Ríkisstjórnin á hrós skilið!

Það er að koma í ljós að ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu er að standa sig mjög vel.  Sú ríkisstjórn tekur við erfiðasta búi lýðveldistímans en virðist vera að ná betri árangri en nokkur þorði að vona þrátt fyrir eilift tuð og populisma stjórnarandstöðunnar  og raunar úr öllum áttum einnig úr eigin ranni.

Eftir hrun tekur við algjört valdaleysi eða tómarúm sem allir reyna að stökkva inn líka aðalpersónur hrunsins.  Íslenska stjórnkerfið var jafn vanbúið að takast á við þau átök  eins og það var vanbúið að greina og takast á við hrunadansinnn  áður.  Samt hefur ríkisstjórninni tekist eftir vonum og umfram það.  Hún á hrós skilið.  Nú ætti fólk að fylkja sér betur að baki ríkisstjórninni og draga úr þessu eilífa tuði.  Þetta á ekki síst við um Ögmundararminn í Vinstri grænum og hægri arminum, ef arm skyldi kalla, í Framsókn. Sjálfstæðisflokkurinn virðist sem betur fer vera í sumarfríi.


Styðjum Össur- Ísland á heima í ESB!

Við eigum að ganga í ESB af mörgum ástæðum.  Fyrsta ástæðan er sú að vegferð okkar verður alltaf samofin vegferð annarra þjóða í Evrópu.  Önnur ástæðna er sú að þá geta útgerðarmenn gert upp í  evrum án þess að það verði fréttaefni.  Íslenskur almenningur getur gert það líka.  Þriðja ástæðan, þessu samofin, er sú að hagur alls almennings mun vænkast.  Fjórða ástæðan er sú að stjórnkerfið okkar fær það aðhald sem það sárlega þarfnast. Við munum m.a. læra að setja lög sem tryggja það  að arður af auðlindum haldist í landinu.  Þá mun hagur dreifðra byggða vænkast.  Landbúnaður þarf ekki að óttast ESB.  Hann þarf að laga sig að breyttum skilyrðum í veröldinni almennt, lækkun tolla, fríverslun etc. ESB aðilda gæti hjálpað honum við það.

Þá er ótalið að ESB er ásamt Evrópuráðinu helsti vettvangur framfara í mannréttindum, vinnuvernd og neytendavernd í veröldinni. Allt bitastætt í þessum efnum á þessari öld og þeirri síðustu í okkar heimshluta hefur komið frá þessum samtökum og ráðum.

Það er ástæða til að styðja Össur Skarphéðinsson með ráðum og dáð þessa dagana en þessi gáfaði og framsýni stjórnmálamaður vinnur þarft starf nú um stundir með eintómt múður og niðurrif úr öllum áttum á bakinu. Hvernig væri nú að fara að standa með honum og reyna að ná samningi sem verður það góður að langtíma ávinningur þjóðarinnar blasi við.


mbl.is Umræðan byggist á staðreyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mánudagsbræðingur BK

Það er vont að eldast og deyja. Það er þó gott fyrir samfélög því að manneskjan hreiðrar um sig verður værukær og valdagráðug, festist i hugsunum og flokkum, losnar ekki við bæjardyrnar.  Til allrar guðslukku eldist hún og deyr, nýjar kynslóðir komast að, breyta,þróa, hugsa upp á nýtt.

Til þess að stemma stigu við óheillaþróun stofna menn flokka um hugsjónir þar sem línur eru lagðar til framtíðar, leggjast svo sælir í gröf sína fullvissir um að hugsunarháttur þeirra muni lifa eigin hrörnun og dauða og það gerist, flokkar verða níræðir og hylla gegna foringja og gamlar hugsjónir, halda nýjum kyslóðum í böndum.

(Ekki þó Framsóknarflokkurinn.  Hann er óþægilega nýr samanber formann flokksins í sjónavrpsfréttum.  Hann minnti mig á gullfisk en gullfiskar hafa gullfiskaminni sem er 5 sekúndur.  Þeir geta synt í hringi og séð alltaf nýjan hring.  Ha?? Erlend fjárfesting! Helv..... alþjóðagjaldeyrissjóðurinn!! Ha?? erlend fjárfesting.........? H......alþjóða......)

Nei, þetta átti að vera um Vinstri menn.  Sem betur fer fyrir þá sem eru í hægri böndum koma sífellt nýir líkamar í vinstri stjórnirnar og spyrja : Til hvers er setið? og henda þeim áhrifum sem þeir þó hafa frá sér ,firnafast, svo áhrifin koma ekki aftur fyrr en enn ný kynslóð kemur og spyr enn tilfinningaþrungnari spurninga sem leiðir enn af sér áhrifaleysi um langan aldur.

Þannig geta lögmál lífs og dauða tryggt stöðugleika .


Einvaldsklær á Hornafirði!

Humarhöfnin, veitingastaður á Höfn í Hornafirði kemur þægilega á óvart. Hann er í öðru gömlu kaupfélagshúsanna í nágrenni við höfnina og byggir eins og nafnið gefur til kynna á humarréttum. Margt nýstárlegra humarrétta er þar að finna enda hefur einn eigenda Ari Þorsteinsson menntað sig og fengist við vöruþróun úr íslensku fiskmeti.  Þetta er fantagóður staður þannegin að maður er í hálfgerðu vellíðunarsjokki þann dag allan sem farið var og því skynslamlegt að fara í hádeginu.  Þarna er boðið upp á einvaldsklær og aðra frumlega humarrétti, venjulega humarrétti en einnig aðra fiskrétti og enn einnig kjötrétti. Hrifnastur var ég þó af djassaðri humarpizzu en öfundaði þó sessunaut minn sem fékk sér eina blúsaða.  Þar sem ég er frekar jákvæður krítiker verð ég að nota sterk orð til að lýsa gæðum matarins.  Þetta var matarupplifun.

Veitingahúsið sjálft stílhreint og fallegt. Þjónustan ágæt. Verðið í stíl við gæði þó ódýarara en á monthúsum í Reykjavík.


Ferðumst með bæjum....!

Vitiði af hverju jarðlögin í fjöllunum  umkring austfirsku firðina og dalina halla innávið, niður í átt til landsins? Það er vegna þess að jarðlögin halla í átt til megineldstöðvar.  Megineldstöðin í þessu tilviki er á sæðinu norður af vesturhluta Vatnajökuls og norðurum Öskju, Mývatn og Kröflu.  Alls staðar á landinu gerist þetta.  Við eldstöðvarnar hlaðast jarðefnin upp og þar er landið því þyngst og það er yfirleitt um miðbik landins, þó ekki alls staðar. Ef einhver jarðfræðingur rambar inn á síðuna má hann orða þetta betur þó ég efist um að það sé hægt slíkur snillingur sem ég er.

Best er að vera í bændagistingu ferðist maður um landið sitt. Þá kynnist maður fólki.  Við urðum dagþrota í Berufirði og nenntum ekki að tjalda og ákváðum að reyna að gista. Við vissum þó að jafn erfitt yrði að finna gistingu á suðausturhorni landsins 23ja júlí yrði eins og að finna krækiber á Jan Mayen í janúar. Við renndum samt heim að Berunesi þar sem rekin er heimsfræg bændagisting. Alltaf að fara í vegginn þar sem hann er hæstur…..Ólafur í Berunesi gat því miður ekki skotið yfir okkur skjólshúsi en hringdi í Eyjólfsstaði.  og viti menn þar var laust herbergi og þar uppi í Fossdalnum gistum við í gömlu húsi innan um fólk af margskonar þjóðerni undir verndarvæng getsgjafans yndislegrar konu og verður hún þó ekki nafngreind hér frekar en merkilegar konur allra alda.  Í Fossdalnum er í góðu veðri himneskt að vakna í fjalladýrðinni og þar halla fjöllin niður í vesturátt inn að landinu í átt til megineldstöðvanna.  Ferðumst með bæjum krakkar.


Vopnafjörður er fallegur bær

Vopnafjörður er fallegur bær.  Bærinn snyrtilegur, húsin vel máluð, garðarnir slegnir, fólkið vinsamlegt. Vekur athygli mína að fólkið setur ekki grindverk um garða sína.  Og umhverfið stórlega vanmetið.  Sjávarhamrar, fossar og fjallasýn algjört umdur. Sundlaugin í Selárdal gerir aðrar sundlaugar aumkunaverðar. Flakkaði svolítið um Langanesið.  Hér er allt of lítið traffík.  Nú liggur við að fólki bregði í brún þegar ferðamaður dúkkar upp. Það er ekki það að ég elski traffíkina en fólkið í ferðaþjónustunni verður að komast af.  Hvernig væri að gera ferðaskiptasamning við Kína.  Þeir flytji hingað hundrað þúsund kínverja til að ferðast um Langanes og Melrakkasléttu og við myndum í staðinn senda tíu Íslendinga til Kína.  það myndi blása lífi í söfn, kaffihús og hótel á svæðinu.

Búrkubannið í Frakklandi!

Frakkar hafa bannað búrkur. Ég geng út frá því að með búrkum sé átt við höfuðbúnað sem hylji allt nema augu (margar tegundir höfuðbúnaðs eru til).  Fyrsta nálgun mín er sú að bannið sé brot á mannréttindum.  Hvers vegna má fólk ekki klæðast eins og það vill?  þá dettur mér í hug að verið sé að frelsa konur undan ánauð karlaveldis? En hver á að dæma um það ef ekki þær sjálfar?  Getum við ekki á þessari forsendu farið að stýra öllum og öllu? Þá dettur mér í hug að nauðsynlegt sé öryggis vegna að fólk þekkist. Gild röksemd en þá finnst mér að Frakkar hefðu átt að orða þetta þannig að bannað væri að hylja andlit á almannafæri (ætti einnig við um margar tegundir mótórhjólahjálma).  Þá er rétt að halda því til haga að margar konur klæðast búrkum af trúarlegum ástæðum.  Rétt er að taka tillit til þess.  Gegnumsneitt finnst mér að fólk eigi að fá að klæðast eins og það vill klæðast og hneigist því til að vera andsnúinn bönnum af þessu tagi og hef tilhneigingu til að líta á slík bönn sem anga af forræðishyggju.  Getur einhver sannfært mig um annað?


Ómar í forsetann!

Hann hugsaði sig um eitt andartak, síðan helltist bros yfir barnslegt lífsreynt andlitið og úr höfðinu hljómaði röddin eins og úr góðum hátalara. ,,Já, það skyldi þó aldrei verða.  Ekki svo vitlaus hugmynd."  Ég hafði varpað því fram að Ómar Ragnarsson, einn af strákunum hans úr sjónvarpinu, yrði einn góðan veðurdag forseti lýðveldisins.  Og ég spyr enn: Af hverju ekki?  Ólafur Ragnar hefur gegnt embættinu með sínum hætti  í stíl við tímana.  Við virtum ekki alveg hvað við ætlum að gera við það næst.  Meðan við hugsum okkur um gæti Ómar á áttræðisaldri gegnt embættinu með stæl, flogið sjálfur um landið, talað við hvern mann, haldið fram náttúru landins, sameinað landsmenn í ást á þessu landi og fólkinu sem þar býr.  Frú Helga yrði fín forsetafrú. Ágætt kaupið gæti hann notað til þess að fullgera ókláraðar níu heimildarmyndir um landið.  Meðan Ómar yrði forseti yrði þeim fjármunum sem renna til embættisins vel varið.  Nógu alvarlegur?  Já, ég hef heyrt hann tala í kirkju tvisvar eða þrisvar.  Vantar ekkert um á það og skemmtilegurvar hann líka í þeim aðstæðum.  Séra Emil Björnssyni fannst þetta góð hugmynd.  Um hann orkti Stefán Jónsson:

Séra Emil giftir og grefur/glatt er í himnaranninum/eru á ferli úlfur og refur/í einum og sama manninum. 

En þetta var nú óskylt.  Það var fyrir 25 árum sléttum að við Emil sátum á bekk í Austurstræti og þetta bar á góma.  Og þessi stund í Austurstræti  rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las fantagott og ítarlegt viðtal við Ómar í DV í morgun.


Flottir Argentínumenn!

 Ég gleðst yfir því að Argentínumenn hafi komið á einum hjúskaparlögum.  Þeir eru á pari við okkur í þessu. Gleðin lýsti af andlitum þeirra sem fögnuðu.  Ég skil ekki þá sem andmæla af trúarlegum ástæðum.  Það er skrítin trú að vilja takmarka rétt annarra.


Öfug samþykkiskrafa v/ líffæragjafar!

Ég les mér til um það að fyrir Welska þinginu liggi tillaga um að leyfilegt verði að taka líffæri úr dánu/deyjandi fólki án þess að fyrir liggi samþykki þess.  M.ö.o. ef viðkomandi ber ekki á sér kort um það að hann/hún leyfi ekki að líffæri sé tekið/gefið verði litið svo á að hann hefði leyft /leyfi líffæragjöfina/tökuna. Verði þessi tillaga samþykkt verður Wales  fyrsta svæðið í Bretlandi sem þessi háttur verði hafður á skv. the Times í dag 14. júlí.

Mér finnst þetta athyglisvert og skynsamlegt.  Ætti að auka framboð á líffærum og bjarga fleiri mannslífum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband