Hið lífræna æði mitt og trúvörnin situr á hakanum!

Á meðan þjóðkirkjan logar stafna á milli út af uppátæki símans er ég að rembast við það að hafa eingöngu lífrænt á boðstólum hérna heima. Ég hef raunar margar skoðanir á þessu símamáli. Stundum er ég hálf sár og leiður yfir þessu.  Stundum finnst mér þetta uzz og fuzz út af engu. Stundum er ég þakklátur Símanum fyrir það að koma Jesú Kristi á dagskrá (Ekki tekst okkur í kirkjunni það of vel).  Við gætum nefnilega notað tækifærið og reynt að halda trúnni sem lengst inní umnræðunni, fræða um altarisskaramentið, krossfestinguna og kenninguna og kirkjulist, útskýra hvað orðið heilagt merkir og af hverju mannleg nauðsyn knýr á um að eitthvað sé heilagt og rökræða þá við þá sem eru á öðru máli.

 Reyndar fannst mér biskupinn hefja þessa fræðslu og það sem frá honum kemur er allgott en það vantar slagkraftinn, eftirfylgnina, næsta skref, jákvæðnina, síðast en ekki síst.  Kirkjan minnir svolítið á lið sem hefur tapað í fótbolta er sárt og svekkt og hefur allt á hornum sér. Þannig haga sér ekki sigurvegarar og kirkjan er jú að boða sigurvegara. 

Já, síðan ég las um bresku rannsóknina sem sýnir að börn sem eru tekin af þessum venjulega unna mat þar sem allt er vaðandi í rotvarnarefnum og litaefnum og tekin af grænmeti sem er útbýjað af skordýraeitri –tekin af þessu öllu og látin borða lífrænt grænmeti og ávexti, brauð, óunna kjötvöru og fiskvöru –þessi börn verða róleg  segja niðurstöður og viðráðanleg.  Það er að segja, viðbættu efnin í matvöru gera börn eirðarlaus og óróleg og æðibunuleg. Síðan ég las um þetta ræ ég enn fastar á heilsumiðin, fæ grænmeti, ávexti, jógúrt og brauð frá Akri í Biskupstungum og er daglegur gestur í lífrænum hornum matvörubúðanna en lífrænu hornin fara núna skánandi. 

Núna eyði ég meiri tíma í að viða að mér lífrænni matvöru og útbúa girnilega rétti en nokkurn tímann fyrr á lífsleiðinni, og trúvörnin situr á hakanum.  Þetta eru stórkostlegir tímar. 

Og ég er ekki frá því að allir séu miklu rólegri í kringum mig.  Börnin eru svei mér þá hætt að tala í falsettu og hætt að leggja stofuna í rúst á hverju kvöldi og fara ógrátandi í rúmið. Ég bendi á þessa bresku rannsókn hana má enn finna í netútgáfum bresku blaðanna ef maður/kona skrollar svolítið niður og þar má sjá myndir af breskum fjölskyldum sem virka þreyttar, feitar og óhamingjusamar fyrir en geislandi af lífsgleði og vellíðan eftirá. Já, kirkjan verður eiginlega að fyrirgefa mér þó að ég hafi ekki tíma til að svekkja mig á Símanum. 

Nú hringir hann. Þannig hefur síminn minnt á sig í gegnum tíðina, en tímarnir breytast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Já einmitt, nota slagkraftinn og spá í trúmálin.  Mér finnst þetta flott auglýsing, vel gerð og leikin og vekja upp góðar spurningar/efasemdir.  Mætti bara halda að þjóðkirkjan hafi verið að auglýsa.  Ég er svo innilega sammála presti einum sem segist hafa mun  meiri efasemdir um auglýsingar kauphéðan fyrir fermingar.....................og enginn/fáir gagnrýna það.

Og hefuru nægan tíma til að vafra um og leita að öllu þessu lífræna, og efni á því!!!

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 6.9.2007 kl. 23:21

2 Smámynd: LKS - hvunndagshetja

Er það ekki málið - kirkjan er alltaf í svipaðri stöðu og stjórnarandstaðan. Ég styð að þú útskýrir hvað felist í heilagleikanum, ég hélt ég vissi hvað orðið þýðir, en líklega er eitthvað extra sem mig grunaði ekki ...

LKS - hvunndagshetja, 7.9.2007 kl. 06:57

3 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ef þér finnst vanta trúvörn þá ætti að vera lítið mál að skrifa trúvarnargreinar. Ótrúlega lítið af þannig efni sem kemur frá hátt í 200 prestum Þjóðkirkjunnar. Mætti halda að málstaðurinn væri svona lélegur.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 7.9.2007 kl. 12:20

4 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Sæll Baldur minn! Mér finnst nú eiginlega nóg að síminn minni á sig, þegar hann hringir. Ég veit ekki hvort það er ástæða til þess að setja sig í hneykslunarstellingarnar út af auglýsingu. Eigendur þessara fyrirtækja vilja græða og "þá er svo sem sama hve sál vor er músíkölsk". En eins og bent er á, á öðrum stað (bloggi SGT), þá er búið að ráða Júdas til Símans. Hvort hann er ráðgjafi um verðlagsmál, siðferði, eða um almannatengsl, er ekki vitað. En kannski þjóðkirkjan ætti að leita til Lúsífers um aðstoð. Hann er þekktur fyrir mikil úrræði og einstaka lagni við að vekja athygli. 

Sigurður G. Tómasson, 8.9.2007 kl. 22:43

5 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Ég gleymdi nú eiginlega að spyrja að því hvort þeir hlaupi nú allir til, sem hrífast af Júdasi, og kaupi sér síma?

Sigurður G. Tómasson, 8.9.2007 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband