Af túarbragðafræðslu í skólum og hræddri móður

Mér sýnist í fljótu bragði að ECRI sem er sú nefnd Evrópuráðsins sem sérhæfir sig í því hvernig vinna megi gegn misrétti í aðildarríkjum Evrópuráðsins sem eru fjörtíu og sex setji sig ekki upp á móti trúarbragðakennslu í skólum jafnvel þó að menn viti með sjálfum sér að trúarbragðakennsla í löndum þar sem er ríkjandi afgerandi kristin eða íslömsk hefð geti aldrei orðið hlutlaus.  Trúarbragðakennsla sem veitir ekki innsýn í siðferðisboðskap trúar eða innihald er útaf fyrir sig möguleg en harla lítils virði.  Þannig finnst mér t.d. að með dæmisögunni um miskunnsama samverjann sé allgóð hugmynd gefin um inihald kristinnar trúar og mér finnst að slíkar sögur eigi að kenna, en eðli málsins samkvæmt eru íslenskir kennarar ekki handgegnir dæmisögum sviðpuðum úr öðrum trúarbrögðum. Slagsíða er því óhjákvæmileg og fyllileg rökrétt reyndar, því að það eru þessar dæmisögur kristninnar sem hafa mótað okkur og þekking á þeim er nauðsynleg til skilnings á okkur sjálfum, hegðun okkar og bókmenntaarfi og samfélagi öllu.

 

ECRI, sem ég minntist á, hefur aðallega gert tvennskonar athugasemdir varðandi trúarbragðakennslu í Evrópu  Í fyrsta lagi þá að hún sé valfrjáls þ.e.a.s. að foreldrar ráði því hvort að börn þeirra séu í þessum tímum og í öðru lagi að óeðlilegt sé að immanar (íslamskir prestar) annist þessa kennslu.

Varðandi fyrri liðinn er lögð áhersla á það, að nemandi, hvers foreldrar kjósa að hafa utan trúarbragðakennslu, eigi skýran valkost.  Þannig sé búið um hnúta að viðkomandi finni ekki fyrir höfnum eða einsemd heldur sé litið á valið sem eðlilegan hlut og nemandinn sé ekki látinn hírast eða bíða heldur fái kennslu í einhverju öðru. Börn eru mjög viðkvæm og mega ekki með nokkrum hætti gjalda ákvarðana  foreldra sinna innan skólans.  Þetta getur verið snúið úrlausnarefni sérstaklega í litlum skólum ímynda ég mér en þetta er alvöru athugasemd og ber að leggja vinnu í það að þetta megi takast.  Ekki bara að beita klisjunni: Öllum er frjálst....eða börnin fá að lita....eða leika sér...eða það eru takmörk fyrir því.....

 

Þessar athugasemdir hafa verið gerðar við íslensk stjórnvöld og mörg önnur stjórnvöld.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér er ég sá í Blaðinu í dag að móðir biðst undan því að koma fram undir nafni og er að gagnrýna trúboð í skóla “af ótta við það að það kæmi sér illa fyrir barn sitt”  Við eigum að taka svona athugasemdir alvarlega því að við viljum auðvitað lifa í þjóðfélagi þar sem allir eru óhræddir og þori að segja meiningu sína í þessum efnum sem öðrum(ég geng út frá því að móðirin sé til og hafi rætt við blaðamann).  Ég vil taka það fram að mér finnst framtak Neskirkju, sem er ástæða fréttarinnar, frábært þ.e. að bjóða börnin velkomin eftir skóla og sé ekkert að því að Neskirkja fái að koma skilaboðum til nemenda á framfæri innan skólans.  En, eins og með trúarbragðakennsluna, þá má þetta ekki verða hluti af dagskrá skólans án þess að valkostur sé fyrir hendi.

Í Tyrklandi er ríkisvaldið hlutlaust í trúarefnum, þar er þó trúarbragðakennsla en Tyrkir sjálfir hafa tekið fyrir það að immanar sjái um þá kennslu.  Það hefur þó tíðkast í sumum löndum og hefur ECRI gert athugasemd við það. Mér finnst þessi athugasemd réttmæt og er auðvitað feginn því að samsvarandi háttur skuli vera aflagður á Íslandi að mestu leyti.  Þó ekki nema til að girða fyrir þann ótta foreldra að þarna sé um skefjalaust trúboð að ræða.

Vitaskuld er trúabragðakennslan í Tyrklandi, þó hlutlaust yfirbragð hafi, sterklega mótuð af því að Islam hefur mótað hugarheim manna og samfélagið allt líkt og kristnin hér. Þar er hún skylda í grunnskóalnum og það hefur verið gagnrýnt.

 

Að lokum skal það áréttað og á það bent að það eru ekki innflytjendur á Íslandi sem gert hafa athugasemdir við trúarbragðakennslu á Íslandi, hvorki Islamstúarfólk eða Búddistar eða Kaþólskir kristnir menn. Í þessum hópum er yfirleitt góður skilningur á fyrirkomulaginu íslenska enda það mjög hliðstætt því sem þeir þekkja í sínum upprunalöndum.  Athugasemdirnar eru alfarið frá fólki af íslensku bergi brotið sem er, virðist mér, að kljást við og glíma við frelsishugtakið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er mjög fín grein hjá þér Baldur, faglega skrifuð. Ég hafði dregið að lesa hana alveg í heild, en naut hennar í Blaðinu í dag yfir tebollanum. Að mestu leyti er ég sammála þér um málin, þú tekur á þessu af sanngirni, t.d. varðandi börn ókristins fólks, hvernig taka beri fullt tillit til þeirra og sinna þeim almennilega, meðan hin fá sína fræðslu.

En ég sé, að í Blaðs-gerðinni hefurðu aukið við þetta setningu. Í framhaldi af orðum þínum hér ofarlega, "í öðru lagi að óeðlilegt sé að immanar (íslamskir prestar) annist þessa kennslu," bætirðu þar þessum við: "Það sama ætti vitaskuld við að breyttu breytanda um presta annarra trúarbragða." -- Áttu þá við, að hvaða Þjóðkirkjumaður sem er megi standa að slíkri kennslu, en alls ekki prestur? Samt hafa prestar löngum annazt þessa fræðslu. Ætli kollegar þínir í stéttinni séu sammála þér í þessu efni? Og er hér verið að jafna saman sambærilegum hlutum? Getur ekki verið, að ímanarnir hafi allt aðra stöðu í sínu samfélagi en prestar hér -- meira yfirvald, meira kennivald, svo að veraldlegum stjórnendum Tyrklands hafi þótt varasamt að gefa þeim kennsluvald í skólastofum? Og kann það ekki enn að vera varasamt á þessum síðustu tímum, þegar róttækur islamismi hefur breiðzt út, jafnvel til sumra trúarhreyfinga í Tyrklandi? En er kristin kenning á Íslandi á nokkurn hátt sambærileg við þá róttækni og þá hávaðasömu pólaríseringu trúar og vantrúar, islam og kristni Vesturlanda, sem þar er á ferðinni (hvort sem það er í ætt við wahhabítismann eða jafnvel hina herskáu stefnu al-Qaída)?

Það væri gaman að fá svar frá þér við þessu. Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 12.1.2007 kl. 12:51

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll Jón Valur! Skynsamleg athugasemd hjá þér Jón Valur.  Er meðvitaður um hugsanlegan mun þarna en það segir sig sjálft að ég, sem kristinn prestur, get ekki verið hlutlaus dæmandi í þessum efnum og setti þetta því inn.  Mun svara þessu betur seinna eða fjalla um það betur. Þakka falslaust hrós. kv.  baldur

Baldur Kristjánsson, 12.1.2007 kl. 18:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband