sem hann reisti og var vígt fyrir rösku ári.  Meyjarhofið verða menn bara að koma og skoða.  Það er og verður minnisvarði um frábæran mann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband