Hrunið og einstaklingurinn — ábyrgð okkar

Anna S. Pálsdóttir og Arnfríður Guðmundsdóttir, Baldur Kristjánsson, Hjalti Hugason, Pétur Pétursson, Sólveig Anna Bóasdóttir, Sigrún Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson skrifa þessa grein í Morgunblaðið 22. mars:

 Eftir hrunið í haust hafa ágengar spurningar skotið upp kollinum og gömul spakmæli öðlast nýja merkingu. „Maður líttu þér nær“ og „maður þekktu sjálfan þig“ eru þar á meðal. Í anda þeirra viljum við sem þetta ritum þrengja sjónarhornið frá því sem verið hefur í fyrri greinum okkar og spyrja: Berum við hvert og eitt einhverja ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin?

Þegar við lítum yfir árin frá aldamótum höfum við flest talið að hagur samfélagsins færi batnandi. Tekjur okkar og þjóðarbúsins jukust, kaupmáttur óx, velta heimila og fyrirtækja varð stöðugt meiri. Dag hvern fræddu fjölmiðlar okkur um vísitölur sem fæst okkar vissu hvað mældu en allar fóru stighækkandi. Heimsmynd vaxtarins var haldið að okkur sem náttúrulögmáli. Furðu margir voru þeirrar skoðunar að aldrei aftur mundi kaupmáttur minnka og kjör versna, að samdráttur heyrði sögunni til og að aldrei aftur kæmi kreppa.

Gengið í glansheim

Við þessar aðstæður gengu mörg okkar inn í glansheiminn, héldu á vit drauma um velsæld og ríkidæmi. Glanstímaritin gáfu tóninn. Unga, fallega, ríka og fræga fólkið urðu hetjurnar sem við bárum okkur saman við í laumi.

Í samanburði við hina ríku virtust kjör hins almenna borgara annars flokks. Manngildi þess sem stóð höllum fæti var jafnvel dregið í efa. Klassísk gildi sem felast í að sníða sér stakk eftir vexti, una glaður við sitt eða sjá fegurð hins smáa féllu í gleymsku. Heilluð af hugarfari útrásartímans freistuðu sum okkar þess að gera drauminn að veruleika: taka þátt í kapphlaupinu um lífsgæðin og uppskera okkar hluta af góðærinu. Ekki skorti hvatningu eða fyrirmyndir. Lífstílsþættir í ljósvakamiðlum og helgarkálfar með dagblöðum buðu upp á innlit, útlit, mat, drykk, ferðir, dekur, spa, heilsu, lúxus, munað, neyslu.

Of mörg okkar létu sér ekki nægja að dreyma heldur hrundu draumnum í framkvæmd. Láni var bætt við lán — bankaláni var aukið við lífslán. Heimsmynd hagvaxtarins renndi stoðum undir það mat að öllu væri óhætt. Húsnæði var stækkað, skipt var um eldhúsinnréttingu, einum bíl bætt við, keyptur jeppi, frístundahús byggt, farið á skíði, flogið í sól, boginn spenntur. Án þess að bera saman það sem aflað var og hitt sem var eytt — tekjur og útgjöld — voru lifnaðarhættir hins ríka smátt og smátt teknir upp án þess að hugað væri að hinu fornkveðna að betra sé að afla áður en eytt er. Greiðslukortin, yfirdrátturinn, neyslulánin og kaupleigan gerðu okkur mögulegt að berast á, sýnast, standast samanburð, sanna okkur í kapphlaupinu um lífsgæðin.

Það var auðvelt að láta hrífast af draumsýn útrásartímans ekki síst þegar stofnanir og ráðamenn sem við treystum drógu ekki upp rétta mynd af ástandinu. Góðærið sniðgekk þó sum okkar og önnur létu það ekki villa sér sýn. Fyrir þau verður skellurinn vonandi minni nú.

Dansað kringum gullkálfinn

Kreppan vekur til vitundar. Spurningar vakna um hvað sé þess virði að eftir því sé keppt, í hverju felst hamingja, verðgildi, lífsfylling, manngildi? Hefur líf okkar í góðærinu falist í einlægri leit að þessu gildum? Eða stöndum við ef til vill uppi með þá óþægilegu tilfinningu að hafa verið höfð að ginningarfíflum þeirra sem mótuðu lífsstíl neysluhyggjunnar, sjálfskipuðu tískulöggunum sem enn er víða hampað þrátt fyrir hrun þeirrar heimsmyndar sem gat þær af sér, heimsmyndar vaxtar og neyslu.

Þegar augum er rennt yfir íslenskt samfélag síðustu ára leitar ævaforn mynd á hugann: heillað fólk, konur og karlar, ungir og gamlir, í hröðum taktföstum dansi í kringum gylltan kálf, tákn hins veraldlega glæsileika og munaðar. Myndin lifir í tungumálinu eins og fjölmargar aðrar vísanir til hinna helgu ritninga. Sá sem dansar í kringum kálfinn hefur tapað áttum misst sjónar á markmiðum, gildum, verðmætum, í versta falli hætt að greina milli góðs og ills.

Hvar vorum við í góðærinu? Stigum við dansinn? Létum við glepjast? Sitjum við eftir slæpt, áttavillt, ráðvillt, skuldug, snauð? Þetta eru spurningar sem við eigum að láta okkur varða. Máttur sefjunarinnar er mikill og það þarf sterk bein og glöggt auga til að láta ekki heillast af þeim gylliboðum sem haldið var að okkur af verslunum sem buðu vöruna, fjölmiðlum sem sköpuðu væntingar og fjármálafyrirtækjum sem buðust til að kosta neyslu okkar á góðum kjörum. Gleymum því heldur ekki að í neyslusamfélagi er eyðsla talin af hinu góða, neysla metin sem dyggð. Að standa álengdar og una glaður við sitt þótt lítið sé þýðir í því samhengi að missa af vagninum, verða undir í kapphlaupinu.

Stund sjálfsþekkingar

Í kreppunni rennur upp stund sannleikans, tíminn þegar hvert og eitt okkar verður að horfast í augu við sjálft sig og fortíð sína. Fæst okkar geta borið höfuðið hátt og staðhæft að við höfum verið ósnortin, stikkfrí, séð í gegnum hillingarnar og haldið fast við klassísku gildin, nægjusemi, sparnað, fyrirhyggju og allt hitt sem kastað var á safnhauginn í góðærinu. Í kreppunni rennur upp stund sjálfsþekkingar og játningar — syndajátningar: Við vorum flest með í dansinum bara mislangt frá miðjunni sem allt snerist um, mislangt frá gullkálfinum. Kreppa er tími iðrunar, yfirbótar. Kreppa er andráin þegar við snúum baki við því sem var og byrjum uppá nýtt.

Nýr sáttmáli

Hrunið, kreppan, ástandið, byltingarveturinn sem við lifum, kallar okkur öll til nýrrar ábyrgðar. Okkur ber að gera nýjan sáttmála við okkur sjálf, börn okkar, barnabörn, landið og allt sem okkur er heilagt — sáttmála um að byrja uppá nýtt. Við ættum að strengja þess heit að frá og með þessum vetri afhjúpunarinnar munum við vera á verði, ekki trúa gagnrýnislaust þeirri heimsmynd sem að okkur verður haldið í framtíðinni. Við skulum vera sjálfum okkur trú. Við skulum sækjast eftir því einu sem við teljum rétt og bæði okkur og samferðafólkinu fyrir bestu. Aldrei aftur skulum við þegja yfir því sem við teljum satt eða láta undir höfuð leggjast að mótmæla því sem við teljum rangt eða falskt. Aldrei aftur skulum við láta segja okkur fyrir verkum, beygja okkur eða láta þagga niður í okkur.

Anna Sigríður Pálsdóttir
Arnfríður Guðmundsdóttir
Baldur Kristjánsson
Hjalti Hugason
Pétur Pétursson
Sigrún Óskarsdóttir
Sigurður Árni Þórðarson
Sólveig Anna Bóasdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Við ættum að strengja þess heit að frá og með þessum vetri afhjúpunarinnar munum við vera á verði, ekki trúa gagnrýnislaust þeirri heimsmynd sem að okkur verður haldið í framtíðinni. Við skulum vera sjálfum okkur trú. Við skulum sækjast eftir því einu sem við teljum rétt og bæði okkur og samferðafólkinu fyrir bestu. Aldrei aftur skulum við þegja yfir því sem við teljum satt eða láta undir höfuð leggjast að mótmæla því sem við teljum rangt eða falskt. Aldrei aftur skulum við láta segja okkur fyrir verkum, beygja okkur eða láta þagga niður í okkur.
Vel mælt.

Matthías Ásgeirsson, 23.3.2009 kl. 13:18

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Sæll Baldur og þakka þér fyrir þinn hlut í þessum greinum.

Einhvern tíman á þessum uppgangs tímum var talað um tvær þjóðir í landinu.

Okkur hérna á suð-vestur horninu hættir til að alhæfa út frá því sem við reynum á eigin skinni. Ég er viss um að þeim sem þurftu að draga saman vegna skerðingar á fiskkvóta finnst þeir ekki hafa dansað kring um gullkálfinn.

Svo eru eflaust einhver hér í fjölmenninu sem voru ekkert betur sett  í góðærinu en ella og hafa ábyggilega ekki haft þrek til að dansa yfirleitt.

Sáttmálinn sem gerður var að dansinum loknum segir mikið um það jafnvægi sem þarf að vera í sambandi Guðs og manns annarsvegar og samband manna á milli hinsvegar. Það er þetta með Guð og náungann.

 Mér finnst greinin góð og er alveg sammála Matthíasi um heitstrenginguna í lokin.

Langaði bara að koma hugleiðingum mínum til þín.

Kveðja HP

Hólmfríður Pétursdóttir, 23.3.2009 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband