Þorlákshöfn: Ýldulykt frá forsetaverðlaunuðu fyrirtæki!

Það er ekkert hlustað á íbúa Þorlákshafnar.  Kvartanir þeirra um ýldulykt frá Lýsi h/f, lykt sem er úr öllu samhengi eru virtar að vettugi. 600 íbúar settu nafn sitt undir kvörtunarskjal sem engan árangur bar. Forsetaverðlaunað fyrirtæki dreifir hér ýldulykt, dögum saman, vikum saman, árum saman – langt umfram önnur samskonar fyrirtæki. Fólkið sem, stjórnar því býr í fínum hverfum í Reykjavík þar sem ýldulykt er bönnuð. Stundum skreppur það á Bessastaði og tekur við verðlaunum fyrir sóðaskapinn. Fólkinu sem býr í kringum verksmiðjuna er ekki boðið af því að það er ýldulykt af fötum þess.  Heilbrigðiseftirlit Suðurlands talar bara um reglugerðir og úrskurðarnefndir og fresti, það sama gerir Umhverfisstofnun.  Meirihluti Sjálfstæðismanna í Ölfusi virðist alveg valdalaus í þessu máli. Þegar ég skrifa þetta er ýldulyktin í vitum mér og hefur verið undanfarna daga.  Hún sest í föt og sængurföt. Fyrirtækið hótar einstaklingum sem kvarta málssókn. Ég ætla að birta hérna bréfaskipti Guðmundar Oddgeirssonar íbúa við Umhverfisstofnun og fleiri aðila.

 

Kerfið er hannað þannig að venjulegt fólk gefst upp.

 

Þeir sem verja fyrirtækið búa annars staðar og tala af belgingi um það að Íslendingar verði nú að vita úr hverju þeir séu gerðir og tala svo spekingslega um sjávarpláss sem þeir hafa kannski aldrei komið í. Ég hef búið í sjávarplássum í tuttugu ár og veit að þessi ódaunn á ekkert skylt við fisklykt.  Þetta er ýldulykt sem stafar af óþrifnaði og skemmdu hráefni.

 

Ég birti hér sýnishorn af baráttu eins íbúa Þorlákshafnar Guðmundar Oddgeirssonar við kerfið sem kann ekki að mæla lykt með því að þefa. Kerfið hefur ekkert nef.

 

 

 

 From: Guðmundur Oddgeirsson [mailto:goddg@simnet.is]
Sent: 4. mars 2009 22:42
To: 'gislij@ust.is'; 'kolbrunh@althingi.is'; 'ogmundur@althingi.is'
Cc: 'Björgvin G. Sigurðsson'; 'Ólafur Áki Ragnarsson'; 'johanna@althingi.is'
Subject: Kúgun - Loftgæði - Umhverfissóðaskapur

 

Sæl Gísli Jónsson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, Kolbrún Halldórsdóttir Umhverfisráðherra og Ögmundur Jónasson Heilbrigðisráðherra.

Þó svo að við í Þorlákshöfn höfum dregið úr kvörtunarpóstum okkar þá er það ekki svo að ástandið sé eitthvað betra.  Ýlduumsátrið er búið að vera skelfilegt undanfarnar vikur og mánuði og nú þessa dagana keyrir um þverbak.  Núna þegar þetta er skrifað dugar ekki einusinni að loka gluggum, ýldan smýgur inn um allt.  Umhverfissóðinn Lýsi hf ber enga virðingu fyrir rétti okkar bæjarbúa til loftgæða enda rækilega studdir af Heilbrigðisnefnd Suðurlands og þar með talið framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlitsins.  Sama er hægt að segja um Umhverfisráðuneytið að mínu mati og annarra sem hafa verið í baráttunni fyrir sjálfssögðum lífsgæðum.  Því miður hefur það sýnt sig að Umhverfisráðuneytið stendur ekki undir nafni, ekkert er gert með kærur og kvartanir eða beiðnir um úttekt á þessum málum.  Okkur íbúunum er þvælt út og suður með einhverri reglugerðar súpu þó að málið sé eins skýrt og hægt er að hafa það í lögum um loftgæði.  Það á enginn að hafa leyfi til þess að spúa yfir heimili okkar þvílíkum óþverra sem Lýsi hf gerir og ef okkur dirfist að koma skoðunum okkar á framfæri þá hótar verðlaunafyrirtækið Lýsi hf lögsókn eins var gert við mig vorið 2008.  Síðasta kvörtunarpósti sem ég sendi á Heilbrigðiseftirlit Suðurlands var svarað með þessum orðum ”Guðmundur þú ert dóni”.

 

Það vera meinað um að loftræsta heimilið og sofa við opinn glugga er farið að hafa áhrif á heilsufar okkar og við erum alvarlega farin að huga að því að flytja burt af staðnum og við erum ekki ein um það.  Við sjáum ekki fram á að breyting verði á meðan opinberar stofnanir sinna ekki skyldu sinni.  Það vantaði ekki fögur orð hjá fyrrverandi Umhverfisráðherra Þórunni Sveinbjarnardóttur þegar hún kom hér í heimsókn og farið var yfir málið með henni, efndir urðu engar.  Þegar var óskað eftir því að hún tæki á móti undirskriftarlista með nöfnum 600 kosningabærra íbúa sem mótmæltu því að Lýsi fengi endurnýjað starfsleyfi var því hafnað og nýtt starfsleyfi gefið út.  Svo eins og kemur fram í svari Gísla er síðustu kæru við útgefið starfsleyfi enn ósvarað.  Ég ætla ekki að fjalla hér um hvaða dragbítur umhverfissóðinn Lýsi hf er á eflingu atvinnulífs hér í Þorlákshöfn því bæjarstjórnin sendi bréf til ykkar um þau mál og fleiri sem snúa að þessu í lok síðasta mánaðar.

Hafi Umhverfisráðuneytið ekki úrræði til að koma íbúum sem þurfa að búa við skert loftgæði til hjálpar þá er eins gott að leggja niður stofnunina sem og svokallaðar heilbrigðisnefndir sem hafa bruðist þeim sem ber að verja.  Sennilega yrði brugðist fljótt og vel við ef ísbjarnarkofi væri staðsettur í nágrenni við mengunaruppsprettuna.

 

Ögmundur, þar sem þetta er heilbrigðismál þá skora ég á þig að beita þér í þessu máli, þú hefur sýnt það undanfarið að þú hlustar á þegnana.

 

Að lokum vil ég árétta að við hér í Þorlákshöfn búum við kúgun af hálfu Lýsis hf og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands með stuðningi Umhverfisstofnunar sem situr hjá og sinnir ekki sínum málum.  Við sem erum kúguð eigum ekki að þurfa að flýja, meinsemdina á að uppræta.

 

Kveðja,

Guðmundur Oddgeirsson

Þorlákshöfn.

 

 

 

From: gislij@ust.is [mailto:gislij@ust.is]
Sent: 25. febrúar 2009 10:58
To: Guðmundur Oddgeirsson
Subject: Re: Loftgæði - Umhverfissóðaskapur

 


Guðmundur Oddgeirsson

Vegna fyrirspurnar í tölvupósti dagsett 4. febrúar sl. um ýldulykt á Þorlákshöfn.

Fyrst er rétt að þakka fyrir fyrirspurnina, Umhverfisstofnun hefur iðulega hvatt til þess að fólk láti vita ef það er ósátt við starfsemi fyrirtækja eða aðra þætti umhverfismála. Vegna fyrirspurnarinnar um ýldulyktina í Þorlákshöfn frá 4. febrúar vill Umhverfisstofnun koma á framfæri eftirfarandi.

Umhverfisstofnun birtir gögn um vöktun á loftgæðum frá mælistöðvum á vef sínum. Á mælistöðvunum eru ýmis efni mæld, t.d. svifryk, nituroxið og brennisteinsvetni. Engar vöktunarmælingar eru gerðar á lykt enda eru þær mjög erfiðar þar sem lykt getur stafað af mörgum  efnum auk þess sem áhrif lyktamengunar er einstaklingsbundin. Engin mörk eru gefin upp vegna lyktarmengunar í reglugerð nr. 787/1999, um loftgæði. Engu að síður eru þar gerðar kröfur um loftgæði varðandi lykt, sbr. ákvæði 9. gr. reglugerðarinnar:  „Forráðamenn fyrirtækja og stofnana skulu sjá um að reykur, ryk og loftmengun sem eru hættulegar, daunillar eða lyktarmiklar, valdi ekki óþægindum í nánasta umhverfi“.

Ef mengun stafar frá ákveðinni starfsemi er skýrt skilgreint í lögum og reglugerðum að það er á ábyrgð viðkomandi rekstraraðila og starfsleyfisveitanda að taka á því máli. Hvað  varðar það mál sem þú vísar í, þ.e. lykt frá hausaþurrkun Lýsis í Þorlákshöfn, þá er slík starfsemi háð starfsleyfi heilbrigðisnefnda og eftirliti þeirra skv. reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sé mengun, og reglugerð nr. 786/1999, um mengunarvarnaeftirlit. Öll þvingunarúrræði eru einnig á hendi heilbrigðisnefndarinnar. Ákvarðanir þeirra eru kæranlegar til umhverfisráðherra í sumum tilfellum og annars til sérstakrar úrskurðarnefndar um hollustuhætti. Aðkoma Umhverfisstofnunar að þessum málum getur einungis verið í tengslum við umsagnir til þessara aðila ef þeir óska þess. Stjórnskipun landsins kveður á um aðskilnað ríkis og sveitarfélaga og Umhverfisstofnun hefur ekki boðvald yfir sveitarstjórnum eða heilbrigðisnefndum þeirra.

Umhverfisstofnun hefur hins vegar fylgst grannt með þessu máli og allar ábendingar og afrit af kvörtunum til Heilbrigðisnefnda og heilbrigðisefitlits sem íbúar Þorlákshafna hafa sent stofnuninni hafa verið skráðar og vísað til viðkomandi aðila eftir því sem við á.

Kæran vegna útgáfu starfsleyfis fyrir hausaþurrkun Lýsis á Þorlákshöfn liggur nú hjá umhverfisráðuneytinu. Það er ljóst að sá frestur sem ráðherra er gefin í lögunum sbr. 32. gr. laga nr. 7/1998 er liðinn. Umhverfisstofnun ber ábyrgð að hluta á þeim drætti. Stofnunin fékk kæruna til umsagnar en svaraði ekki fyrr en í október sl. Umhverfisstofnun þykir fyrir því að dráttur varð á svari stofnunarinnar til ráðuneytisins.

Umhverfisstofnun vill að lokum benda á að heimilt er að vísa ágreiningi um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Skal kæran borin fram við nefndina innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi ákvörðun berst. Kærur skal senda til Steinunnar Guðbjartsdóttur, formanns, Suðurlandsbraut 6, 4. hæð, 108 Reykjavík. Ef íbúar Þorlákshafnar hafa eitthvað að athuga með aðgerðir eða aðgerðarleysi Heilbrigðisnefndar Suðurlands í þessu máli þá er rétt að þeir skoði það hvort þeir vilji vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar.

Þér er svo velkomið að hafa samband aftur í gegnum tölvupóst eða síma, ef eitthvað þarfnast frekari skýringar eða ef þér finnst að einhver svör vanti.

kveðja
Gísli Jónsson

Bestu kveðjur, Best regards
Gísli jónsson
Sérfræðingur, Scientific officer
Framkvæmda- og eftirlitssvið, Environmental Supervision


Umhverfisstofnun, Environment and Food Agency of Iceland
Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík, Iceland
Sími / Phone: +354 591 2000
Bréfasími / Fax: +354 591 2010
Veffang / Webpage:
Http://www.ust.is


DISCLAIMER / UM TÖLVUPÓSTINN:
Http://www.ust.is/disclaimer

 

Sæl Sigurður B Finnssson og Birna Hallsdóttir.

Ég stíla þetta bréf til ykkar þar sem þið eruð skrifuð fyrir loftgæðamælingum.

 

Hvers vegna er ekkert finna um loftgæði á vef umhverfisstofnunar?  Hér á ég við skert loftgæði vegna ýldulyktar sem liggur yfir heimilum okkar hér í Þorlákshöfn svo dögum og vikum saman.  Ef ekki er hægt að vera með opna glugga á heimilum án þess að heimilið fyllist af ýldufýlu sem síðan situr í fatnaði og rúmfötum er það þá ekki mengun?  Er það ekki mengun þegar ekki er hægt að sofa við opinn glugga sem þó er mælt með sem heilsusamlegu?  Hvers vegna tekur Umhverfisstofnun ekki á svona mengunarmálum?  Hvers vegna sinnir Umhverfisstofnun ekki ákalli íbúa Þorlákshafnar sem hafa ítrekað sent til ykkar ábendingar og afrit af kvörtunum til Heilbrigðisnefndar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands?  Heilbrigðisnefnd og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gera ekkert til þess að stoppa ósómann sem dælt er út í umhverfið, yfir íbúðir bæjarbúa.  Hvert eiga íbúar Þorlákshafnar að snúa sér þegar stofnun í héraði sinnir ekki íbúunum?  Hvert eiga íbúar Þorlákshafnar að snúa sér þegar umhverfisráðherrann fyrrverandi Þórunn Sveinbjarnardóttir hafði ekki dug í sér til að svara kærum sem henni voru sendar?  Til hvers eigum við skattgreiðendur að kosta Umhverfisstofnum ef hún sinnir ekki íbúum sem vilja það eitt að njóta loftgæða?

 

Ég er talsmaður 6oo manna hóps hér í Þorlákshöfn sem berst fyrir loftgæðum og þess að við verðum virt viðlits.  Ég vona nýi yfirmaður, Kolbrún Halldórsdóttir ykkar standi með heilsu íbúanna öfugt við fráfarandi Umhverfisráðherra.

 

Kveðja,

Guðmundur Oddgeirsson

Setbergi 18

815 Þorlákshöfn

Gsm 6935035

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Það er leitt að ekki sé hlustað á vilja íbúa og einkar ólýðræðislegt.

Hilmar Gunnlaugsson, 5.3.2009 kl. 18:56

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Sendi mínum gamla heimabæ baráttukveðjur - mamma (Bergþóra Árnadóttir) barðist mikið fyrir því að til Þorlákshafnar yrði lagður almennilegur vegur en það þurfti mikla baráttu margra til að úr yrði - hún samdi meira að segja baráttulagið Þorlákshafnarvegurinn... og ef mig minnir rétt þá voru þau sem stóðu í þessu með einhverja aðgerð sem lokaði fyrir umferð - þetta var í kringum 1976 og stórmerkilegt að fólkið þarna þurfi enn að berjast fyrir jafn einföldum réttindum og hafa loftgæði...

Birgitta Jónsdóttir, 6.3.2009 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband